Lífið

„Mig hefði aldrei grunað að þetta ætti eftir að koma fyrir mig“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Í tilfelli Guðnýjar var ekki hægt að finna neina sérstaka útskýringu á því að hún fékk heilablóðfall. Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti.
Í tilfelli Guðnýjar var ekki hægt að finna neina sérstaka útskýringu á því að hún fékk heilablóðfall. Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Vísir/Vilhelm

„Ég var einhvern veginn sannfærð um að ekkert yrði eins og áður var. Mig langaði mest af öllu að bara stinga hausnum undir sæng og ekki þurfa að díla við neitt. En á sama tíma uppgötvaði ég hvað lífið mitt fram að þessu, „gamla“ lífið mitt, hafði verið gott og frábært; ég elskaði starfið mitt og fjölskylduna mína og vini og allt í kringum mig,“ segir Guðný Jónasdóttir sellóleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.Verandi 38 ára, stálhraust þriggja barna móðir átti hún allra síst von á því að vakna upp einn daginn og vera skyndilega búin að missa stjórnina á eigin líkama. Greiningin kom fljótt: blóðtappi sem kallaði á tafarlausa aðgerð. Það var upphafið að margra mánaða endurhæfingu þar sem Guðný þurfti að endurheimta hreyfifærni, fínhreyfingar og skynjun – grundvallaratriði í starfi hennar sem tónlistarmanns. Ári síðar er Guðný aftur komin upp á svið, en ferðalagið þangað var langt frá því að vera auðvelt.

Talaði „veikindatungumál“

Guðný á að baki glæstan feril sem sellóleikari en hún lauk Mastersgráðu frá Royal Academy of Music í London árið 2013 eftir að hafa lokið námi við Listaháskóla Íslands og Musikhochschule Lübeck í Þýskalandi. Hún starfaði sjálfstætt í Bretlandi á árunum 2013-2019 bæði sem kammermúsíkant og með hljómsveitum, í upptökum og á sviði. Hún lék reglulega með English National Opera og Philharmonia ásamt því að vera á prufum sem leiðandi sellóeikari í BBC Wales, Scottish Opera og Opera North. Hún er einnig meðlimur Barokksveitarinnar Brák og hefur komið fram sem gestur með ýmsum kammerhópum á Íslandi eins og Elektru og Kammersveit Reykjavíkur.

Á London-árunum eignuðust Guðný og eiginmaður hennar, Hans Róbert Hlynsson, sitt fyrsta barn og eftir að þau fluttust heim til Íslands árið 2019 bættust yngri börnin tvö við. Guðný hóf störf við Sinfóníuhljómsveit Íslands haustið 2019 og er annar af stofnendum Kammerhópsins Jöklu.

Hún átti allra síst von á því að vakna upp einn morguninn, nánar tiltekið þann 27. nóvember á seinasta ári, og vera algjörlega lömuð á vinstri hlið líkamans.

„Það sem var svo ógnvekjandi var að ég sjálf gerði mér enga grein fyrir hvað var í gangi. Ég gerði mér enga grein fyrir að það væri eitthvað að mér. Ég hélt ég væri kvefuð og bað manninn minn að hjálpa mér, halda við mig, svo ég gæti farið og snýtt mér. Ég skildi ekkert í því hvað hann var að meina þegar hann benti mér á að ég gæti ekki gengið. Ég leit örugglega út fyrir að vera dauðadrukkin. Krakkarnir voru auðvitað logandi hrædd og strákurinn minn sagði seinna að ég hefði verið að tala „veikindatungumál.“

Hún segir snarræði eiginmannsins hafa skipt sköpum þennan morgun en hann var ekki lengi að hringja á sjúkrabíl. Sjálf hafi hún ekkert skilið í þessum viðbrögðum eiginmannsins og fannst þetta bara vera óþarfa „drama“, eins og hún orðar það.

„Þegar sjúkrabíllinn mætti var mér síðan sagt að þetta hefðu verið hárrétt viðbrögð hjá honum, ég væri að fá heilablóðfall,“ segir Guðný og bætir við að það sé erfitt að hugsa til þess hvernig þetta hefði farið ef eiginmaðurinn hefði brugðist hárrétt við akkúrat á þessari stundu.

Upplifunin að koma á bráðamóttökuna var síðan ógnvekjandi, óþægileg og skrítin.

