Fótbolti

Meiðslahrjáði mið­vörðurinn lætur gott heita

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Samuel Umtiti var einn efnilegasti hafsent heims þegar hann kom fram á sjónarsviðið. 
Samuel Umtiti var einn efnilegasti hafsent heims þegar hann kom fram á sjónarsviðið.  vísir/getty

Meiðslahrjáði franski miðvörðurinn Samuel Umtiti hefur ákveðið að láta gott heita og leggja skóna á hilluna aðeins 31 árs gamall.

Umtiti er með sködduð liðbönd í hnénu eftir að hafa meiðst tímabilið 2017-18 en sleppt aðgerð til þess að ná heimsmeistaramótinu með Frakklandi.

Hann myndaði hafsentapar með Raphael Varane og varð heimsmeistari með Frakklandi, en hefur síðan þá glímt við króníska verki sem hafa haldið honum frá keppni.

Samuel Umtiti og Ousmane Dembele með verðlaunagripinn eftir að hafa orðið heimsmeistarar árið 2018.Getty/Lars Baron

Eftir sumarið 2018 spilaði hann aldrei meira en átján leiki á einu tímabili og síðustu tvö tímabil hefur hann aðeins spilað þrettán leiki, þrátt fyrir að hafa reynt ýmislegt og meðal annars látið sprauta plasma frumum í hnéð.

Umtiti er uppalinn hjá Lyon og varð franskur bikarmeistari með félaginu 2012 en spilaði lengst af með Barcelona, í sjö ár og vann alls sjö stóra titla. Hann var sendur að láni til Lecce vegna fjárhagsvandræða félagins tímabilið 2022-23 og endaði ferilinn svo hjá Lille en spilaði aðeins sex leiki þar.

Spilaði fyrsta landsleikinn gegn Íslandi

Á landsliðsferlinum lék hann alls 31 landsleik fyrir Frakkland, en aðeins sex leiki eftir HM 2018. Frumraun hans í frönsku treyjunni var á EM 2016, í átta liða úrslitum gegn Íslandi, sem endaði með 5-2 sigri Frakka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×