Uppgjörið: Grindavík - Hamar/Þór 91-90 | Grindavík í úrslitakeppnina eftir rafmagnaðar lokamínútur Siggeir Ævarsson skrifar 26. mars 2025 18:33 Isabella stal síðasta innkasti leiksins og tryggði sigur Grindavíkur. vísir/Ernir Grindavík vann eins nauman sigur á Hamar/Þór og hugsast getur. Með því tryggði liðið sér sæti í úrslitakeppni Bónus-deildar kvenna í körfubolta. Hamar/Þór er á sama tíma á leið í umspil um að halda sæti sínu í deildinni. Tímabilið var bókstaflega undir í Smáranum í kvöld. Síðasti leikurinn í deildarkeppninni og sæti í úrslitakeppninni undir og taplið kvöldsins á leið í umspil um sæti í deildinni. Gestirnir fóru vel af stað sóknarlega og voru að láta þristunum rigna, sex niður í átta tilraunum í fyrsta leikhluta. Grindvíkingar réðu hreinlega ekkert við Abby Beeman sem skoraði og skoraði og villurnar hrúguðust inn þegar þær reyndu að tví- og þrídrekka hana. Beeman var komin í 26 stig í fyrri hálfleik og heimakonur í brekku. Þær voru að spila þokkalega en gestirnir voru einfaldlega í algjörum ham og í hvert skipti sem munurinn minnkaði aðeins tók Beeman til sinna ráða. Staðan 52-60 í hálfleik og Hamar/Þór í góðri stöðu. Grindvíkingar virtust þó vera á réttri leið í upphafi seinni hálfleiks. Héldu aftur að Beeman og minnkuðu muninnn í fjögur stig, 65-69. Þá komu þrír þristar í röð frá gestunum og munurinn allt í einu rokinn upp í tólf stig. Grindvíkingar náðu þó smá áhlaupi fyrir lok leikhlutans og munurinn sjö stig, 71-78, fyrir lokasprettinn. Grindvíkingar fengu fullt af góðum sénsum í upphafi fjórða leikhluta til að minnka muninn en fóru illa með þau tækifæri. Þær gáfust þó ekki upp og Hulda Björk fyrirliði þeirra minnkaði muninn í fimm og síðan þrjú stig þegar tæpar fimm mínútur voru eftir. Á sama tíma virtust Hamars/Þórs konur fyrst og fremst vera að hugsa um að tefja en þrjár sóknir í röð hjá þeim kláraðist skotklukkan. Lokamínúturnar urðu æsispennandi en í stöðunni 89-90 brenndi Nunu Bradford af tveimur vítum, en hún brenndi af öllum sex vítum sínum í leiknum. Hamar/Þór fékk gullið tækifæri til að klára leikinn sem brást og Grindavík fékk því 28 sekúndur til að klára en brást bogalistin. Sofie Tryggedsson endaði svo á vítalínunni þar sem brotið var á henni eftir varnarfrákast. Grindvíkingar voru komnir í bónus og bæði vítin ofan í. Einu stig Sofie í leiknum en engu að síður mikilvægustu stig leiksins. Með 2,8 sekúndur á klukkunni höfðu gestirnir tíma fyrir skot en Grindvíkingar slógu boltann út af og svo stal Isabella seinna innkastinu. Lokatölur 91-90 í háspennuleik og Grindvíkingar taka síðasta sætið í úrslitakeppnini. Atvik leiksins Hér er ekki hægt að nefna neitt annað en vítin frá Sofie Tryggedsson sem tryggðu Grindavík sigurinn. Aðdragandinn var ekki síður merkilegur, en Hamar/Þór þurfti alls ekki að brjóta þar sem tíminn hefði einfaldlega hlaupið frá Grindvíkingum annars. Dómararnir Kristinn Óskarsson, Jakob Árni Ísleifsson og Ingi Björn Jónsson dæmdu leikinn í kvöld. Sko. Þeir félagar dæmdu urmul af villum á Grindvíkinga í fyrri hálfleik, svo margar að Þorleifur Ólafsson þjálfari þeirra, fékk tæknivillu fyrir tuð