Handbolti

Spennan gríðar­leg þegar ein um­ferð er eftir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Grótta náði í stig á Ásvöllum.
Grótta náði í stig á Ásvöllum. Vísir/Anton Brink

Þegar ein umferð er eftir af deildarkeppni Olís-deildar karla í handbolta geta enn þrjú lið staðið uppi sem deildarmeistari. Á sama tíma er spennan gríðarleg á botni deildarinnar þó svo að Fjölnir sé fallið. Liðið sem endar í 11. sæti fer í umspil um að halda sæti sínu.

Í Breiðholti vann ÍR gríðarlega mikilvægan sigur á Stjörnunni, lokatölur 34-32. Bernard Kristján Darkoh og Baldur Fritz Bjarnason fóru mikinn í liði ÍR og skoruðu 11 mörk hvor. Þá varði Ólafur Rafn Gíslason 18 skot í markinu. Hjá Stjörnunni skoraði Jón Ásgeir Eyjólfsson 7 mörk og Daði Bergmann Gunnarsson varði 16 skot í markinu.

Sigur ÍR þýðir að liðið er komið með 13 stig í 10. sæti. Stjarnan er með 20 stig í 7. sæti.

Á Ásvöllum gerðu Haukar og Grótta jafntefli, lokatölur 29-29. Skarphéðinn Ívar Einarsson var markahæstur í liði Hauka og Ágúst Ingi Óskarsson var markahæstur hjá Gróttu. Báðir skoruðu 9 mörk.

Haukar eru sem stendur í 5. sæti með 25 stig á meðan Grótta er í 11. sæti með 11 stig.

Afturelding tók á móti Fjölni í nágrannaslag þar sem heimamenn sýndu sínar bestu hliðar, lokatölur 34-20. Úrslitin þýða að Fjölnir er fallið. Liðið er með 8 stig í 12. sæti á meðan Afturelding er með 29 stig í 4. sæti.

Árni Bragi Eyjólfsson var markahæstur í liði Aftureldingar með 7 mörk. Þar á eftir komu Hallur Arason og Blær Hinriksson með 5 mörk hvor. Í markinu vörðu Einar Baldvin Baldvinsson og Brynjar Vignir Sigurjónsson samtals 19 skot. Tómas Bragi Starrason og Gunnar Steinn Jónsson voru markahæstir hjá Fjölni með 4 mörk hvor. Bergur Bjartmarsson varði 13 skot í markinu.

Í Kópavogi vann Valur átta marka útisigur á HK, lokatölur 25-33. Hjörtur Ingi Halldórsson var markahæstur hjá HK með 5 mörk á meðan Úlfar Páll Monsi Þórðarson, Magnús Óli Magnússon og Ísak Gústafsson skoruðu 4 mörk hver í liði Vals.

Valur er sem stendur í 2. sæti með 32 stig á meðan HK er með 16 stig í 8. sæti. 

Á Akureyri voru Íslandsmeistarar FH í heimsókn hjá KA og fór það svo að gestirnir fóru með sigur af hólmi en naumur var hann, lokatölur 25-26. Dagur Árni Heimisson var markahæstur hjá KA með 7 mörk á meðan  Jóhannes Berg Andrason skoraði 8 í liði FH.

FH er á toppi deildarinnar með 33 stig á meðan KA er í 9. sæti með 13 stig.


Tengdar fréttir

Leik lokið: Fram - ÍBV 43-36 | Fín fyrirheit fyrir Fram

Fram vann 43-36 gegn ÍBV í stórskemmtilegum leik, sem var jafn og spennandi framan af en leystist upp á lokamínútunum. Liðin sitja í þriðja og sjötta sæti deildarinnar og munu mætast í úrslitakeppninni ef ekkert breytist í lokaumferðinni sem verður spiluð í næstu viku. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×