Frá því gervigreind varð mál málanna með innreið ChatGPT í nóvember 2022 höfum við eiginlega ekki talað um neitt annað.
Ég hef tekið þátt í fjörinu frá fyrsta degi, setið fundina, lesið greinarnar, hlustað á fyrirlestrana og flutt suma þeirra sjálfur. Ég er jafn sekur eins og hinir sjálfskipuðu spekingarnir að hafa reitt fram fullt af gífuryrðum. Við segjum ykkur hvernig gervigreind getur greint krabbamein, fækkað störfum í bókhaldi um 70% eða tekið yfir samskipti við viðskiptavinina í þjónustuverinu.
Á sama tíma veit eiginlega enginn sem hlustar á þetta allt saman hvar hann á að byrja til að láta gervigreindina hafa einhver alvöru áhrif.
Meiri áhætta að innleiða ekki gervigreind
Við þekkjum helstu frasana: „það verður ekki gervigreind sem tekur djobbið þitt, heldur sá sem nýtir hana betur en þú“, „dýrt spaug að sitja eftir“ og jafnvel „ekkert starf er óhult fyrir gervigreindinni“. Þér er sagt að þú verðir að hlaupa strax af stað í gervigreindinni. Þú veist samt ekkert í hvaða átt þú átt að hlaupa. Við erum nánast komin í sama gírinn og í gamla daga, DeCode-frasinn „það er meiri áhætta að kaupa ekki“ er mættur aftur sveipaður gervigreindarskikkju.

Frasasúpan er alveg að sjóða upp úr. Það er komið nóg. Það sem er að gerast er stórmerkilegt. Við verðum samt að halda okkur á jörðinni og megum ekki missa jarðtenginguna.
Gervigreindin breytir engu nema við fjárfestum í hæfni, lærum og aðlögum okkar daglegu vinnubrögð og verkefni að gervigreindartækifærinu.
Alveg eins og með allt annað þá breytist ekki neitt varðandi gervigreind nema þú fjárfestir í henni og reynir að skiljir hana. Þú lærir ekkert, hvort sem það er gervigreind eða körfubolti, með því að lesa eina bók. Þú þarft að skjóta á körfuna. Æfa þig og æfa þig svo meira. Í gervigreind þarftu að prófa þig áfram og fá leiðbeiningar og ráð fá þeim sem vita örlítið meira en þú. Með gervigreind er auðveldara að hreyfa sig hratt áfram og því er enn mikilvægara en áður að vita hvert er stefnt áður en haldið er af stað.
Þú þarft alltaf að vita hvert þú ætlar að fara en ekki fara bara eitthvert af því það er hægt að fara þangað auðveldar en áður.
Það er auðvelt að heillast af sýnidæmum en í raun er breytingin hægari en við vildum. Þó alls konar sé hægt að gera þá hefur fátt breyst í hversdeginum.
Krabbameinsgreiningarnar fara ekkert fram með gervigreindardrifinni myndgreiningu á Landspítalanum í dag heldur fara þær bara fram alveg eins og í fyrra. Tækni- og gagnaskuld hefur heilt yfir örugglega aukist milli ára.
Miklar væntingar en hægar breytingar
Hin sorglega sögulega staðreynd er að við erum álíka langt frá því og áður að nýta gögnin okkar í rekstrinum þótt möguleikar til nýtingar aukist ár frá ári. Alveg eins og í fyrra vitum við ekki einu sinni hversu margir búa á Íslandi. Í þeirri stöðu erum við örugglega ekki í stakk búin til að greina djúpar hagtölur með gervigreind.
Við þurfum að vera heiðarleg í breytingaræðunni. Staðreyndin er að nánast ekkert íslenskt fyrirtæki hefur sýnt fram á gríðarlegt hagræði og aukna arðsemi á grunni gervigreindar. Okkur finnst öllum samt gaman að teikna japanskar Ghibli teiknimyndir með ChatGPT.

Ég hef sagt stjórnendum að setja sig nógu mikið inn í málin til að byrja að tengja gervigreind við hversdaginn og kjarnann í fyrirtækinu. Gervigreindin verður að komast inn í miðjuna.
Þú vilt alls ekki ráða einhvern til að vera strategískur stjórnandi í skapandi gervigreind. Þannig býrðu til gervigreindareyju innanhúss ekkert ósvipaða þeim stafrænu eyjum sem mörg fyrirtæki byggðu upp með takmörkuðum árangri í leit að stafrænni umbreytingu.
Á eyjunni búa bráðsnjallir, ungir og ferskir gervigreindarsérfræðingar, fullir af eldmóði. Því miður munu þeir á endanum gefast upp í baráttunni. Ekki var lagt með að breyta fyrirtækinu, topparnir leiða ekki breytinguna og áhrifin verða á endanum engin á kjarnann í fyrirtækinu — þó að hakkaþonin hafi verið skemmtileg og krúttlausnirnar sem engu breyttu hafi verið lærdómsríkar þeim sem tóku þátt.
Þú vilt finna hin augljósu tækifæri þar sem gervigreind getur á einfaldan hátt hjálpað því sem þinn rekstur snýst um.