„Af því að ég var ekkert að átta mig á hvað var að gerast; ég var bara endalaust að reyna að tjá mig og segja öllum að ég þyrfti að pissa, en auðvitað skildi enginn orð af því sem ég var að reyna að segja.“

Tappi innan tímaramma

Þegar einstaklingur kemur á bráðamóttöku vegna gruns um blóðtappa er í flestum tilfellum tekin mynd og viðkomandi síðan settur á blóðþynnandi lyf í von um að tappinn leysist upp. Það er síðan metið hvort þörf sé á aðgerð þar sem nál er stungið í slagæð og holleggur þræddur upp að svæðinu þar sem tappinn situr.

„Í mínu tilfelli var þetta hins vegar þannig að læknarnir sáu strax, út frá þessari bráðabirgðamynd, að þetta væri tappi og þeir ákváðu að fara bara strax og taka hann, í stað þess að bíða og sjá hvort lyfin myndu virka. Mér skilst að það sé ekki nema í rúmlega 10 prósent tilfella sem það er gert, þar sem að venjulega eru þessar myndir svo óskýrar. Ég var, eins og þeir kölluðu það „tappa innan tímaramma“. 

Ég er auðvitað óendanlega þakklát, ég veit hvað ég var heppin að þetta gekk allt saman svona hratt og vel fyrir sig. Ef þeir hefðu ekki náð tappanum svona snögglega hefði hugsanlega orðið miklu meiri skaði.
Eftirköstin voru líkamleg - en ekki síður andleg eins og Guðný lýsir því.Vísir/Vilhelm

Þrátt fyrir margvíslegar rannsóknir gátu læknar ekki bent á neina sérstaka ástæðu fyrir því að Guðný fékk heilablóðfall. Hún er 39 ára og ekki á „heilablóðfallsaldri“ eins og hún orðar það.

„Mig hefði aldrei grunað að þetta ætti eftir að koma fyrir mig. Ég hafði alltaf verið stálhraust, aldrei verið með of háan blóðþrýsting, var ekki á pillunni, ég stundaði leikfimi og borðaði hollt, ég hafði ekki drukkið áfengi í neinu óhófi síðan einhvern tímann á háskólanámsárunum, og ég hafði aldrei reykt á ævinni.

Það var nákvæmlega enginn undirliggjandi áhættuþáttur. Það eina sem læknarnir gátu sagt var að þetta gæti verið eitthvað streitutengt. Vissulega var ég að glíma við streitu, verandi móðir þriggja ungra barna, en ég veit ekki hvort þetta var eitthvað meiri streita en gengur og gerist hjá öðrum.”

Leitaði út fyrir landsteinana

Skiljanlega hefur það alvarlegar aukaverkanir á alla þætti heilsunnar að jafna sig eftir heilablóðfall.

„Ég var held ég hvað lengst að jafna mig á því áfalli að vera allt í einu algjörlega ósjálfbjarga, vita ekki neitt, skilja ekki neitt og enginn skildi mig. 

Fyrir manneskju eins og mig, sem hefur alltaf verið óþolandi sjálfstæð, þá var þetta mjög erfið upplifun.

Guðný var á spítala í tæpar tvær vikur eftir aðgerðina.

„Líkamlega var allt í lagi með mig, fyrir utan það að ég var að frekar slöpp. Og þar af leiðandi var ég ekki alveg að skilja það, eða meðtaka það hvað læknarnir voru tregir við að hleypa mér heim strax. Ég vildi bara komast heim og fara út í lífið aftur. Læknarnir gáfu mér reyndar mjög litlar útskýringar, sem mér fannst mjög pirrandi. Það var ekki fyrr en löngu seinna, þegar ég fékk að sjá myndirnar sem voru teknar fyrir og eftir aðgerðina og sá bólgurnar sem höfðu verið í heilanum, skildi ég hvers vegna læknarnir höfðu verið svona paranojaðir yfir þessu. En ég var mjög lengi að átta mig á alvarleika málsins, þetta var ekki eitthvað sem maður gat bara meðtekið á núlleinni. Ég, verandi þessi brálaða ofvirka týpa sem ég er, vildi náttúrulega bara rjúka strax af stað.“

Síðan tók við margra mánaða líkamleg endurhæfing sem stendur enn þá yfir.

