Körfubolti

Hamar í góðum málum og Breiða­blik jafnaði metin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Breiðablik lagði Ármann í kvöld.
Breiðablik lagði Ármann í kvöld. Breiðablik

Undanúrslit umspilsins um sæti í Bónus deild karla í körfubolta á næstu leiktíð héldu áfram í dag. Breiðablik hefur nú jafnað metin gegn Ármanni á meðan Hamar er komið í 2-0 í einvígi sínu gegn Fjölni.

Ármann vann fyrsta leik einvígisins gegn Breiðabliki með naumindum en í dag var komið að Blikum að jafna metin. Leikurinn var í járnum frá upphafi til enda og staðan jöfn fyrir síðasta fjórðung.

Blikar unnu með fjögurra stiga mun og þar með leikinn, lokatölur 102-98. Maalik Jajuan Cartwright skoraði 21 stig fyrir Breiðablik ásamt því að gefa tíu stoðsendingar og taka níu fráköst. Alexander Jan Hrafnsson kom þar á eftir með 17 stig og 7 fráköst.

Jaxson Schuler Baker var stigahæstur hjá Ármanni með 23 stig ásamt því að taka sex fráköst. Cedrick Taylor Bowen skoraði 22 stig og tók 10 fráköst. Adama Kasper Darboe kom þar á eftir með 20 stig. Hann gaf einnig 9 stoðsendingar og tók 6 fráköst.

Hamar vann á sama tíma 10 stiga sigur á Fjölni í Grafarvogi, lokatölur 97-107. Sigvaldi Eggertsson var bestur hjá heimamönnum, hann skoraði 22 stig, tók 10 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Sæþór Elmar Kristjánsson kom þar á eftir með 18 stig og 8 fráköst á aðeins 23 mínútum.

Jose Medina Aldana fór á kostum í liði gestanna. Hann skoraði 35 stig, gaf 15 stoðsendingar og tók 8 fráköst. Jaeden Edmund King var hins vegar stigahæstur með 36 stig ásamt því að taka 9 fráköst.

Vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×