Innlent

Enginn gleymir þessum degi fyrir tveimur árum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. vísir/ívar

Í dag eru tvö ár liðin frá því að rýma þurfti heilt bæjarfélag með hraði vegna kraftmikilla jarðskjálfta en í hönd fór atburðarás sem hafði í för með sér 9 eldgos og gríðarlega óvissu fyrir samfélagið í Grindavík. Bæjarstjórinn segir þetta tilfinningaríkan dag í huga bæjarbúa.

Stærðarinnar jarðskjálftar riðu yfir þann 10. nóvember árið 2023 en kvikugangur myndaðist undir bænum og mikið hættuástand skapaðist. Grindvíkingar neyddust til að flýja heimili sitt og samfélag inn í mikla óvissu.

„Þetta er nú bara tilfinningaríkur dagur, verð ég að segja, því fyrir tveimur árum skalf jörðin svo svakalega undir fótunum á okkur og það var hristingur bókstaflega allan daginn og munir og bílar hentust til. Enginn Grindvíkingur sem var í bænum gleymir þessum degi fyrir tveimur árum,“ segir Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur.

Hann bendir á að þessi dagur hafi markað upphafið að miklum óvissukafla í lífi bæjarbúa.

„Það varð eitt hörmulegt vinnuslys hérna í bænum og síðan hafa verið níu eldgos í túnjaðrinum hjá okkur þannig að þetta hefur verið mjög erfiður tími og íbúarnir þurft að dvelja flestallir þennan langa tíma, þessi tvö ár annars staðar en í Grindavík. Þó að það séu nú þónokkuð margir sem búa hérna orðið núna og eru með lögheimili hér þá erum við enn þá að bíða eftir því að þessum atburðum linni.“

Á vefsvæði Grindavíkurbæjar er hægt að nálgast dagskrá fyrir bæjarbúa í dag.

„Það verður samverustund í kirkjunni okkar klukkan hálf sex í dag og svo verða Grindavíkurdætur, sem er kvennakórinn okkar flotti, með tónleika í hljómahöllinni í kvöld klukkan átta.“

Hjá mörgum brottfluttum Grindvíkingum er baráttumál að fá að kjósa í Grindavík í næstu sveitarstjórnarkosningum.

„Það eru mjög virkar samræður við ríkisvaldið um þessar hugmyndir. Það þarf lagabreytingu til en það er ekkert því til fyrirstöðu að þetta verði gert með þessum hætti. Það er búið að gera lagalegar úttektir á því að það sé hægt að framkvæma þetta með þessum hætti.“


Tengdar fréttir

Ár frá rýmingu í Grindavík: „Með mestu hamförum sem riðið hafa yfir Ísland“

Í dag er ár liðið frá því að stór kvikugangur myndaðist undir Grindavík og bærinn var rýmdur. Hamfarirnar eru einar þær mestu í sögunni að sögn bæjarstjóra sem kveðst bjartsýnn á framtíð bæjarins þrátt fyrir að jarðhræringum sé ekki lokið. Forseti Íslands mun sækja samverustund í Grindavíkurkirkju í kvöld.

Óvissan um að missa Grindavík það langversta

Íbúar Grindavíkur sem biðu þess að komast inn í bæinn sinn til þess að ná í nauðsynjar með viðbragðsaðilum í Þórkötlustaðahverfi voru eðli málsins samkvæmt misbrattir þegar fréttastofa tók þá tali nú síðdegis. Einn segist ekki halda að hann muni sjá húsið sitt aftur.

Það sem gerðist í nótt

Hér er að finna samantekt á því sem gerðist í nótt. Kvikugangur virðist nú liggja undir Grindavík. Nokkuð mikil kvika virðist vera að safna saman og atburðurinn stærri en áður var búist við. Búið er að rýma Grindavík, kalla flesta viðbragðsaðila af svæðinu og varðskipið Þór fær fjær bænum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×