Eitt af eftirköstunum sem fylgdu voru stöðugir taugaverkir og vöðvakrampar, og þar að auki mikil skynbrenglun. Fyrstu mælingar eftir aðgerðina sýndu fram á litla skerðingu, ég gat stigið í fótinn og ég hafði ekki misst mikinn vöðvamassa. Það var ekki fyrr en nokkrum vikum seinna að það kom í ljós að vinstri hlið líkamans var í algjöru rústi. Venjulega er það þannig að taugakerfið sendir boð til líkamans um að nú megi slaka á, en það var eins og taugakerfið væri bara reitt, það var enn þá fast í einhvers konar „fight or flight“ ástandi eftir áfallið. Vinstri hliðin var alltaf síspennt. Tilfinningin vinstra megin í kjálkanum var eins og maður fær þegar maður gnístir tönnum. Ég er enn að glíma við þetta í dag, mér finnst til dæmis óþægilegt þegar börnin mín taka í vinstri hendina á mér, eða þá að snerta hluti með vinstri hendinni, og ég er rosalega viðkvæm fyrir ljósi og hita.“

Þetta kom sér ekki beinlínis vel fyrir manneskju sem hefur atvinnu sína af því að spila á selló, og þar dugir ekki að nota einungis hægri höndina.

„Vöðvaminnið var í lagi, ég kunni enn þá að spila. En jafnvel þótt minnið mitt væri fullkomlega í lagi fannst mér allt skrítið, óþægilegt og klunnalegt við sellóið. Allt í einu var það að renna boganum upp og niður streng og ýta niður stálstrengi orðið mjög óþægileg og framandi tilfinning.

Allar pínulitlu fínhreyfingarnar, sem ég var búin að vera að þjálfa undanfarin þrjátíu ár, voru ekki lengur eins nákvæmar.

Guðný endaði á því að finna meðferðarstofnun í Bretlandi sem sérhæfir sig í að hjálpa sviðslistafólki.

„Það er yndislegt fólk sem starfar á Grensásdeild - en hér á Íslandi er samt enginn sem hefur sérhæft sig í að vinna með hljóðfæraleikurum. Í gegnum þessa stofnun í Bretlandi fékk ég zoom tíma hjá taugasjúkraþjálfara sem hefur sérhæft sig í taugaskaða hjá sviðslistafólki. Við þurftum að taka alla tæknina mína í sundur; gefa heilanum tækifæri til að mynda þessar tengingar upp á nýtt. Þjálfarinn benti mér á í eitt skipti að þegar sár myndast á líkamanum þá myndast hrúður á innan við tveimur dögum en ef „sárið” er í heilanum þá tekur það sirka þrjá mánuði. Þetta er ágætis myndlíking, og þetta er eitthvað sem ég þurfti að hafa í huga og minna mig á reglulega á meðan heilinn var að læra alla þessa hluti upp á nýtt og jafna sig á þessu svakalega inngripi sem hafði átt sér stað.“

Guðný tók eitt skref í einu í endurhæfingunni.Vísir/Vilhelm

„Ég á heima hérna“

Líkamlegu eftirköstin voru eitt – en andlegu eftirköstin voru önnur.

Að vera skyndilega kippt út úr lífinu með þessum hætti reyndist allt annað en auðvelt.

„Þetta var eiginlega ekki ósvipað því að verða fyrir alvarlegu slysi. Ég lít meira á þetta sem slys,” segir Guðný.

„Líkamlega sjokkið var auðvitað mikið en það var samt mest andlegt. Á áramótunum í fyrra var ég sokkin niður í mjög djúpt þunglyndi. Ég sá fyrir mér alla vinnuna sem var fram undan og hugsaði mér hvort það væri yfirhöfuð þess virði að standa í þessu. Í hvert skipti sem ég settist niður við sellóið grenjaði ég úr mér augun. Ég var ekki að sjá fyrir mér að þetta væri yfirhöfuð mögulegt en ég sá ekki fram á að ég ætti einhvern tímann eftir að geta spilað á selló framar. Að leika á selló gerir kröfur um fínhreyfingar og ég átti mjög erfitt með að sjá fram á að ég myndi einhvern tímann ná þeirri færni aftur.

