Fótbolti

Grind­víkingar lána Sölva Snæ til Austur­ríkis

Siggeir Ævarsson skrifar
Sölvi Snær mundar skotfótinn
Sölvi Snær mundar skotfótinn Facebook Knattspyrnudeild Grindavíkur UMFG - Petra Rós

Grindvíkingar hafa orðið fyrir blóðtöku í Lengjudeild karla en liðið tilkynnti í gær að hinn efnilegi Sölvi Snær Ásgeirsson væri á leið til LASK í Austurríki á láni næstu 12 mánuði. 

LASK, sem varð í 7. sæti í austurrísku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, mun hafa forkaupsrétt á Sölva á meðan að lánssamningurinn er í gildi og þá hefur Sölva einnig framlengt samning sinn við Grindavík út sumarið 2027.

Sölvi Snær, sem fæddur er árið 2008 kom við sögu í sjö leikjum Grindavíkur í Lengjudeildinni í fyrra og hefur verið að festa sig í sessi sem byrjunarliðsleikmaður í sumar. Hann leikur oftast sem varnarmaður og þykir afar mikið efni en hann á að 12 landsleiki með U15, U16 og U17 landsliðum Íslands .

Sölvi tjáir sig um þessi vistaskipti í fréttatilkynningu Grindavíkur þar sem hann segir að það sé ekki auðvelt að yfirgefa Grindavík á þessum tímapunkti en Grindavík hefur tapað síðustu þremur leikjum sínum í deildinni og er aðeins tveimur stigum frá fallsæti.

„Þetta er stórt tækifæri fyrir mig og ég er mjög spenntur fyrir því að reyna fyrir mér í sterku atvinnumannaumhverfi hjá liði eins og LASK. Það er ekki auðvelt að yfirgefa Grindavík á þessum tímapunkti. Ég er afar þakklátur fyrir þann stuðning sem ég hef fengið frá félaginu í gegnum allt þetta ferli.“

Sölvi Snær er annar leikmaðurinn úr 2008 árgangi Grindavíkur sem leggur í víking erlendis en Helgi Hafsteinn Jóhannsson samdi á síðasta ári við danska félagið AaB Aalborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×