Erlent

„Stóra og fal­lega frum­varpið“ enn í limbó á þinginu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mike Johnson, forseti neðri deildar þingsins, hefur haft í mörgu að snúast í nótt.
Mike Johnson, forseti neðri deildar þingsins, hefur haft í mörgu að snúast í nótt. Getty/Andrew Harnik

Atkvæðagreiðsla um hvort taka eigi „stóra og fallega frumvarp“ Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir í fulltrúadeild bandaríska þingsins hefur nú staðið yfir í nokkrar klukkstundir.

Allir þingmenn Demókrataflokksins og fimm þingmenn Repúblikanaflokksins hafa greitt atkvæði gegn tillögunni og þá eiga átta Repúblikanar eftir að greiða atkvæði.

Atkvæði Repúblikanana fimm duga til þess að fella tillöguna en Mike Johnson, forseti neðri deildarinnar, segist sannfærður um að þeir skipti um skoðun og að tillagan nái í gegn. Frumvarpið verði tekið til umræðu í framhaldinu og samþykkt fyrir 4. júlí, eins og Trump hafði fyrirskipað.

Frumvarpið er afar umfangsmikið en fjallar í aðalatriðum um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar verður skorið verulega niður til velferðarmála en efasemdamenn innan Repúblikanaflokksins segja ekki gengið nógu langt og mótmæla því harðlega að frumvarpið muni hafa neikvæð áhrif á skuldastöðu ríkisins.

New York Times hefur eftir Johnson að menn séu enn að kynna sér þær breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu í öldungadeildinni en hann hafi fulla trú á því að tillagan um að taka það á dagskrá verði samþykkt á næstu klukkustundum.

Trump hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum í nótt og er greinilega síður en svo ánægður með þróun mála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×