en honum fannst nóg um. Á móti kemur að næstum allar þessar villur voru dæmdar þegar brotið var á Abby Beeman en Grindvíkingar dekkuðu hana mjög stíft í kvöld, oftar en ekki fleiri en einn varnarmaður, stundum fleiri en tveir. Villan í lokin sem sendi Sofie á línuna kom örugglega illa við Hákon Hjartarson, þjálfari Hamars/Þórs sem neitaði að veita viðtal í leikslok, en þegar hún er skoðuð í endursýningu virðist vera um hárréttan dóm að ræða. Þar köstuðu Hamars/Þórs konur leiknum einfaldlega frá sér og úrslitakeppninni um leið. Stjörnur og skúrkar Hulda Björk Ólafsdóttir átti frábæran leik fyrir Grindavík. Skoraði 26 stig og mörg þeirra á mikilvægum augnablikum þegar Grindvíkingar voru að koma til baka. Daisha Bradford var sömuleiðis drjúg, 25 stig og tíu fráköst, þar af sex sóknarfráköst, flest þeirra reyndar eftir að hún hafði klikkað sjálf. Svo verður eiginlega að nefna Sofie Tryggedsson sem tryggði sigurinn með einu stigum sínum í kvöld og Isabellu Ósk Sigurðardóttur sem stal síðasta bolta kvöldsins og lokaði leiknum endanlega. Hjá gestunum var Abby Beeman einfaldlega óstöðvandi í kvöld. Skoraði 43 stig, tók átta fráköst og gaf níu stoðsendingar. Hársbreidd frá því að klára þennan leik einfaldlega. Hana Ivanusa var mjög góð meðan hennar naut við en hún lauk leik með fimm villur eftir að hafa aðeins spilað 21 mínútu og fimmta villan var sóknarvilla í ofanálag. Stemming og umgjörð Umgjörðin í Smáranum var til fyrirmyndar í kvöld. Mætingin í stúkuna var það aftur á móti ekki en það verður þó að gefa þeim áhorfendum sem mættu prik fyrir að halda uppi góðri stemmingu undir lokin, enda bauð leikurinn heldur betur upp á það. Viðtöl Kristrún Ríkey: „Heimskulegar villur og þá endaði þetta svona“ Kristrún Ríkey Ólafsdóttir er fyrirliði Hamars/ÞórsVísir/Anton Brink Kristrún Ríkey Ólafsdóttir, fyrirliði Hamars/Þórs, var hundsvekkt með úrslit kvöldsins og þá ekki síst með frammistöðu síns liðs en hún sagði að slæmar ákvarðanir í lokin hefðu kostað þær sigurinn. „Bara í rauninni að við tökum vondar ákvarðanir. Í rauninni ekkert annað. Við fáum stopp og tökum rangar ákvarðanir sóknarlega. Fáum á okkur heimskulegar villur og þá endaði þetta svona.“ Talandi um heimskulegar villur, þá var villan sem sendi Sofie á línuna klárlega ein af þeim. Má ekki segja að hún hafi kostað liðið sigurinn þegar upp er staðið? „Já, í rauninni. Það eru svo miklar tilfinningar í gangi núna, það er erfitt að segja nákvæmlega, maður þarf að horfa á þetta aftur. En já, það getur vel verið. Við tókum nokkrar heimskulegar villur í þessum leik og þetta var örugglega ein af þeim.“ Það var engu líkara en undir lokin væri Hamar/Þór fyrst og fremst að hugsa um að láta klukkuna líða og minna að hugsa um að gera út um leikinn en liðið kláraði skotklukkuna þrjár sóknir í röð og aðeins ein þeirra endaði með körfu. Það reyndist þó afdrifarík ákvörðun. „Við vorum að reyna að láta klukkuna ganga aðeins niður. Við vorum með forystu og við erum með Ameríkana sem getur tekið góðar ákvarðanir á stuttum tíma. Kannski voru það mistök hjá okkur, erfitt að segja núna.