Íslenski boltinn

Sjáðu banana­bombu Antons Loga og önnur síðustu mörk tíma­bilsins

Sindri Sverrisson skrifar
Það vantaði ekki fjörið í Garðabæ í dag en að lokum var það Stjarnan sem fagnaði, þrátt fyrir eins marks tap.
Það vantaði ekki fjörið í Garðabæ í dag en að lokum var það Stjarnan sem fagnaði, þrátt fyrir eins marks tap. vísir/Ernir

Tímabilinu í Bestu deild karla í fótbolta lauk með frábærum leik á milli Stjörnunnar og Breiðabliks, um Evrópusæti. Mörkin í leiknum voru glæsileg en þó sérstaklega mark Antons Loga Lúðvíkssonar.

Hér að neðan má sjá mörkin úr leiknum en honum lauk með 3-2 sigri Breiðabliks. Blikar þurftu hins vegar tveggja marka sigur til að komast upp fyrir Stjörnuna og ná Evrópusæti svo það voru Garðbæingar sem höfðu meiri ástæðu til að fagna í leikslok.

Klippa: Stjarnan - Breiðablik 2-3

Benedikt Warén kom Stjörnunni yfir með góðu marki en á 19. mínútu jafnaði Anton Logi þegar hann tók boltann á brjóstkassann við vítateiginn og bombaði honum í boga í hægra hornið. Vægast sagt stórkostlegt mark. 

Örvar Eggertsson náði hins vegar að koma Stjörnunni aftur yfir fyrir lok fyrri hálfleiks. 

Í seinni hálfleiknum skoraði Höskuldur Gunnlaugsson tvö afar lagleg mörk og voru Blikar því komnir yfir þegar enn var korter eftir af leiknum en fleiri mörk voru ekki skoruð.

Leiktíðinni í Bestu deild karla er því lokið og þó að stjarnan hafi ekki unnið einn einasta leik eftir skiptingu deildarinnar náði liðið að enda í 3. sæti með einu marki betri markatölu en Breiðablik. Bæði lið enduðu með 42 stig eftir 27 umferðir, þremur stigum á eftir Val og fimmtán á eftir meisturum Víkings.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×