Erlent

Tuttugu ára stjórn sósíal­ista í Bólivíu á enda

Atli Ísleifsson skrifar
Rodrigo Paz Pereira er nýr forseti Bólivíu. Hann ávarpaði stuðningsmenn sína í höfuðborginni La Paz í gærkvöldi.
Rodrigo Paz Pereira er nýr forseti Bólivíu. Hann ávarpaði stuðningsmenn sína í höfuðborginni La Paz í gærkvöldi. EPA

Öldungadeildarþingmaðurinn Rodrigo Paz vann sigur í síðari umferð bólivísku forsetakosninganna sem fram fóru í gær. Paz, sem flokkast sem mið-hægrimaður í bólivískum stjórnmálum, er með 55 prósent greiddra atkvæða þegar búið er að telja 98 prósent atkvæða. Niðurstaðan markar endalok tuttugu ára stjórn sósíalískra forseta í landinu.

„Við verðum að opna Bólivíu fyrir heiminum og koma stöðu landsins aftur í samt lag,“ sagði Paz þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í gær.

Paz hlaut einnig flest atkvæði í fyrri umferð forsetakosninganna sem fram fóru í ágúst. Þó þurfti að grípa til annarrar umferðar þar sem enginn hlaut hreinan meirihluta eða þá meira en 40 prósent atkvæða og munurinn milli tveggja efstu var meira en tíu prósentustig.

Paz tekur við forsetaembættinu af vinstrimanninum Luis Arce sem hefur gegnt embætti forseta frá árinu 2020.

Eitt af kosningaloforðum hins 58 ára Paz var „kapítalismi fyrir alla“ og lækkun skatta. Hann er sonur fyrrverandi forsetans Jaime Paz Zamora sem stýrði landinu á árunum 1989 til 1993.

Bólivíumenn glíma nú við mestu efnahagslegu þrengingar sínar um margra áratuga skeið og hefur gjaldmiðill landsins verið í frjálsu falli síðustu misserin.

Hægrimaðurinn Jorge „Tuto“ Quiroga beið lægri hlut í þessari síðari umferð forsetakosninganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×