Veður

Á­fram hvasst með suður­ströndinni

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður á bilinu núll til sex stig, en um eða undir frostmarki á Norður- og Austurlandi.
Hiti verður á bilinu núll til sex stig, en um eða undir frostmarki á Norður- og Austurlandi. Vísir/Anton Brink

Austlægar áttir ráða ríkjum á landinu þessa dagana og verður áfram hvassviðri eða stormur með suðurströndinni, en hægari vindur annars staðar.

Þetta segir á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að útlit sé fyrir skúri eða él á austanverðu landinu, en víða bjart veður vestantil. Í höfuðborginni bætir í vindinn upp úr hádegi og verður einna hvassast við Esjuna.

Hiti verður á bilinu núll til sex stig, en um eða undir frostmarki á Norður- og Austurlandi.

Á morgun dregur loks úr vindinum á öllu landinu og bætir í úrkomuna um sunnan- og austanvert landið. Líkur eru á að einhverjir dropar nái inn á suðvesturhornið í fyrramálið.

Hægur vindur og úrkomulítið á föstudaginn.

Ekki er útlit fyrir snjókomu á láglendi að neinu ráði næstu vikuna.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Minnkandi austanátt, 5-13 m/s síðdegis, hvassast syðst. Skúrir eða slydduél, en bjart með köflum og þurrt að mestu norðan- og vestantil. Hiti 0 til 8 stig, mildast sunnanlands.

Á föstudag: Austlæg átt 3-10 m/s, hvassast syðst. Dálítil él eða skúrir austantil, en styttir upp síðdegis. Annars að mestu þurrt. Hiti um frostmark, en víða vægt frost norðanlands.

Á laugardag: Austlæg átt 5-13 m/s og skúrir eða slydduél, en þurrt norðantil. Hiti um eða undir frostmarki, en upp í 5 stig með suðurströndinni.

Á sunnudag: Austan 8-13 m/s og slydda eða rigning, en úrkomulítið norðanlands. Hiti frá frostmarki fyrir norðan upp í 5 stig syðst.

Á mánudag: Suðaustlæg átt og rigning, einkum sunnantil, en lengst af þurrt fyrir norðan. Hlýnar heldur.

Á þriðjudag: Útlit fyrir stífa sunnan- og suðaustanátt og talsverða rigningu sunnanlands. Hiti 3 til 8 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×