Veður

Bjart sunnan- og vestan­lands en él norðan- og austan­til

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður víða núll til sex stig að deginum.
Hiti verður víða núll til sex stig að deginum. Vísir/Anton Brink

Lægðir suður og suðvestur af landinu beina norðaustlægari átt til landsins þar sem víða má reikna með kalda eða strekkingi.

Á vef Veðurstofunnar segir að það verði dálítil slydduél eða él á Norður- og Austurlandi, en lengst af bjart sunnan- og vestanlands.

Hiti verður víða núll til sex stig að deginum, en vægt frost inn til landsins í dag.

„Í kvöld þykknar upp sunnanlands, dálítil rigning eða slydda þar með köflum í nótt og í fyrramálið. Áfram norðaustlæg átt á morgun og lítilsháttar skúrir eða slydduél, en yfirleitt úrkomulítið um landið vestanvert,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14. Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Norðaustan 8-15 m/s, hvassast á Vestfjörðum. Rigning eða slydda með köflum, en dregur víða úr úrkomu síðdegis og léttir til suðvestanlands. Hiti 0 til 7 stig, mildast syðst.

Á laugardag: Norðaustan 8-15, hvassast við suðausturströndina. Dálítil rigning á austanverðu landinu og slydda á Ströndum, en annars yfirleitt þurrt. Hiti 0 til 5 stig.

Á sunnudag: Norðaustlæg átt og skúrir eða él, en bjart með köflum suðvestantil. Hiti breytist lítið.

Á mánudag: Norðaustan 5-13 og dálítil rigning eða slydda af og til. Áfram fremur milt í veðri.

Á þriðjudag og miðvikudag: Útlit fyrir norðlæga átt og kólnar með éljum fyrir norðan, en léttir til syðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×