Körfubolti

Botnlið Hamars/Þórs ná­lægt sigri í Grinda­vík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Abby Claire Beeman var frábær undir lokin á móti sínum gömlu félögum.
Abby Claire Beeman var frábær undir lokin á móti sínum gömlu félögum. Vísir/Anton Brink

Grindavíkurkonur þurftu þrusu endurkomu í lokaleikhlutanum til að landa sigri á móti botnliði Hamars/Þórs í Bónusdeild kvenna í körfubolta í kvöld.

Grindavík vann leikinn með sjö stigum, 79-72, og endaði þar með tveggja leikja taphrinu sína.

Hamars/Þórs-konur voru búnar að tapa níu fyrstu deildarleikjum sínum á tímabilinu en voru sjö stigum yfir í fjórða leikhlutanum. Fyrsti sigurinn var í augsýn en þá hrundi allt.

Grindavíkurkonur skoruðu næstu þrettán stig og sneru leiknum á augabragði.

Abby Claire Beeman var með 24 stig og 23 stoðsendingar hjá Grindavik og Svíinn Ellen Nystrom bætti við 19 stigum og 10 fráköstum. Farhiya Abdi skoraði fjórtán stig.

Beeman skoraði þrettán stig á lokakaflanum en hún var að mæta sínum gömlu félögum.

Mariana Duran var með 21 stig fyrir Hamar/Þór og Jadakiss Guinn skoraði 20 stig. Jovana Markovic var með 17 stig og 12 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×