Íslenski boltinn

Arnór Borg í Vestra og Fram fann mark­mann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Borg í leik með FH á síðasta ári.
Arnór Borg í leik með FH á síðasta ári. Vísir/Anton Brink

Það styttist í að félagaskiptaglugginn í Bestu deild karla loki og nokkur félagaskipti hafa dottið inn í blálokin. Arnór Borg Guðjohnsen hefur gengið til liðs við Vestra á láni og Fram hefur fundið markvörð.

Arnór Borg kemur á láni frá FH en þessi 25 ára gamli leikmaður sem er uppalinn Bliki hefur einnig leikið með Víking og Fylki. Hann gerir lánsamning við Vestra út tímabilið. 

Ljóst var eftir að Dagur Örn Fjeldsted kom á láni í Kaplakrika frá Breiðabliki að Arnór Borg myndi fá færri mínútur á vellinum. Hann hefur því ákveðið að færa sig um set.

Miðjumaðurinn Abdourahmane Diagne er einnig kominn vestur. Hann er 19 ára gamall og kemur frá Senegal.

Þá hefur markvörðurinn Bjarki Arnaldsson gengið til liðs við Fram. Hann kemur á láni frá Leikni Reykjavík, liðinu sem Ólafur Íshólm Ólafsson samdi við á dögunum eftir að hann ákvað að yfirgefa Fram þar sem hann var ekki í byrjunarliðinu gegn ÍBV.

Bjarki varði mark Leiknis í Lengjubikarnum í vetur og spilaði báða leiki liðsins í Mjólkurbikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×