“ Nú er umspil um sæti framundan hjá Hamri/Þór en liðið mætir þar Selfossi. „Markmiðið okkar var náttúrulega alltaf að komast í úrslitakeppnina hérna. Við svekkjum okkur á þessu í kvöld svo byrjum við á undirbúningnum fyrir það strax á morgun.“ Þorleifur Ólafsson: „Ennþá sannfærður um að það býr meira í mínu liði“ Lalli mætir í Ólafssal fljótlega. Bryndís Gunnlaugsdóttir verður honum þó ekki til aðstoðar líkt og þegar þessi mynd var tekinVísir/Hulda Margrét Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var auðsýnilega ekkert hoppandi kátur með frammistöðu síns liðs í kvöld þrátt fyrir að sæti í úrslitakeppninni væri í höfn. „Ég bara tek þessi tvö stig og fara inn í úrslitakeppnina og allt það. Þetta var ekki það sem við ætluðum að sýna. Aftur get ég sagt karaktersigur, halda áfram og ekki gefast upp og þessi gamla rulla. Ég er ennþá sannfærður um að það býr meira í mínu liði. Við þurfum að gjöra svo vel að fara að gíra okkur í gang og finna það.“ „Það er mitt hlutverk, að finna eitthvað sem virkar og það sem við getum gert vel. Ekki hafa þetta flókið, bara auðvelt. Æfa betur það sem við ætlum að gera svo það séu allar á sömu blaðsíðunni. Staðreyndin er sú að við erum að fara að mæta Haukum sem er búið að vera langbesta liðið í vetur. Ef við snúum þessu ekki við og lögum eitthvað er þetta bara gamli góði sópurinn.“ Þorleifur talaði um fyrir leik að það væri undir hans leikmönnum komið að sýna viljann til að vinna og fara í úrslitakeppnina. Undir lokin fóru nokkrar sóknir hjá Grindvík algjörlega fyrir ofan garð og neðan en heimakonur héldu þó alltaf áfram og kreistu fram sigurinn, mögulega með viljann að vopni fyrst og fremst. „Mér finnst eins og alltaf þegar við vinnum þá er þetta einhver svona karaktersigur. Við sýnum einhvern neista af því sem við þurfum að sýna meira af. Maður þarf að gera sér grein fyrir því að þetta er til staðar og við getum þetta en það þarf bara að vera meiri einbeiting og fókus í 40 mínútur, eða allavega 35, svo að við getum farið að sýna alvöru frammistöðu.“ „Það er eins og ég sagði mitt hlutverk að finna einhverjar aðrar leiðir og kafa dýpra og finna lausnir svo við getum sýnt frammistöðu eins og við sýndum á móti Njarðvík í bikarleiknum en ekki í kvöld. En sem betur fer þá unnum við.“ Hulda Björk Ólafsdóttir, fyrirliði Grindavíkur, var frábær í kvöld og Þorleifur sparaði ekki hrósið og vonar að hennar frammistaða smiti út frá sér. „Hulda búin að stíga upp frábærlega sóknarlega og búin að vera stöðug. Það er kannski það sem skiptir máli. Hún heldur áfram að setja skotin sín og hreyfa sig vel án bolta. Lúmsk að komast á hringinn og að klára það. Ég er mjög ánægður með hana sóknarlega og vonandi bara koma hinar með.“ Grindavík mætir deildarmeisturum Hauka í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og það er alvöru verkefni. „Ég hata þetta „underdog“ orð alltaf en ég þarf ekki einu sinni að segja það. Það vita það allir. Við þurfum að eiga alveg frábæra þrjá leiki til þess að vinna Haukana. Haukunum nægir það að vera bara sæmilegar ef við erum ekki on. Það er bara staðreyndin. Við þurfum að keyra okkur í gang og mæta tilbúnar í þetta verkefni.“ Hákon Hjartarson, þjálfari Hamars/Þórs harðneitaði að veita viðtal eftir leik. Bónus-deild kvenna UMF Grindavík Hamar Þór Þorlákshöfn
