Fótbolti

Hilmir Rafn inn­siglaði sigurinn hjá toppliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmir Rafn Mikaelsson í leik með íslenska nítján ára landsliðinu.
Hilmir Rafn Mikaelsson í leik með íslenska nítján ára landsliðinu. Getty/Mike Egerton

Íslenski framherjinn Hilmir Rafn Mikaelsson skoraði síðasta markið í 4-1 útisigri Viking á FK Haugesund í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Hilmir Rafn skoraði sigurmark í bikarnum í vikunni eftir að hafa komið inn á sem varamaður og átti aðra góða innkomu af bekknum í kvöld.

Hilmir kom inn á sem varamaður á 77. mínútu og skoraði úr vítaspyrnu á 89. mínútu. Hilmir fiskaði vítið sjálfur.

Þetta var annað deildarmark hans á leiktíðinni en það fyrsta síðan í fyrstu umferðinni.

Peter Christiansen kom Viking í 2-0 með marki sitthvorum megin við hálfleikinn og heimamenn í Haugesund misstu mann af velli með rautt spjald í uppbótatíma fyrri hálfleiks.

Sory Diarra minnkaði muninn fyrir tíu leikmenn Haugesund á 79. mínútu en tíu mínútum síðar innsiglaði Hilmir sigurinn. Fjórða markið kom alveg undir lok leiksins og það var sjálfsmark.

Sigurinn skilaði Hilmari og félögum í efsta sæti deildinni, með einu stigi meira en lærisveinar Freys Alexanderssonar sem urðu að sætta sig við jafntefli í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×