Erlent

Fundu verk­smiðju fyrir ó­lög­leg þyngdarstjórnunarlyf

Samúel Karl Ólason skrifar
Þyngdarstjórnunarlyfin fölsku líta út eins og þau séu raunveruleg.
Þyngdarstjórnunarlyfin fölsku líta út eins og þau séu raunveruleg. MHRA

Yfirvöld í Bretlandi hafa lagt hald á heimsins stærsta farm af ólöglegum þyngdarstjórnarlyfjum. Rúmlega tvö þúsund skammtar fundust í ólöglegri verksmiðju í Northampton en þar fundust einnig tugir þúsunda tómra sprautupenna og reiðufé.

Auk þess að vera talin stærsta haldlagning ólöglegra þyngdarstjórnunarlyfja í heiminum, er þetta einnig í fyrsta sinn sem verksmiðja til framleiðslu slíkra lyfja finnst í Bretlandi, samkvæmt yfirlýsingu frá yfirvöldum.

Talið er að virði sprautuskammtanna sem hald var lagt á sé um 250 þúsund pund, eða um 41 milljón króna.

Í frétt Sky News segir að hinir fölsku sprautupennar hafi, samkvæmt merkingum á þeim, innihaldið tirzepatide. Það er lyf sem notað er gegn sykursýki og til þyngdarstjórnunar en ekki hefur komið fram hvað var í rauninni í sprautunum.

Miðillinn hefur eftir forsvarsmönnum Eli Lilly, raunverulega fyrirtækisins sem framleiðir alvöru sprautupenna með tirzepatide, að kaupendur hefðu ómögulega getað vitað hverju þeir væru raunverulega að sprauta sig með.

Þá er haft eftir Wes Streeting, heilbrigðismálaráðherra, að mikill sigur gegn glæpamönnum sem skeyti engu um heilsu og líf fólks hafi verið unninn. Hann biður fólk um að kaupa ekki þyngdarstjórnunarlyf af öðrum en lögbundnum fyrirtækjum. Annars eigi þau á hættu að fóðra vasa glæpamanna og í senn setja eigin heilsu í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×