Grindavík vann eins nauman sigur á Hamar/Þór og hugsast getur. Með því tryggði liðið sér sæti í úrslitakeppni Bónus-deildar kvenna í körfubolta. Hamar/Þór er á sama tíma á leið í umspil um að halda sæti sínu í deildinni. Tímabilið var bókstaflega undir í Smáranum í kvöld. Síðasti leikurinn í deildarkeppninni og sæti í úrslitakeppninni undir og taplið kvöldsins á leið í umspil um sæti í deildinni. Gestirnir fóru vel af stað sóknarlega og voru að láta þristunum rigna, sex niður í átta tilraunum í fyrsta leikhluta. Grindvíkingar réðu hreinlega ekkert við Abby Beeman sem skoraði og skoraði og villurnar hrúguðust inn þegar þær reyndu að tví- og þrídrekka hana. Beeman var komin í 26 stig í fyrri hálfleik og heimakonur í brekku. Þær voru að spila þokkalega en gestirnir voru einfaldlega í algjörum ham og í hvert skipti sem munurinn minnkaði aðeins tók Beeman til sinna ráða. Staðan 52-60 í hálfleik og Hamar/Þór í góðri stöðu. Grindvíkingar virtust þó vera á réttri leið í upphafi seinni hálfleiks. Héldu aftur að Beeman og minnkuðu muninnn í fjögur stig, 65-69. Þá komu þrír þristar í röð frá gestunum og munurinn allt í einu rokinn upp í tólf stig. Grindvíkingar náðu þó smá áhlaupi fyrir lok leikhlutans og munurinn sjö stig, 71-78, fyrir lokasprettinn. Grindvíkingar fengu fullt af góðum sénsum í upphafi fjórða leikhluta til að minnka muninn en fóru illa með þau tækifæri. Þær gáfust þó ekki upp og Hulda Björk fyrirliði þeirra minnkaði muninn í fimm og síðan þrjú stig þegar tæpar fimm mínútur voru eftir. Á sama tíma virtust Hamars/Þórs konur fyrst og fremst vera að hugsa um að tefja en þrjár sóknir í röð hjá þeim kláraðist skotklukkan. Lokamínúturnar urðu æsispennandi en í stöðunni 89-90 brenndi Nunu Bradford af tveimur vítum, en hún brenndi af öllum sex vítum sínum í leiknum. Hamar/Þór fékk gullið tækifæri til að klára leikinn sem brást og Grindavík fékk því 28 sekúndur til að klára en brást bogalistin. Sofie Tryggedsson endaði svo á vítalínunni þar sem brotið var á henni eftir varnarfrákast. Grindvíkingar voru komnir í bónus og bæði vítin ofan í. Einu stig Sofie í leiknum en engu að síður mikilvægustu stig leiksins. Með 2,8 sekúndur á klukkunni höfðu gestirnir tíma fyrir skot en Grindvíkingar slógu boltann út af og svo stal Isabella seinna innkastinu. Lokatölur 91-90 í háspennuleik og Grindvíkingar taka síðasta sætið í úrslitakeppnini. Atvik leiksins Hér er ekki hægt að nefna neitt annað en vítin frá Sofie Tryggedsson sem tryggðu Grindavík sigurinn. Aðdragandinn var ekki síður merkilegur, en Hamar/Þór þurfti alls ekki að brjóta þar sem tíminn hefði einfaldlega hlaupið frá Grindvíkingum annars. Dómararnir Kristinn Óskarsson, Jakob Árni Ísleifsson og Ingi Björn Jónsson dæmdu leikinn í kvöld. Sko. Þeir félagar dæmdu urmul af villum á Grindvíkinga í fyrri hálfleik, svo margar að Þorleifur Ólafsson þjálfari þeirra, fékk tæknivillu fyrir tuð en honum fannst nóg um. Á móti kemur að næstum allar þessar villur voru dæmdar þegar