Fótbolti

Lentu í rútuslysi og æfingu af­lýst

Valur Páll Eiríksson skrifar
Allir eru í heilu lagi í velska liðinu.
Allir eru í heilu lagi í velska liðinu. Eddie Keogh/Getty Images

Kvennalandslið Wales lenti í rútuslysi á leið til æfingar á EM í Sviss í dag. Leikmenn liðsins eru sagðir í heilu lagi en æfingunni var aflýst.

Velska liðið var á leið á Kybunpark-völlinn í St. Gallen þar sem það mætir Frökkum annað kvöld í D-riðli mótsins. Í yfirlýsingu frá velska knattspyrnusambandinu segir að leikmenn og starfsfólk liðsins sé öruggt. Fólk úr hinu farartækinu sem lenti í slysinu sé það einnig.

Slysið varð í nánd við hótel velska liðsins, sem er í um 40 kílómetra fjarlægð frá Kybunpark-vellinum, þangað hvert leið var heitið.

Rhian Wilkinson, þjálfari liðsins, var ekki í rútunni líkt og fyrirliðinn Angharad James, þar sem þau fóru með bíl á völlinn á undan liðinu vegna blaðamannafundar.

„Allir eru í lagi. Forgangsatriðið er að allir séu heilir og saman. Við erum að athuga hvort allir séu ekki í lagi og það sem er mikilvægt er að hinn bíllinn virðist vera í lagi,“ sagði Wilkinson við velska blaðamenn.

Samkvæmt yfirlýsingu velska knattspyrnusambandsins var æfingu liðsins aflýst vegna slyssins. Reynt verði að æfa síðar í dag eða í kvöld, enda aðeins rúmur sólarhringur í leik Wales við Frakka.

Wales er á EM kvenna í fyrsta sinn og tapaði 3-0 fyrir Hollandi í fyrsta leik D-riðils. Frakkland vann 2-1 sigur á Englandi í sama riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×