Tónhylur er tónlistarklasi í Árbænum þar sem hinir ýmsu tónlistarmenn vinna að sinni eigin tónlist. Verkefnið hófst árið 2019 og hefur stækkað hægt og rólega en þar eru tugir listamanna á öllum aldri að skapa list alla daga vikunnar.
„Við erum að reyna að búa til einhverskonar miðstöð fyrir skapandi greinar að koma saman og gera eitthvað skemmtilegt. Það er ótrúlega gaman hversu margt tónlistarfólk á öllum aldri, af öllum stigum og úr öllum áttum einhvernveginn fara hérna í gegn,“ segir Kristján Sturla Bjarnason, einn stofnenda Tónhyls og stjórnarformaður.
Lögin verða til í Tónhyl
Hann segir að stofnendunum hafi fundist vanta stað fyrir listafólk að koma saman og vinna að verkefnum í sama rými.
„Fólk er að spjalla við vatnstankinn um einhver verkefni og ákveða að fara inn í stúdíó og gera lag saman. Þannig hafa víst nokkur lög orðið til, þar sem fólk hittist í kaffi og ákveður að skella sér í stúdíóið. Líka tengslamyndunin sem verður, það er ekkert hlaupið að því að finna stað til þess að hitta aðra, sérstaklega í svona stúdíogeira þar sem margir eru að vinna einir einhversstaðar. Það hefur líka skilað sér,“ segir Kristján Sturla.
Í Tónhyl fara einnig fram námskeið fyrir unga lagahöfunda sem vilja feta sín fyrstu skref í tónlistinni. Þá eru nokkrir af vinsælustu ungu tónlistarmönnunum í dag hluti af svokallaðri Tónhyls Akademíu.
Hvernig hefur þetta verkefni reynst ykkur og ykkar tónlistarferli?
„Bara ekkert eðlilega vel. Og að vera í þessu húsi, maður fær alla tengiliðina og allt,“ segir Maron Birnir Reynisson, einn meðlima Tónhylsakademíunnar.