brotið var á Abby Beeman en Grindvíkingar dekkuðu hana mjög stíft í kvöld, oftar en ekki fleiri en einn varnarmaður, stundum fleiri en tveir. Villan í lokin sem sendi Sofie á línuna kom örugglega illa við Hákon Hjartarson, þjálfari Hamars/Þórs sem neitaði að veita viðtal í leikslok, en þegar hún er skoðuð í endursýningu virðist vera um hárréttan dóm að ræða. Þar köstuðu Hamars/Þórs konur leiknum einfaldlega frá sér og úrslitakeppninni um leið. Stjörnur og skúrkar Hulda Björk Ólafsdóttir átti frábæran leik fyrir Grindavík. Skoraði 26 stig og mörg þeirra á mikilvægum augnablikum þegar Grindvíkingar voru að koma til baka. Daisha Bradford var sömuleiðis drjúg, 25 stig og tíu fráköst, þar af sex sóknarfráköst, flest þeirra reyndar eftir að hún hafði klikkað sjálf. Svo verður eiginlega að nefna Sofie Tryggedsson sem tryggði sigurinn með einu stigum sínum í kvöld og Isabellu Ósk Sigurðardóttur sem stal síðasta bolta kvöldsins og lokaði leiknum endanlega. Hjá gestunum var Abby Beeman einfaldlega óstöðvandi í kvöld. Skoraði 43 stig, tók átta fráköst og gaf níu stoðsendingar. Hársbreidd frá því að klára þennan leik einfaldlega. Hana Ivanusa var mjög góð meðan hennar naut við en hún lauk leik með fimm villur eftir að hafa aðeins spilað 21 mínútu og fimmta villan var sóknarvilla í ofanálag. Stemming og umgjörð Umgjörðin í Smáranum var til fyrirmyndar í kvöld. Mætingin í stúkuna var það aftur á móti ekki en það verður þó að gefa þeim áhorfendum sem mættu prik fyrir að halda uppi góðri stemmingu undir lokin, enda bauð leikurinn heldur betur upp á það. Viðtöl Kristrún Ríkey: „Heimskulegar villur og þá endaði þetta svona“ Kristrún Ríkey Ólafsdóttir er fyrirliði Hamars/ÞórsVísir/Anton Brink Kristrún Ríkey Ólafsdóttir, fyrirliði Hamars/Þórs, var hundsvekkt með úrslit kvöldsins og þá ekki síst með frammistöðu síns liðs en hún sagði að slæmar ákvarðanir í lokin hefðu kostað þær sigurinn. „Bara í rauninni að við tökum vondar ákvarðanir. Í rauninni ekkert annað. Við fáum stopp og tökum rangar ákvarðanir sóknarlega. Fáum á okkur heimskulegar villur og þá endaði þetta svona.“ Talandi um heimskulegar villur, þá var villan sem sendi Sofie á línuna klárlega ein af þeim. Má ekki segja að hún hafi kostað liðið sigurinn þegar upp er staðið? „Já, í rauninni. Það eru svo miklar tilfinningar í gangi núna, það er erfitt að segja nákvæmlega, maður þarf að horfa á þetta aftur. En já, það getur vel verið. Við tókum nokkrar heimskulegar villur í þessum leik og þetta var örugglega ein af þeim.“ Það var engu líkara en undir lokin væri Hamar/Þór fyrst og fremst að hugsa um að láta klukkuna líða og minna að hugsa um að gera út um leikinn en liðið kláraði skotklukkuna þrjár sóknir í röð og aðeins ein þeirra endaði með körfu. Það reyndist þó afdrifarík ákvörðun. „Við vorum að reyna að láta klukkuna ganga aðeins niður. Við vorum með forystu og við erum með Ameríkana sem getur tekið góðar ákvarðanir á stuttum tíma. Kannski voru það mistök hjá okkur, erfitt að segja núna.