Makamál

„Get ekki beðið eftir að eyða ævinni minni með honum“

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Parið fór í myndatöku fyrir Save the date kortin okkar fyrir brúðkaupið.
Parið fór í myndatöku fyrir Save the date kortin okkar fyrir brúðkaupið. Thelma Arngríms

Alexandra Sif Nikulásdóttir, áhrifavaldur og förðunarfræðingur, kynntist stóru ástinni, Arnari Frey Bóassyni, árið 2016. Saman eiga þau eina dóttur, Nathaliu Rafney, og ætla að fagna níu árunum saman með því að gifta sig í sumar. 

„Stuttu áður en ég kynntist Arnari hafði ég lesið stjörnuspá á netinu um hvaða stjörnumerki ættu vel saman. Þar stóð að tvær vogir ættu einstaklega vel saman, þar sem að þær jafni hvor aðra út. Það vill svo skemmtilega til að við erum bæði vogir og við jöfnum hvort annað svo sannarlega út,“segir Alexandra. 

Alexandra situr fyrir svörum í viðtalsliðnum Ást er.


Hvernig kynntust þið? Við kynntumst í líkamsræktarstöð af öllum stöðum sem var smá fyndið á þeim tíma þar sem ég vann sem þjálfari og keppti í fitness. Ég hafði nýlega klárað mjög sterkan húðlyfjakúr sem hafði mikil áhrif á andlegu hliðina og fannst mig vanta smá tilbreytingu í lífið. Ég prufaði því að skipta um líkamsræktarstöð og skrá mig í einkaþjálfun þar. 

Ég man enn svo sterkt mómentið þegar Arnar labbaði inn í stöðina einn morguninn, það fyrsta sem kom í hugann minn var: Vá hvað þetta er myndarlegur strákur!

Hávaxinn með dökkbrún augu og þykkt brúnt hár og það var bara eitthvað við hann. Ég komst svo að því að hann væri vinur stráks sem æfði líka í sömu stöð og að hann væri því líklega töluvert yngri en ég og spáði því ekki meira í því. Svo kynntist ég honum og vini hans hægt og rólega og komst að því að hann væri ekki bara myndarlegur, heldur líka skemmtilegur, góður og gaman að tala við hann. Hann og vinur hans komu svo óvænt að styðja mig þegar ég keppti á mínu seinasta fitnessmóti. Mér þótti ótrúlega vænt um það og fannst það frekar krúttlegt. Ég bauð þeim í partý til mín seinna um kvöldið og lá leiðin þaðan niður í bæ. Niðri í bæ var ég að reyna að koma Arnari saman með vinkonu minni sem er jafngömul honum, því mér fannst hann svo myndarlegur og góður strákur. Skömmu eftir það tók lífið þó óvænta u-beygju þar sem við byrjuðum svo að tala saman og rest is history!

Hvort ykkar tók fyrsta skrefið? Að einhverju leyti hann en ég var ekki alveg viss hvort að hann væri að reyna vera vinur minn eða mögulega að hugsa eitthvað meira. Ég þurfti þar af leiðandi að kanna það frekar og átti því lokaútspilið í því að taka fyrsta skrefið. Ég verð að segja að hafi verið frekar ólíkt mér á þessum tíma en ég er alveg einstaklega glöð með það í dag.

Á Rauðasandi á Vestfjörðum.

Fyrsti kossinn okkar: Hann átti sér stað í dyragættinni heima hjá mér þegar hann var á leiðinni heim eitt kvöldið og ég man að hjartað mitt tók smá kipp. Ég átti erfitt með að fara að sofa þetta kvöld því að allar tilfinningarnar voru á flugi að melta þetta móment.

Fyrsta stefnumótið? Ég hafði nýlega keypt mér sjónvarp eftir að hafa búið ein í minni fyrstu íbúð í ár með ekkert sjónvarp. Ég hafði fengið fullt af skemmtilegum bíómyndum til að horfa á þannig ég bauð honum heim að horfa með mér. Allar myndirnar sem ég hafði valið voru bíómyndir með Chris Hemsworth og Bradley Cooper honum til mikillar skemmtunar.

Hvernig myndirðu lýsa sambandinu ykkar: Sem hið fullkomna jafnvægi. Stuttu áður en ég kynntist Arnari hafði ég lesið stjörnuspá á netinu um hvaða stjörnumerki ættu vel saman. Þar stóð að tvær vogir ættu einstaklega vel saman, þar sem að þær jafni hvor aðra út. Það vill svo skemmtilega til að við erum bæði vogir og við jöfnum hvort annað svo sannarlega út.

