Íslenski boltinn

Náð í fleiri stig í átta leikjum síðan Birnir kom en í fimm­tán leikjum þar á undan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Birnir Snær Ingason hefur hleypt nýju lífi í lið KA.
Birnir Snær Ingason hefur hleypt nýju lífi í lið KA. vísir/diego

Eins og í fyrra hafa KA-menn orðið betri eftir því sem á tímabilið hefur liðið. Innkoma Birnis Snæs Ingason hefur góð áhrif á lið KA.

Birnir, sem var valinn leikmaður ársins í Bestu deild karla 2023, gekk í raðir KA frá sænska liðinu Halmstad um miðjan júlí. Hann samdi við KA út tímabilið.

Síðan Birnir kom hefur KA leikið átta leiki í Bestu deildinni og tvo Evrópuleiki gegn Silkeborg. KA-menn töpuðu því einvígi, 4-3 samanlagt, en þóttu spila vel gegn danska liðinu.

Í leikjunum átta sem Birnir hefur spilað í Bestu deildinni hefur KA fengið sautján af 28 stigum sem í boði hafa verið. KA hefur unnið fimm leiki, gert tvö jafntefli og einungis tapað einum leik, gegn Stjörnunni í Garðabænum. Þar komust KA-menn í 0-2 en misstu forskotið niður og fóru stigalausir aftur heim til Akureyrar.

Til samanburðar fékk KA fimmtán stig í fyrstu fimmtán leikjum sínum og var á botni deildarinnar þegar Birnir gekk í raðir liðsins.

Birnir skoraði tvívegis þegar KA sigraði KR, 4-2, í fyrsta leik liðsins í úrslitakeppni neðri hlutans á sunnudaginn. Birnir hefur skorað í þremur leikjum í röð, alls fjögur mörk.

Birnir hefur skorað fyrir fimm lið í efstu deild: KA, Fjölni, Val, HK og Víking. Alls eru mörkin 46 í 180 leikjum í efstu deild.

Hallgrímur Mar Steingrímsson er markahæsti leikmaður KA í sumar. Hann hefur skorað níu mörk en þar á eftir koma Birnir, Ásgeir Sigurgeirsson og Jóan Símun Edmundsson með fjögur mörk hver.

KA er í 7. sæti deildarinnar, eða efsta sætinu í úrslitakeppni neðri hlutans. Liðið hefur endað þar undanfarin tvö tímabil, eftir að hafa lent í 2. sæti 2022.

Næsti leikur KA er gegn botnliði Aftureldingar á sunnudaginn.


Tengdar fréttir

Upp­gjörið: KA - KR 4-2 | Akur­eyringar sendu Vestur­bæinga í fallsæti

KA svo gott sem gulltryggði veru sína í efstu deild með 4-2 sigri á KR á Greifavellinum í fyrstu umferð neðri hluta deildarinnar eftir tvískiptingu. KR aftur á móti í fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir og áhyggjur Vesturbæinga minnka ekki. KR leiddi 2-1 í hálfleik en KA menn sneru taflinu við í þeim síðari og unnu sanngjarnan sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×