“ Nú er umspil um sæti framundan hjá Hamri/Þór en liðið mætir þar Selfossi. „Markmiðið okkar var náttúrulega alltaf að komast í úrslitakeppnina hérna. Við svekkjum okkur á þessu í kvöld svo byrjum við á undirbúningnum fyrir það strax á morgun.“ Þorleifur Ólafsson: „Ennþá sannfærður um að það býr meira í mínu liði“ Lalli mætir í Ólafssal fljótlega. Bryndís Gunnlaugsdóttir verður honum þó ekki til aðstoðar líkt og þegar þessi mynd var tekinVísir/Hulda Margrét Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var auðsýnilega ekkert hoppandi kátur með frammistöðu síns liðs í kvöld þrátt fyrir að sæti í úrslitakeppninni væri í höfn. „Ég bara tek þessi tvö stig og fara inn í úrslitakeppnina og allt það. Þetta var ekki það sem við ætluðum að sýna. Aftur get ég sagt karaktersigur, halda áfram og ekki gefast upp og þessi gamla rulla. Ég er ennþá sannfærður um að það býr meira í mínu liði. Við þurfum að gjöra svo vel að fara að gíra okkur í gang og finna það.“ „Það er mitt hlutverk, að finna eitthvað sem virkar og það sem við getum gert vel. Ekki hafa þetta flókið, bara auðvelt. Æfa betur það sem við ætlum að gera svo það séu allar á sömu blaðsíðunni. Staðreyndin er sú að við erum að fara að mæta Haukum sem er búið að vera langbesta liðið í vetur. Ef við snúum þessu ekki við og lögum eitthvað er þetta bara gamli góði sópurinn.“ Þorleifur talaði um fyrir leik að það væri undir hans leikmönnum komið að sýna viljann til að vinna og fara í úrslitakeppnina. Undir lokin fóru nokkrar sóknir hjá Grindvík algjörlega fyrir ofan garð og neðan en heimakonur héldu þó alltaf áfram og kreistu fram sigurinn, mögulega með viljann að vopni fyrst og fremst. „Mér finnst eins og alltaf þegar við vinnum þá er þetta einhver svona karaktersigur. Við sýnum einhvern neista af því sem við þurfum að sýna meira af. Maður þarf að gera sér grein fyrir því að þetta er til staðar og við getum þetta en það þarf bara að vera meiri einbeiting og fókus í 40 mínútur, eða allavega 35, svo að við getum farið að sýna alvöru frammistöðu.“ „Það er eins og ég sagði mitt hlutverk að finna einhverjar aðrar leiðir og kafa dýpra og finna lausnir svo við getum sýnt frammistöðu eins og við sýndum á móti Njarðvík í bikarleiknum en ekki í kvöld. En sem betur fer þá unnum við.“ Hulda Björk Ólafsdóttir, fyrirliði Grindavíkur, var frábær í kvöld og Þorleifur sparaði ekki hrósið og vonar að hennar frammistaða smiti út frá sér. „Hulda búin að stíga upp frábærlega sóknarlega og búin að vera stöðug. Það er kannski það sem skiptir máli. Hún heldur áfram að setja skotin sín og hreyfa sig vel án bolta. Lúmsk að komast á hringinn og að klára það. Ég er mjög ánægður með hana sóknarlega og vonandi bara koma hinar með.“ Grindavík mætir deildarmeisturum Hauka í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og það er alvöru verkefni. „Ég hata þetta „underdog“ orð alltaf en ég þarf ekki einu sinni að segja það. Það vita það allir. Við þurfum að eiga alveg frábæra þrjá leiki til þess að vinna Haukana. Haukunum nægir það að vera bara sæmilegar ef við erum ekki on. Það er bara staðreyndin. Við þurfum að keyra okkur í gang og mæta tilbúnar í þetta verkefni.“ Hákon Hjartarson, þjálfari Hamars/Þórs harðneitaði að veita viðtal eftir leik.