Íslenski boltinn

„Að fara frá heima­högunum og í borg óttans“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Anton Ingi Rúnarsson fær krefjandi verkefni í hendurnar hjá Fram.
Anton Ingi Rúnarsson fær krefjandi verkefni í hendurnar hjá Fram. vísir / stefán

Anton Ingi Rúnarsson er nýtekinn við liði Fram í Bestu deild kvenna og líst vel á metnað stjórnarinnar, sem vill sjá liðið blanda sér í toppbaráttuna bráðlega.

Anton Ingi er 29 ára gamall og hefur allan sinn þjálfaraferil starfað fyrir uppeldisfélag sitt í Grindavík en nú skiptir hann úr gulu yfir í blátt.

„Ég fékk ekki að halda áfram með karlaliðið hjá Grindavík, eftir að hafa tekið síðustu tvo leikina og var í rauninni bara að leita mér að starfi þegar þetta kemur óvænt upp. Þetta er spennandi starf og stórt skref upp á við fyrir mig. Þetta er tilbreyting fyrir mig, að fara frá heimahögunum og í borg óttans“ sagði Anton, sem þarf allavega ekki lengur að hafa áhyggjur af því hvar næsta æfing verður.

Öðruvísi óvissa 

„Ég held að ég hafi verið með boltanetið og keilurnar í töskunni í heilt ár og flakkað á milli níu valla“ sagði Anton um tíma sinn hjá Grindavík eftir rýmingu bæjarsins árið 2023.

Ákveðin óvissa fylgir þó nýja starfinu, sem Anton tekur við af Óskari Smára Haraldssyni. 

Stanslausir fundir en metnaðurinn er til staðar

Óskar, ásamt öllu þjálfarateyminu og meistaraflokksráði kvenna, hætti störfum eftir tímabilið og ásakaði stjórn knattspyrnudeildar um metnaðarleysi.

„Ég er búinn að funda alveg stanslaust hérna í Fram heimilinu síðustu daga, bæði með leikmönnum og [stjórninni] til að manna þjálfarateymið.“

Hvernig var samtalið við stjórnina, hvar er metnaðurinn hjá þeim?

„Hann er bara mjög góður og þau ætla að leggja hart að sér í því að halda kvenna- og karlaliðunum á sama róli og hefur verið síðustu ár. Það er búinn að vera mikill uppgangur í fótboltanum hérna síðustu ár. Þetta er stór klúbbur sem á heima í efstu deild, í baráttu um toppsætin og það er eitthvað sem við stefnum að á næstu 2-3 árum.“

Viðtalið við Anton má sjá í spilaranum efst í fréttinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×