Maðurinn minn var ekki alveg að skilja af hverju ég var svona rosalega þunglynd yfir þessu, sellóið er alls ekki það eina sem ég hef, ég er með gráðu í sálfræði og hef unnið við ýmislegt tengt tónlist og börnum. En ég var samt sem áður búin að bíta það í mig að ég ætti eftir að verða óhamingjusöm það sem eftir væri ef ég gæti ekki spilað á selló.“

Ég talaði við mjög mikið af fólki á þessum tíma og ein vinkona mín kom mér í samband við konu sem er með svipaða reynslu og ég og hún hvatti mig til að gefa ekki upp á bátinn þann möguleika að starfa áfram í tónlistinni. „Byrjaðu á því að fara aftur til baka að spila. Ef það gengur alls ekki þá geturðu alltaf breytt til seinna.“ Samstarfsfélagar mínir í Sinfó voru líka svo yndislegir og voru duglegir að styðja við bakið á mér, komu heim til mín og spiluðu dúetta með mér og svona hjálpuðu mér að komast af stað.

Eftir margra mánaða hægfara tækniæfingar sem tóku vikur að bera árangur tókst Guðnýju að byrja aftur að spila nokkrar auðveldar efnisskrár með hljómsveitinni ásamt nokkrum dúettatímum með vinum og samstarfsfólki og smátt og smátt sneri hún aftur í fullt starf.

„Fyrsta vikan í vinnunni var svakalega erfið, ég var með stöðuga verki og hugsaði strax með mér að þetta væri alltof snemmt og þetta væri ekkert að ganga. En svo man ég eftir því þegar ég var loks komin upp á sviðið á fyrstu tónleikunum. Mér hafði ekki liðið eins vel í marga mánuði og hugsaði bara með mér: „Ég á heima hérna.“ Þetta var svipað og þegar ég kom heim af spítalanum eftir heilablóðfallið. Að vera uppi á sviði, þetta var bara eins og að vera komin heim aftur. Og ég fékk á tilfinninguna þarna að öll vinnan undanfarna mánuði hefði verið hundrað prósent þess virði. Og það hvatti mig til að halda áfram. Ég byrjaði á „smotterí“, auðveldum tónleikum, var fyrst í 50 prósenta starfi, síðan eftir sumarið fór ég í 75 prósenta starf og í þessum mánuði fór ég síðan í hundrað prósenta starf. Allt seinasta ár hefur í raun farið í það að komast aftur í „gamla“ lífið mitt, komast í núllpunktinn minn. Ég þarf enn þá að hafa miklu meira fyrir öllu og æfa mig miklu meira en ég var vön að gera. Flest færni er komin í samt lag en sellófærnin þarfnast enn vinnu og það er enn þá töluvert langt í land.”

Guðný hefur smátt og smátt öðlast fyrri styrk og getuVísir/Vilhelm

Fagnaði hversdagsleikanum

Þann 1. desember síðastliðinn birti Guðný færslu á Facebook þar sem hún greindi frá ferlinu sem hún hefur gengið í gegnum undanfarið ár og ritaði meðal annars:

„Ég vona að enginn þurfi að ganga í gegnum það ferðalag sem ég og fjölskylda mín fórum í á þessu ári en vildi bara koma því á framfæri að með nægri ást í lífi þínu er allt mögulegt.“

„Mér fannst magnað að hugsa til þess að fyrir ári var ég lömuð vinstra megin og rúmföst og ári síðar, 27. nóvember, átti ég hversdagslegan dag sem fullfær þriggja barna móðir og atvinnusellóleikari. Það var svolítið kveikjan að þessari færslu,“ segir Guðný.

„Fyrir ári síðan hefði mig aldrei grunað að ég gæti átt svona „venjulegan“ dag. Það er ótrúlegt að hugsa til þess, vegna þess að ég byrjaði þetta ár algjörlega á botninum. Það sem dreif mig áfram voru börnin mín. Maður á náttúrulega þessi litlu kríli sem vekja mann spenntan með látum klukkan sjö á hverjum morgni, og þá er auðvitað ekkert annað í boði en að koma sér fram úr. Eins og það getur verið mikið helvíti að vera veikur, og extra viðkvæmur fyrir hávaða og látum sem fylgir þremur ungum börnum, þá var það að sama skapi það sem kom mér af stað og hélt mér gangandi á hverjum degi.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.