Sport

Gátu ekki stokkið í al­gjöru úr­helli í Lausanne

Sindri Sverrisson skrifar
Oblique Seville gegndrepa en ánægður í rigningunni í Lausanne.
Oblique Seville gegndrepa en ánægður í rigningunni í Lausanne. EPA/LAURENT GILLIERON

Frjálsíþróttafólkið á Demantamótinu í Lausanne í gærkvöld þurfti að glíma við nánast ómögulegar aðstæður sökum úrhellis á meðan á keppni stóð.

Rigningin hafði gríðarleg áhrif og sjálfsagt mest á keppendur í stökkgreinum.

Þannig þurfti á endanum að blása af keppni í stangarstökki kvenna þegar ráin hafði aðeins verið hækkuð einu sinni. Svo heppilega vildi til að stangarstökk karla hafði verið haldið í miðborg Lausanne kvöldið fyrir aðalkeppnina, í mun betri aðstæðum.

Langstökkskeppendur áttu einnig í miklum vandræðum enda safnaðist sífellt vatn á brautina og pollar mynduðust við plankann sem þeir stukku af.

Einn af hápunktum kvöldsins var 100 metra hlaup karla þar sem Jamaíkumaðurinn Oblique Seville átti frábært hlaup miðað við aðstæður, og kom langfyrstur í mark, á undan bandaríska Ólympíumeistaranum Noah Lyles.

Seville var sá eini sem hljóp undir 10 sekúndum en hann kom í mark á 9,87, eða 15/100 úr sekúndu á undan Lyles.

„Við getum staðið okkur jafnvel í fellibyl,“ sagði Seville eftir hlaupið. „Fyrir mér snerist þetta bara um framkvæmdina og að sýna yfirburði mína – losa mig frá hópnum enn á ný,“ sagði Seville.

„Ég átti bara skelfilegt viðbragð við byssuskotinu. Líkamlega líður mér frábærlega og er viss um að með hverju hlaupi verð ég betri,“ sagði Lyles en það styttist í sjálft heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum þar sem ljóst er að hart verður barist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×