Bíó og sjónvarp

Sælkerabíó á RIFF: Sjón­ræn matar­veisla á Plöntunni og smakkbíó á Ramen Momo

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Gestum býðst að horfa á núðluvestrann Tampopo samhliða ramenáti eða sælkeramyndina Big Night með þriggja rétta sjónrænni veislu.
Gestum býðst að horfa á núðluvestrann Tampopo samhliða ramenáti eða sælkeramyndina Big Night með þriggja rétta sjónrænni veislu.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF) býður árlega til sérviðburðar þar sem hátíðin fær veitingastaði bæjarins í samstarf. Úr verður bíóveisla fyrir bæði augun og bragðlaukana en í ár verður boðið upp á sjónræna matarveislu og smakkbíó.

Sjónræn ítölsk matarveisla

Fyrri viðburðurinn tengist sælkeramyndinni Big Night (1996) sem fjallar um bræðurna Primo og Secondo, sem eru leiknir af Stanley Tucci og Tony Shaloub, sem reka ítalskan veitingastað í New Jersey. Reksturinn er í járnum og í von um að bjarga honum ákveða bræðurnir að leggja allt undir með því að skipuleggja veglega veislu.

Plantan Bistró, sem er til húsa í Norræna húsinu í Vatnsmýrinni, mun bjóða upp á eigin „Big Night“ veislu þar sem boðið verður upp á þriggja rétta matseðil innblásinn af matnum í myndinni samhliða sýningu á myndinni. 

„Ég held að þetta sé frábær mynd fyrir matartengda kvikmyndasýningu, af því að í henni er veislan með fjölskylduyfirbragði þar sem langborð svignar undan krásum og allir fá sér af, og það gerir veisluna ennþá persónulegri og notalegri, og færir matargestina nær hvert öðru,” segir Hrafnhildur Gunnarsdóttir, meðeigandi og matreiðslumeistari á Plöntunni.

Viðburðurinn verður haldinn 27. september næstkomandi og kostar 12.900 krónur inn á hann.

Kósý núðluvestri og heitar núðlur

Á hinum viðburðinum verður svokallað smakkbíó á Ramen Momo þar sem gestum býðst að upplifa töfra japanskrar matarmenningar meðan horft er á kósý-núðluvestrann Tampopo (1985)

Tveir vörubílstjórar slysast inn á hrörlega vegasjoppu þar sem ekkjan Tampopo selur ramen núðlur. Hún biður þá félaga í framhaldinu að hjálpa sér að gera sjoppuna að núðlusjoppu í fremstu röð. Myndin er uppfull af kostulegum uppákomum og skapar hjá áhorfendum óslökkvandi löngun í japanskan mat.

Smakkbíóið er skipulagt í samstarfi við Ramen Momo við Tryggvagötu en viðburðurinn verður haldinn í Háskólabíó. Ramen Momo er eina ramen-gerðin á Íslandi og fyrsti núðlubar landsins til að framleiða lífrænar fersknúðlur frá grunni.

 „Ég held að þessi sýning sé frábært tækifæri til að hitta aðra ramen-sælkera og eiga ógleymanlegt kvöld með ljúffengum mat og dásamlegri bíómynd. Ég á von á frábærri stemningu með sterkum tilfinningum, í takt við matinn og myndina!” segir Romà Gomez Cortada, yfirkokkur á Ramen Momo, um viðburðinn.

Tampopo verður sýnd í Háskólabíó 28. september og kostar einnig 12.900 krónur inn á viðburðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.