Innherji

Mildari tónn frá peninga­stefnu­nefnd þótt vöxtum sé enn haldið ó­breyttum

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar. Yfirlýsing nefndarinnar er sumpart dúfnalegri en áður og kann að vera til marks um að hún sé að reyna undirbúa farveginn fyrir að setja vaxtalækkanir aftur á dagskrá. 
Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar. Yfirlýsing nefndarinnar er sumpart dúfnalegri en áður og kann að vera til marks um að hún sé að reyna undirbúa farveginn fyrir að setja vaxtalækkanir aftur á dagskrá.  Vísir/Anton Brink

Meginvextir Seðlabankans haldast óbreyttir annan fundinn í röð, sem var í samræmi við væntingar allra greinenda, en peningastefnunefndin sér núna ástæðu til að undirstrika að viðsnúningur sé að verða í þróun efnahagsumsvifa og spennan að minnka.

Allir fimm nefndarmenn studdu þá ákvörðun að vextir Seðlabankans héldust óbreyttur í 7,5 prósentum. Lítil spenna var í aðdraganda vaxtaákvörðunar peningastefnunefndar enda hefur hún verið afar skýr í yfirlýsingum sínum að undanförnu að frekari skref til lækkunar vaxta væru háð því að verðbólgan færðist nær 2,5 prósenta markmiði bankans.

Verðbólgan mælist núna 4,1 prósent eftir að hafa hækkað um 0,3 prósentur frá síðustu ákvörðun í ágúst. Í yfirlýsingu nefndarinnar í morgun er hins vegar bent á að sú hækkun hafi verið fyrirsjáanleg og endurspegli að töluverðum hluta óhagstæð grunnáhrif.

Greinilegur viðsnúningur hefur orðið í þróun efnahagsumsvifa undanfarið og spennan í þjóðarbúinu hefur hjaðnað í takt við þétt taumhald peningastefnunnar.

Ólíkt því sem áður hefur komið fram í yfirlýsingum nefndarinnar að undanförnu þá segir núna að „greinilegur viðsnúningur“ hafi orðið í þróun efnahagsumsvifa og spennan í þjóðarbúinu hjaðnað í takt við þétt taumhald peningastefnunnar.

Sá tónn frá nefndinni er því dúfnalegri en áður. Í framhaldinu er samt bent á að seiglan í þjóðarbúskapnum sé áfram nokkur, launahækkanir mælast töluverðar og þótt verðbólguvæntingar hafi lækkað síðustu misseri sé þær enn yfir markmiði.

Peningastefnunefnd Seðlabankans segir margt hafa „þokast í rétta átt“ en ítrekar samt, líkt og í yfirlýsingu sinni í ágúst, að þær aðstæður hafi ekki enn skapast svo hægt sé að slaka á núverandi raunvaxtaaðhaldi – en það hefur haldist á bilinu um 3,5 til 4 prósent frá því snemma árs 2024. „Ljóst er að frekari skref til lækkunar vaxta eru háð því að verðbólga færist nær 2,5 markmiði bankans,“ segir nefndin.

Þá er í lokin sem fyrr sagt að mótun peningastefnunnar næstu misseri muni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Mildari tónn Seðlabankans kann að vera til marks um að peningastefnunefndin sé að undirbúa breytta stefnu þannig að hún geti farið að mæla fyrir því að vaxtalækkunarferlið haldi áfram á nýjan leik. Síðasti vaxtaákvörðunarfundur Seðlabankans á þessu ári fer fram 19. nóvember næstkomandi, en ósennilegt er að vextirnir lækki á þeim fundi.

Aðalhagfræðingur Kviku banka sagði í umfjöllun sinni í aðdraganda þessarar vaxtaákvörðunar að hagtölur að undanförnu hefðu sýnt veikan hagvöxt, minni verðbólgu en búist var við og raunverðslækkun fasteignaverðs og ef ekki væri fyrir Ódysseifska leiðsögn Seðlabankans þá hefði sú þróun „hæglega“ getað réttlætt núna 25 punkta vaxtalækkun – þótt hann ætti ekki von á því. Til viðbótar myndi fall Play hafa kælingaráhrif á vinnumarkaðinn en svo virtist sem hann „stæði nærri vendipunkti“ um þessar mundir.

Ekki væri útilokað, að sögn hagfræðings Kviku, að nefndarmenn í peningastefnunefnd myndu nýta færið á fundinum til að opna á vaxtalækkanir við fyrsta tækifæri. Það þyrfti enda ekki mörg eða stór frávik í verðbólgumælingum næstu mánaða til að hægt sé að lækka vexti meðan verðbólgan er jafn nærri vikmörkum.


Tengdar fréttir

Verðbólgu­væntingar fyrir­tækja og heimila standa nánast í stað milli mælinga

Ný könnun á verðbólguvæntingum fyrirtækja og heimila, bæði til skemmri og lengri tíma, sýnir að þær héldust meira og minna óbreyttar á alla mælikvarða og eru því enn vel yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Væntingar heimila til eins árs versnuðu hins vegar lítillega á þriðja fjórðungi.

Til að halda trúverðug­leika gæti bankinn þurft að „knýja fram harða lendingu“

Ef það fer að hægja nokkuð á umsvifum í hagkerfinu á sama tíma og verðbólgan reynist áfram þrálát kann það leiða til þess að peningastefnan muni „knýja fram harða lendingu“ í efnahagslífinu, að sögn seðlabankastjóra, ætli bankinn sér að standa við þá skýru leiðsögn um hvað þurfi að gerast áður en vextir lækki frekar. Hann segir fátt mæla með því að fara að slaka á lánþegaskilyrðum fasteignalána á meðan verðhækkanir á þeim markaði eru enn vandamál við að ná niður verðbólgunni.

Miklar launa­hækkanir hafa haldið inn­lendum hluta verðbólgunnar „lifandi“

Að undanförnu hefur munurinn á milli innlendrar og innfluttrar vöruverðbólgu farið töluvert vaxandi en þar eru greinileg áhrif mikilla launahækkana sem hafa haldið innlendum hluta verðbólgunnar „lifandi“ og unnið þannig gegn hjöðnun hennar, að sögn varaseðlaseðlabankastjóra peningastefnu. Löskuð kjölfesta verðbólguvæntinga hefur kallað á harðari viðbrögð Seðlabankans en í flestum öðrum iðnríkjum og áhrifin af beitingu peningastefnunnar á verðbólgu taki lengri tíma að koma fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×