Arnar er ótrúlega yfirvegaður, en það veitir ekki af því á okkar heimili þar sem að ég og dóttir okkar getum verið algjör fiðrildi og þurfum mjög oft að fá láta draga okkur niður á jörðina, það má því segja að hann sé eiginlega í fullri vinnu við það. Stundum hugsa ég hvernig hann fer að þessu með okkur tvær, hann er einstaklega þolinmóður og hugsar svo vel um stelpurnar sínar. Hann er ótrúlega gömul sál þrátt fyrir að vera fimm árum yngri en ég og hann þekkir mig oft betur en ég þekki sjálfa mig. Mér fannst til dæmis erfitt að velja mér brúðarkjól án þess að fá álit frá honum en það hafðist á endanum. 

Ég elska hvað við erum geggjað teymi saman en ég held að það sé einmitt lykillinn að góðu sambandi að vera liðsheild og geta talað saman um allt.
Fjölskyldan saman seinustu áramót heima.

Mér finnst rómantískt stefnumót vera: Við erum bæði mjög heimakær og því gæti það þess vegna átt sér stað heima. Það er alltaf hugurinn á bakvið sem skiptir mig mestu máli. Rómantískt stefnumót fyrir mér gæti verið allt frá því að eiga kósýkvöld heima yfir í fjallgöngu, göngutúr, út að borða, ferð erlendis eða bara hvað sem er. Svo lengi sem við erum bara tvö að verja tíma saman. Það gerist ekki oft með eina litla skottu og ráðskonu á heimilinu og því extra dýrmætt þegar við eigum þannig stundir saman.

Uppáhalds rómantíska kvikmyndin mín er: Ég er rosalega léleg að horfa á sjónvarp og er ekki mikið að horfa á sömu hlutina aftur og aftur en mér finnst gömlu góðu bíómyndirnar eins og The Holiday, Bridget Jones og About a boy alltaf klassískar og mér fannst reyndar Anyone but you líka mjög skemmtileg.

Uppáhalds break up ballaðan mín er: Það er góð spurning! Ég var bara í einu sambandi áður ég kynnist Arnari og það er mjög langt síðan. Mig minnir að ég hafi ekki hlustað á neitt sérstakt break up lag á þeim tíma. Það er mér hinsvegar eftirminnilegt þegar ég var að vinna með vinkonu minni og hún var að hætta að tala við strák sem hafði ekki góð áhrif á hana og við hættum ekki að blasta I hate this part með Pussycat dolls og syngja með hástöfum.

Lagið okkar: Við eigum okkur ekki sérstakt lag saman en einhverntímann bjó ég til reel með laginu As it was með Harry Styles eftir að við fórum til Tene með stelpunni okkar og hún kallar það mömmu, pabba og Nathaliu lag og mér finnst það svo sætt þannig það er smá svona lagið okkar óháð texta.

Annars erum við að fara gifta okkur og er planið er að dansa fyrsta dansinn við Hvar sem ég fer með Á móti sól þar sem það virkilega fallegt lag og textinn lýsir okkar sambandi svo vel. Ætli það verði ekki „lagið okkar“ eftir það.

Eigið þið sameiginleg áhugamál? Já, við eigum alveg margt sameiginlegt þegar kemur að áhugamálum. Við elskum að hreyfa okkur og ferðast. Við eigum til dæmis bæði racer sem við keyptum okkur þegar við kynntumst. Við fórum við oft saman á kvöldin að hjóla áður en við eignuðumst stelpuna okkar. Ég hef líka aldrei ferðast jafn mikið innanlands og síðan ég kynntist honum og farið í jafn margar fjallgöngur og göngutúra. Við erum svo bæði frekar listræn eða klár í höndunum og við getum oft tengt þá ástríðu saman eins og til dæmis í undirbúningnum fyrir brúðkaupið okkar og við höfum líka gaman af allskonar hönnun og ljósmyndun. Ég þarf svo bara að gefa mér betri tíma í að prufa golf til þess að komast inn í fjölskyldusportið hans.

Hvort ykkar eldar meira Arnar allan daginn! Eftir að ég var ólétt er ég mjög klígjugjörn og því hefur eldamennskan eiginlega alfarið færst yfir á hann. Svo er hann líka fáranlega góður bakari og er búin að mastera nokkrar uppskriftir. Nýjasta æðið hans er að gera heimagerða kleinuhringi sem eru ótrúlega góðir og hann gerir lang langbestu pizzurnar.

Haldið þið upp á sambands-og/eða brúðkaupsafmælin? Við höfum haldið í hefðina að gera eitthvað næs saman bara við tvö á sambandsafmælinu okkar og í ár ætlum við að gifta okkur um það leiti, þannig það verður klárlega tilefni til þess að halda í það framvegis.

Þegar við fengum stelpuna okkar í fangið í fyrsta skipti.

