Innlent

Leitar stolins bíls: „Eins og hann sé bara á rúntinum“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Bílar af þessari gerð eru sjaldséðir hér á landi. 
Bílar af þessari gerð eru sjaldséðir hér á landi.  Facebook

Bleikum bíl af tegundinni Porsche var stolið úr Mosfellsdal í nótt. Eigandi leitar sönnunargagna og þykir furðulegt að bíl með slíka sérstöðu skuli hafa verið stolið. Hann hefur fengið upplýsingar um að þjófurinn hafi rúntað á bílnum um borgina í dag. 

Fannar Þór Þórhallsson eigandi bílsins var spurður af vinnufélaga sínum í morgun hver væri að rúnta um á bílnum hans og svarað á þann veg að vinnufélaginn væri líklega að ruglast, bíllinn væri inni í skúr í Mosfellsdal. Vinnufélaginn hafi þá lýst bílnum í smáatriðum og þá runnið á Fannar tvær grímur. 

„Ég hringi í frænda minn sem er með mér í skúrnum og spyr hvort hann hafi tekið bílinn, en hann segir nei. Þá bruna ég upp eftir og sé að það eru spólför á malarplaninu fyrir utan og búið að skemma bílskúrshurðina,“ segir Fannar í samtali við fréttastofu. 

Fannari þykir furðulegt að bíl með slíka sérstöðu hafi orðið fyrir vali þjófsins. Hann hefur þegar tilkynnt stuldinn til lögreglunnar, sem rannsakar málið að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar frá deginum í dag. Sjálfur er hann lagstur í rannsóknarvinnu en hann er staðráðinn í að komast á snoðir um hvar bíllinn er niður kominn.

„Það er hálfur heimurinn að leita að honum,“ segir Fannar. Hann segist hafa fengið upplýsingar um bílinn á Vesturlandsvegi og í Norðlingaholti í dag. 

„Það er eins og hann sé bara á rúntinum,“ segir Fannar um þjófinn. 

Í þeim töluðu orðum sem blaðamaður ræddi við hann barst honum mynd af bílnum frá einum leitanda og gat ekki talað lengur. Hann leitar bílsins því enn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×