Erlent

Mál­verk stolið af nas­istum fannst í argentínskri fasteignaauglýsingu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Hér má sjá Hermann Göring yfirgefa listaverkasölu Goudstikker eftir að sá síðarnefndi flúði borgina.
Hér má sjá Hermann Göring yfirgefa listaverkasölu Goudstikker eftir að sá síðarnefndi flúði borgina. EPA

Málverk sem nasistar stálu af listaverkasala af gyðingsættum í Hollandi fannst áttatíu árum síðar á ljósmynd í fasteignaauglýsingu í Argentínu. Verkið hafði þá ferðast á milli landa og er nú talið vera í eigu dætra embættismanns nasista.

Málverkið Fra' Galgario, málað af Giuseppe Ghislandi, var í eigu listaverkasalans Jacques Goudstikker. Hann var búsettur í Amsterdam en flúði þaðan í maí 1940 þegar nasistar Þýskalands nálguðust borgina. Hann fór um borð í skip en lést þar eftir að hafa fallið í lest skipsins og hálsbrotnað.

Goudstikker átti yfir ellefu hundruð málverk en eftir flótta hans keypti Hermann Göring, einn æðsti maður Þriðja ríkisins, þau á afar lágu verði. Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar var einhverjum verkum skilað til Hollendinga og voru þau til sýnis á Rijkmuseum. Marei von Saher, tengdadóttir Goudstikker, fékk síðan verkin en hún var eini erfingi hans á lífi. Umrætt verk var ekki þar á meðal.

Það var hollenska dagblaðið AD sem uppljóstraði hvað hafði orðið um málverkið, en það var merkt sem óskilað í gagnagrunni hollenska menningarráðuneytisins. Í frétt þeirra segir að samkvæmt skjölum frá stríðsárunum var verkið í eigu Friedrich Kadgien, embættismanns nasista. Hann hefði flúið til Sviss árið 1945, síðan Brasilíu og að lokum til Argentínu þar sem hann lést árið 1978.

Blaðamenn AD hefðu ítrekað reynt að ná sambandi við dætur Kadgien, en þær hefðu aldrei svarað. Að lokum fór Peter Schouten, blaðamaður AD, til Argentínu og heimsótti dæturnar. Þær komu ekki til dyra en þar kom Schouten auga á merkingu sem gaf til kynna að húsið væri til sölu. Eftir að hafa flett í gegnum ljósmyndir af húsinu sáu blaðamenn blaðsins að þar héngi málverkið uppi á vegg.

Vitnað er í fræðimenn í listasögu sem telja að um sé að ræða hið raunverulega Fra' Galgario. Dæturnar sem eiga málverkið neita hins vegar að ræða við blaðamennina, greinir Guardian frá en þar má sjá mynd af umræddu málverki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×