Sport

Fagnaði heimsmetinu í karíókí her­bergi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Duplantis kann að fagna.
Duplantis kann að fagna. Michael Steele/Getty Images

Heimsmeistarinn í stangarstökki, Armand Duplantis, fagnaði sínu fjórtánda heimsmeti í greininni með því að leigja karíókí herbergi í Tókýó. 

Duplantis sló heimsmetið í gær þegar hann stökk 6,30 metra á stönginni. Þegar hann gat loksins yfirgefið leikvanginn, um miðnætti á japönskum tíma, fór hann beint niður í miðbæ Tókýó og fagnaði að japönskum sið, með því að leigja karíókí herbergi.

Duplantis söng sjálfur Wake me up eftir sænska listamanninn Avicii og tók síðan dúett með kærustu sinni Desiré Inglander við lagið Dancing Queen með Abba.

Umboðsmaður Duplantis hóf síðan upp raust sína og söng Delilah með Tom Jones.

Duplantis heldur þar með í hefðina, að fagna alltaf heimsmetum með miklum látum, eins og hann sagði frá í viðtali við Times fyrr á árinu.

„Maður verður að gera það. Þú verður að verðlauna þig eftir heimsmet, sama hvað bíður næsta dag, þú mátt ekki af missa af tækifærinu til að fagna heimsmeti“ sagði Duplantis við Times en hann rataði einmitt á forsíður franskra fjölmiðla fyrir fagnaðarlætin eftir að hafa sett heimsmet og unnið Ólympíugull í París í fyrra.

Sem betur fer fyrir Duplantis þarf hann ekki að mæta í morgunviðtal eins og í París, en það verður spennandi að sjá hvernig kappinn mun líta út á verðlaunaafhendingunni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×