Sigríður Magnea Óskarsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir spána því miður þannig að ólíklegt sé að það sjáist til tunglmyrkvans á vestari hluta landsins.
„Það er útlit fyrir, því miður, að það verði skýjað. Það er fallegt veður núna en það fer að draga fyrir sólu á Suður- og Vesturlandi um miðnætti og verður alskýjað klukkan sex. En á austurhelmingi landsins ætti þetta að sjást.“
Varir í sex klukkustundir
Fjallað er ítarlega um tunglmyrkvann á heimasíðu Sævars Helga Bragasonar og Gísla Más Árnasonar, Iceland at night. Þar kemur fram að tunglmyrkvinn muni alls var í sex klukkustundir og þrjár mínútur og þar af verði almyrkvi í um eina klukkustund og sex mínútur. Tunglmyrkvinn mun sjást best í Norður- og Suður-Ameríku og Kyrrahafi.
Þar kemur einnig fram að almyrkvi hefjist klukkan 06:26, nái hámarki 06:59 og að honum ljúki um 07:32. Sólarupprás er svo um 07:49 og hún getur haft áhrif á sýnileika.
Ekki þörf á sjóntækjum
Á vef Iceland by night kemur einnig fram að ekki sé þörf á neinum sjóntækjum til að sjá tunglmyrkvann en að skemmtilegra sé að fylgjast með honum í gegnum handsjónauka eða litla stjörnusjónauka.
„Við almyrkva verður tunglið rauðleitt á litinn. Ástæðan er sú, að ljós frá sólinni berst í gegnum andrúmsloft Jarðar og bregður rauðum blæ á tunglið. Sólarljósið ferðast í gegnum þykkara andrúmsloft sem dreifir bláu ljósi burt á meðan rautt, appelsínugult og gult ljós berst í gegn og lýsir upp tunglið. Rauði liturinn veldur því, að almyrkvar á tungli eru stundum kallaðir „blóðmánar“,“ segir einnig á síðunni.