Sport

Ingeborg og Snævar eru Í­þrótta­fólk ársins hjá fötluðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingeborg Eide Garðarsdóttir og Snævar Örn Kristmannsson með verðlaun sín sem Íþróttafólk ársins sem þau voru bæði að vinna í fyrsta sinn.
Ingeborg Eide Garðarsdóttir og Snævar Örn Kristmannsson með verðlaun sín sem Íþróttafólk ársins sem þau voru bæði að vinna í fyrsta sinn. Vísir/Lýður Valberg

Ingeborg Eide Garðarsdóttir og Snævar Örn Kristmannsson voru í dag útnefnd besta íþróttafólk ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra fyrir árið 2025.

Íþróttasamband fatlaðra heiðraði í dag framúrskarandi íþróttafólk og brautryðjendur á alþjóðadegi fatlaðs fólks. Á þessari árlegu athöfn ÍF voru kynnt Íþróttakona og Íþróttamaður ÍF 2025 auk þess sem Hvataverðlaun ÍF voru afhent.

Í ár hlaut frjálsíþróttakonan Ingeborg Eide Garðarsdóttir nafnbótina Íþróttakona ÍF 2025 og var sundmaðurinn Snævar Örn Kristmannsson útnefndur Íþróttamaður ÍF 2025. Magnús Orri Arnarson hlaut Hvataverðlaun ÍF fyrir framúrskarandi starf í þágu íþróttafólks með fötlun. Ingeborg Eide og Snævar Örn voru bæði að fá þessi verðlaun í fyrsta skipti.

Ingeborg Eide Garðarsdóttir setti eitt Íslandsmet á árinu 2025 í flokki F37 í frjálsum íþróttum. Ingeborg setti metið á stóra sviðinu þegar hún keppti á Heimsmeistaramóti IPC í frjálsum íþróttum sem haldið var í Nýju Delí á Indlandi dagana 27. september – 5. október. Ingeborg tók þátt á þremur mótum erlendis árið 2025, Grand Prix í París í Frakklandi, Grand Prix í Olomouc í Tékklandi og Heimsmeistaramót IPC í Nýju Delí á Indlandi.

Á Grand Prix í París endaði Ingeborg í 2. sæti með kast upp á 9,00 metra. Á Grand Prix í Tékklandi endaði hún í 3. sæti með kast upp á 9,52 metra en það mót var fyrsta kvenna Grand Prix-mótið í sögunni hjá IPC. Ingeborg endaði tímabilið á því að keppa á Heimsmeistaramóti IPC í New Delhi á Indlandi. Þar lauk hún keppni í 6. sæti með kast upp á 10,08 metra sem var nýtt Íslandsmet í hennar flokki og í fyrsta skiptið sem Ingeborg kastar yfir 10 metra.

Árið 2024 keppti Ingeborg á sínum fyrstu Paralympics sem fram fóru í París en hún hefur einnig tekið þátt áður í heims- og Evrópumeistaramótum fyrir Íslands hönd. Á síðustu árum hefur hún tekið stórstígum framförum og öðlaðist keppnisrétt í París með svokölluðu „high performance” lágmarki en hún hefur síðustu misseri skipað sér á sess með tíu fremstu kösturum heims í flokki F37 (hreyfihamlaðir).

Snævar Örn Kristmannsson setti samtals 33 Íslandsmet í sundi árið 2025. Á árinu bætti hann sig í öllum sínum helstu greinum, þar á meðal 50 metra, 100 metra og 200 metra flugsundi, 50 metra og 100 metra skriðsundi, 400 metra skriðsundi og 100 metra og 200 metra fjórsundi.

Á Íslandsmóti SSÍ setti Snævar þrenn Evrópumet í 100 metra flugsundi á tímanum 59,77 sek, 200 metra flugsundi á tímanum 2:14,57 mín. og 100 metra fjórsundi á tímanum 1:06,65 mín.

Á mótinu setti Snævar einnig heimsmet í 50 metra flugsundi þegar hann synti á tímanum 26,69 sek. Á Norðurlandamótinu í sundi setti Snævar Evrópumet í tveimur greinum, 100 metra flugsundi með tímann 59,61 sek og 200 metra fjórsundi með tímann 2:25,75. Snævar tók þátt í heimsmeistaramóti VIRTUS sem fór fram í Bangkok í Tælandi en þar náði hann í þrenn silfurverðlaun í 50 metra, 100 metra og 200 metra flugsundi og bætti einnig Íslandsmet í öllum þremur greinunum.

Í 50 metra skriðsundi endaði Snævar í fimmta sæti á nýju Íslandsmeti. Virtus eru alþjóðleg samtök sem halda utan um afreksíþróttafólk með þroskahamlanir og einhverfu þar sem keppt er eftir reglum samkvæmt IPC. Snævar keppir innan raða Virtus í flokki II3, sem er flokkur fyrir íþróttafólk með einhverfu.

Þetta er í fyrsta sinn sem Snævar hlýtur nafnbótina Íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×