Innlent

Gengu að gosinu og óku til Grinda­víkur án þess að vera stöðvaðar

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Sophie og Jana Krebs áttu ekki í neinum vandræðum með að komast að svæðinu. 
Sophie og Jana Krebs áttu ekki í neinum vandræðum með að komast að svæðinu.  Vísir/Bjarni

Tveir erlendir ferðamenn gengu upp að gosstöðvunum, til baka og síðan inn í Grindavík án þess að vera stöðvaðir af lögreglu. Fréttamaður á svæðinu hefur hitt fleiri ferðamenn í Grindavík í dag sem voru ekki stöðvaðir á lögreglu á leið inn í bæinn. 

Sophie og Jana Krebs, þýskir ferðamenn, segjast í samtali við fréttamann hafa lagt bílaleigubíl sínum á bílastæðinu við Fagradalsfjall og gengið um það bil tveggja kílómetra langa leið að gosstöðvunum og til baka. 

Systurnar segjast ekki hafa átt í neinum vandræðum með að komast nálægt gosinu. Þær komu að svæðinu um Suðurstrandarveginn og héldu síðan til Grindavíkur, án þess að vera stöðvaðar af lögreglu eða björgunarsveitarmönnum. Nokkrir bílaleigubílar eru á bílastæðinu við Fagradalsfjall.

„Við komum hingað fyrir tveimur til þremur klukkutímum. Svo gengum við upp að eldfjallinu og sáum gosið,“ segir önnur systirin. Þær hafi séð fréttir af eldgosinu á Facebook og ákveðið að kíkja suður eftir.

Lögreglan á Suðurnesjum sagði í fréttatilkynningu í morgun að Grindavík væri lokuð öllum öðrum en viðbragðsaðilum, starfsmönnum Grindavíkurbæjar, fyrirtækja, verktökum og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa.

Fréttamaður sem flutt hefur fréttir úr Grindavík í dag hitti erlenda ferðamenn inni í bænum sem sögðust hafa komið inn Krýsuvíkurmegin. Því virðist sem lokunarpóstar séu ekki fyrir hendi á öllum leiðum inn í bæinn.

Myndin er tekin rétt hjá bílastæðunum við Fagradalsfjall. Vísir/Lillý

Uppfært: Eftir að fréttin var birt sá fréttamaður stóran bíl, sem virtist vera merktur einhvers konar viðbragðsaðila, mæta á bílastæðið, eiga orðskipti við ferðamenn á Dacia duster bílum, sem eftir orðaskiptin yfirgáfu svæðið. Sumir óku þó í átt að Grindavík. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×