Ég er vissulega sanntrúaður meðlimur í gervigreindarkirkjunni og hef kafað ofan í þetta af álíka miklum nördaskap og í gamla daga þegar maður trúði því að internetið myndi breyta öllu. Ég er þó auðmjúkur gagnvart því að ég veit ekkert hvernig þetta þróast.
Gervigreind hefur breytt hversdeginum mínum og ég hef vissulega breytt verklagi mínu í vinnu og í stöku verkefnum hefur gervigreind gjörbreytt þeim. Þannig að þetta er alveg hægt.
Hagræðið má finna
Í vinnu Deloitte fyrir forsætisráðuneytið að sviðsmyndagreiningu um framtíð Grindavíkur var gervigreind hagnýtt. Ég get sagt fullum fetum að afurðin var margfalt betri en án hún hefði verið án gervigreindar og hagræði af gervigreindinni var þannig að kostnaður vinnunnar var 20–30% af því sem hefði án hennar verið raunin.
Ég get sagt hvernig ég, sem hef sökkt mér ofan í þetta, hef breytt minni hegðun en hvað á stjórnandinn sem er að glíma við hversdaginn, gagnaskuldina, tækniskuldina og veikindin hjá Siggu í þjónustuverinu að gera á morgun þannig að gervigreindin breyti fyrirtækinu, arðseminni á árinu og samkeppnisstöðunni til framtíðar.
Leiðum og leiðum
Meirihluti skrifstofufólks er farinn að nota ChatGPT hvort sem það er stefna fyrirtækisins eða ekki. Þú græðir ekkert á að banna notkun ChatGPT eða gervigreindar heilt yfir enda draga bönn úr framþróun og eru auk þess illframkvæmanleg. Leiðbeindu fólkinu en leyfðu því að hlaupa.
Ef þú bannar notkun ChatGPT þá er alveg eins líklegt að fólk noti það bara hvort sem er. Það notar þá bara aðrar lausnir eins og Gemini, Claude eða Meta AI sem regluverkið er ekki búið að fatta að banna. Lykilatriðið er alltaf að leggja línurnar, skýra, skilja og hjálpa fólki að nýta tæknina.
Þessi heimur hreyfist hratt. Þú mátt búast við því að það sem er auðveldara í framkvæmd í dag en fyrir ári verði miklu auðveldara í framkvæmd eftir ár eða tvö. Kannski verður jafnvel óþarft að gera það þá.
Augljóst er og rannsóknir sýna að starfsfólk notar þetta miklu meira og víðar en stjórnendur gera sér grein fyrir. Notkun er oft án þjálfunar eða skilnings á því hvaða áhættu notkunin hefur í för með sér. Það er hættuleg staða sem þó er auðvelt að laga.
Breyttu þínu daglega amstri strax
Byrjaðu að nýta einföldu lausnirnar til að breyta þínum hversdegi. Notaðu Málstað til að íslenskan þín verði alltaf til fyrirmyndar. Notaðu ChatGPT til að gefa þér útdrætti úr opinberu efni sem þú ert að reyna að skilja, notaðu viðeigandi lausnir til að skrifa fundargerðir, nýttu lausnir til að fá hugmyndir. Það er einfalt að byrja að nýta aðgengilegar einfaldar lausnir og læra þannig grunnatriðin.
Byrjaðu á þreytandi hversdagsverkum
Finndu verk þar sem fólk er fast í stöðluðum verkefnum, skeytasendingum eða einhverju sem fólk gerir með sambærilegum hætti oft og iðulega. Prófaðu einfaldar gervigreindarlausnir sjálfur. Þetta getur verið eitthvað rosalega einfalt, stafsetningaryfirlestur, samantekt úr skjölum eða sjálfvirk smíði fundargerða.
Ég hef séð virka vel að taka verkferla í bókhaldi og nýta gervigreind til að einfalda þá stórkostlega. Slíkt upphafsskref er frábært til að auka tiltrú á hagnýtingu gervigreindar á breiðum grundvelli í fyrirtækinu.
Láttu þig varða gervigreind
Skilaboðin þurfa að koma að ofan. Gervigreindin mun örugglega skipta fyrirtækið þitt miklu máli. Gervigreindin eins og aðrar stórar breytingar krefst af þér að setja þig inn í hana. Hún krefst þess líka að gögnin þín séu í sem bestu horfi. Gagnaumbætur sem hafa lengi verið aðkallandi eru enn mikilvægari en áður.
Passaðu að gervigreind hafi vægi og hlutverk í stefnu, áherslum og hversdegi fyrirtækisins eins hratt og örugglega og kostur er. Ekki láta hina um gervigreindina. Þú verður að leiða.
Þessi heimur hreyfist hratt. Þú mátt búast við því að það sem er auðveldara í framkvæmd í dag en fyrir ári verði miklu auðveldara í framkvæmd eftir ár eða tvö. Kannski verður jafnvel óþarft að gera það þá.
Þess vegna ættirðu alls ekki að fresta því að meta í hvað átt þú átt að hlaupa núna. Hins vegar geturðu ákveðið aðeins seinna hversu hratt þú vilt hlaupa.
Höfundur er meðeigandi hjá Deloitte.