Ástandið í heimsmálunum er ógnvænlegt. Öryggi og varnir Íslands hafa allt frá lokum seinni heimsstyrjaldar grundvallast á aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu (1949) og tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin (1951). Þróun mála í Bandaríkjunum frá valdatöku Trumps veldur áhyggjum og ákveðin teikn eru á lofti sem benda til þess að ný stjórnvöld í Bandaríkjunum telji sig hvorki bundin af alþjóðalögum né alþjóðasamningum. Hvað öryggi Íslands varðar skiptir höfuðmáli að Trump-stjórnin virði skuldbindingar ríkisins á grundvelli tvíhliða varnarsamningsins og 5. gr. NATÓ-sáttmálans sem segir að árás á einn meðlim jafngildi árás á alla. Þá er brýnt að Trump-stjórnin sé ekki með yfirlýsingar sem draga úr fælingarmætti ákvæðisins.
Þróun til verri vegar
Vonandi mun Trump-stjórnin standa við ofangreindar skuldbindingar sínar en íslensk stjórnvöld verða þó að vera undir það búin að þróunin verði á annan og verri veg. Ef marka má sumar yfirlýsingar Trump virðist hann hafa takmarkaðan áhuga á að tryggja varnir Evrópu og engin ástæða til að ganga út frá því að annað eigi við um Ísland. Þá hefur Trump sagt berum orðum að hann hafi áhuga á að innlima fullvalda ríki í Bandaríkin, með góðu eða illu. Þessi stefnubreyting frá öflugusta herveldi heims er afar óþægileg fyrir litla Ísland.
Ísland er ekki þátttakandi í stefnu Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum enda fellur sviðið utan við gildissvið EES-samningsins. Þær aðstæður kunna að skapast að öryggi lands og þjóðar krefjist þess að Ísland gerist aðili að samstarfinu.
Ef þróunin verður á hinn verri veg þurfa íslensk stjórnvöld að taka ákvörðun um hvernig best sé að tryggja öryggishagsmuni Íslands í viðsjárverðum heimi. Vera má að Evrópa byggi varnarsamstarf sitt áfram á vettvangi NATÓ, jafnvel þó að Bandaríkin yrði þar ótraustur bandamaður eða jafnvel heltist úr lestinni. Þó bendir ýmislegt til þess að Evrópa muni í framtíðinni frekar byggja varnarsamstarf sitt á grundvelli Evrópusambandsins.
Öryggis- og varnarmálastefna ESB
Ákvæði um sameiginlega utanríkis- og öryggisstefnu Sambandsins (e. Common Foreign and Security Policy) hafa verið hluti af ESB-sáttmálanum frá 1992. Með Lissabonsáttmálanum, sem tók gildi 1. desember 2009, var frekari stoðum rennt undir samstarfið með 42. gr. ESB-sáttmálans. Samkvæmt ákvæðinu skulu aðildarríkin leggja Sambandinu til borgaralega og hernaðarlega getu til að koma sameiginlegri stefnu í öryggis- og varnarmálum til framkvæmda. Þá samþykkja aðildarríkin að verði eitthvert „aðildarríki fyrir vopnaðri árás á yfirráðasvæði sínu skal hinum aðildarríkjunum vera skylt að bjóða fram aðstoð eins og þau frekast geta [...]“. Jafnframt er unnt á grundvelli 6. mgr. ákvæðisins að stofna til varanlegs, skipulegs samstarfs á þessu sviði. PESCO (e. Permanent Structured Cooperation) var einmitt sett á laggirnar á þeim grundvelli árið 2017. Markmið þess er að efla samvinnu í evrópskum varnarmálum og bæta hernaðarlega getu. Enn fremur samþykkti ESB áætlunina ReArm Europe í mars 2025 sem miðar að því að safna allt að 800 milljörðum evra til að bæta varnarmálafærni Evrópu og veita strax hernaðarlega aðstoð við Úkraínu.
Evrópu mun væntanlega stafa ógn af Rússum um ófyrirsjáanlega framtíð. Hver framvinda mála verður í Bandaríkjunum er erfiðara að spá um.
Upphaflega stóð Danmörk fyrir utan stefnu Sambandsins í öryggis- og varnarmálum. Með þjóðaratkvæðagreiðslu í júní 2022 samþykktu Danir að afnema undanþágu sína frá stefnunni og gerast fullgildur þátttakandi í varnarsamstarfinu, þar á meðal PESCO. Tímasetningin er varla tilviljun en sem kunnugt er gerðu Rússar allsherjarinnrás í Úkraínu 24. febrúar 2022. Er umhugsunarvert fyrir Ísland að frændur okkar Danir hafi tekið fyrrgreinda ákvörðun. Ísland er ekki þátttakandi í stefnu Sambandsins í öryggis- og varnarmálum enda fellur sviðið utan við gildissvið EES-samningsins. Þær aðstæður kunna að skapast að öryggi lands og þjóðar krefjist þess að Ísland gerist aðili að samstarfinu. Þarf þá að ræða af mikilli alvöru hvort það kalli á aðild Íslands að Evrópusambandinu eða hvort aðrar lausnir séu í sjónmáli, til dæmis einhvers konar varnarsamningur við Sambandið.
Evrópu mun væntanlega stafa ógn af Rússum um ófyrirsjáanlega framtíð. Hver framvinda mála verður í Bandaríkjunum er erfiðara að spá um. Íslensk stjórnvöld og almenningur þurfa að vera við öllu búin og ræða um öryggishagsmuni landsins af yfirvegun en ekki fyrirframgefinni afstöðu manna til álitamála sem nú hafa gjörbreyst.
Höfundur er prófessor og stjórnarformaður Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar HR. Greinin birtist fyrst á heimasíðu Tímarits Lögréttu Selecta.