Þetta hefur Guardian eftir slökkviliði og björgunarsveitum á svæðinu. Slysið varð við fjallið Monte Faito, um 45 kílómetrum suðaustan Napólí.
Í umfjöllun ítalskra miðla segir að vír sem kláfurinn hékk í hafi slitnað og kláfurinn hrapað til jarðar í framhaldinu, á sérstaklega bröttu svæði. Sextán farþegum hafi verið bjargað úr hinum kláfferjunum, sem stöðvuðust þegar slysið varð.
Þá hefur Guardian eftir Vincenzo De Luca sveitarstjóra Campania-héraðs að björgunaraðgerðir hafi gengið hægt vegna þoku og mikilla vinda. Hann segir alla hinna látnu hafa verið ferðamenn.
Sams konar slys varð í norðurhluta Ítalíu í maí 2021. Kláfferja hrapaði til jarðar með þeim afleiðingum að fjórtán létu lífið.