Fótbolti

Tíu mánaða bann fyrir að taka lyf við hár­losi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Yeray Álvarez verður í keppnisbanni þangað til 2. apríl 2026.
Yeray Álvarez verður í keppnisbanni þangað til 2. apríl 2026. Oscar J. Barroso/Europa Press via Getty Images

Yeray Álvarez, varnarmaður Athletic á Spáni, féll á lyfjaprófi eftir leik liðsins gegn Manchester United í undanúrslitum Evrópudeildarinnar á síðasta tímabili. Hann hefur nú verið dæmdur í tíu mánaða keppnisbann.

Bannefnið Canrenone fannst í sýni sem Álvarez skilaði inn eftir undanúrslitaleikinn.

Hann samþykkti sjálfur fyrr í sumar að vera settur í bráðabirgðabann meðan málið væri rannsakað og greindi frá því á samfélagsmiðlum að hann hefði tekið lyf sem innihélt Canrenone til að sporna við hármissi eftir krabbameinsmeðferð.

„Ég féll á lyfjaprófinu af því að ég var óaðvitandi að taka lyf við hármissi sem innihélt ólöglegt efni,“ sagði Álvarez, sem sigraðist á eistnakrabbameini árið 2017.

Álvarez var í dag dæmdur af UEFA í tíu mánaða keppnisbann sem gildir frá því að hann var fyrst settur í bráðabirgðabann þann 2. júní, bannið gildir því til 2. apríl á næsta ári. Honum verður leyft að æfa með sínu liði tveimur mánuðum áður en banninu lýkur, frá og með 2. febrúar.

Álvarez er uppalinn hjá Athletic og hefur spilað 257 leiki fyrir aðallið félagsins í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×