Eruði rómantísk? Við eigum okkar moments. Maður er einhvern vegin að lifa lífinu saman og oft mikill hraði og vinna og annað sem þarf að takast á við daglega. Þannig fyrir mér eru það litlu hlutirnir sem skipta máli eins og það þegar hann fer og kaupir fyrir mig ís þegar ég þrái ís en nenni ekki að fara út sjálf og kuapa mér því ég er komin í náttfötin og sloppinn.

Fyrsta gjöfin sem ég gaf manninum mínum: Ég þurfti að grafa mjög langt aftur í minnið fyrir þetta svar en ég gaf honum fyrst gjöf þegar hann útskrifaðist sem sveinn í bifvélavirkjanum.Ég bakaði handa honum köku og gaf honum Nike tech buxur með korti sem var með mynd úr bíómyndinni Cars sem mér fannst passa vel við tilefnið.

Fyrsta gjöfin sem maðurinn minn gaf mér: Hann fór til Bandaríkjana rétt fyrir fyrsta afmælið mitt og kom með ýmsar gjafir heim. Þar á meðal sérhannaða hvíta Nike skó með nafninu mínu á í þeirri týpu sem var uppháhalds hjá mér þá. Ég á þessa skó ennþá og mér þykir svo vænt um þá því hugsunin á bakvið þá er svo sæt.

Maðurinn minn er: 

Stoð mín og stytta í einu og öllu eftir okkar níu ár saman, veit ekki hvar ég væri án hans. Hann er algjör klettur og bestur allra !
Við þrjú saman á Akureyri sem við förum alltaf um Verslunarmannahelgina að njóta með vinafólki okkar þar.

Rómantískasti staður á landinu: Elliðaárdalurinn er í uppáhaldi hjá okkur. Svo finnst mér maður ekki þurfa neitt annað en uppáhalds manneskjuna sína og fallegt sólsetur og þá getur maður í raun verið hvar sem er í heiminum. Gerist ekki rómantískara en það. Það er kannski þess vegna sem dóttir okkar ákvað að fæðast á sumarsólstöðum.

Fyndnasta minningin af ykkur saman? Mér finnst alltaf smá fyndið að hugsa til þess að ég var í rauninni að koma honum saman með vinkonu minni og svo endaði ég bara með honum sjálf.

Ég ætlaði aldeilis ekki að byrja með honum en hér erum við níu árum seinna á leiðinni að gifta okkur.

Hver væri titillinn á ævisögu ykkar?

Hið fullkomna jafnvægi. Hvað gerið þið til að gera ykkur dagamun? Við förum í göngutúr, eldum góðan mat, gerum eitthvað með stelpunni okkar, ferðumst, hreyfum okkur og gerum líka hluti í sundur sem mér finnst svo mikilvægt til þess að rækta sambandið.

Lýstu manninum þínum í þremur orðum: 

Þrjú orð eru ekki nóg. En hann er ótrúlega klár, einstakur, bestur og engum sínum líkur. Það ættu allir að eiga einn Arnar í lífi sínu.

Hvar sérðu ykkur eftir tíu ár? Ég sé okkur hamingjusamlega gift og það væri draumur ef við værum orðin tveggja barna foreldrar. Þar sem að við eigum svo unga dóttur, þá hugsa ég að við verðum bara í þeim pakka sem við erum í núna að vera foreldrar en auðvitað með það að leiðarljósi að njóta og hafa gaman af lífinu.

Hvernig viðhaldið þið neistanum? Vá það er góð spurning! Ég held að við viðhöldum honum með því að vera við sjálf og taka lífinu ekki of alvaralega og gefum hvort öðru rými til þess að eiga tíma líka í sundur. Mér finnst við ekki þurfa að hafa beint fyrir því sem er kannski ástæðan fyrir því að við erum enn hér saman níu árum seinna.


Ást er ...

Einstök, sterk og mögnuð tilfinning sem eru engu öðru lík.

Ég gekk í gegnum ótrúlega erfiða tíma þegar dóttir okkar var 1-3 ára og alltaf stóð hann þétt við bakið á mér þrátt fyrir að ég væri upp á mitt allra versta. Hann bað mig meira segja um að giftast sér á þeim tíma sem ég var var að koma upp úr þessum erfiðu tímum sem mér finnst segja svo mikið um það hvað ást er mögnuð. Þetta var mjög auðvelt já og ég get ekki beðið eftir að eyða ævinni minni með honum.

Að lokum þá myndi ég segja að besta lýsingin mín á ást er ein acoustic útgáfa af lagi með hljómsveitinni Rudimental sem er sungið af söngvara sem heitir Will Heard og heitir I will for love. Stuttu eftir að við trúlofuðumst fékk ég Arnar til þess að skrifa nafnið á laginu í skrautskrift og lét húðflúra það á mig.

Textinn í laginu lýsir ást svo vel þannig ég leyfi link á lagið fylgja til þess að slá botninn í þetta viðtal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×