Innlent

Vöru­bif­reið ekið á undir­stöður Breiðholts­brúar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Brúin á að vera tilbúin næsta sumar.
Brúin á að vera tilbúin næsta sumar. Aðsend

Vörubifreið var ekið á undirstöður nýrrar brúar við Breiðholtsbraut fyrr í dag. Breiðholtsbraut er því lokuð frá Jaðarseli að Elliðavatnsvegi og verður það um óákveðinn tíma. 

Árni Friðleifsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir engin slys hafa verið á fólki.

„Vörubifreið var ekið Breiðholtsbraut til austurs með pallinn uppi. Það eru bara mannleg mistök,“ segir Árni og að pallurinn hafi rekist í undirstöður brúarinnar.

„Við höggið rifnar pallurinn af. Það voru sem betur fer engin slys á ökumanni eða öðru fólki en töluverðar skemmdir á undirstöðum og lögreglumenn sem eru á vettvangi segja að það verði lokað um óákveðinn tíma,“ segir Árni.

Vinna að hreinsun

Höskuldur Tryggvason, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, segir nú unnið að hreinsun og að því að tryggja búnað undir brúnni.

„Það er verið að yfirfara þetta og vinna að úrbótum,“ segir hann og að umferð verði ekki hleypt aftur í gegn fyrr en búið er að ganga úr skugga um að öruggt sé að aka undir brúna.


Tengdar fréttir

Hægt verði að aka yfir brúna næsta sumar

Steypuvinnu við nýja brú yfir Breiðholtsbraut lauk um helgina. Verkefnastjóri segir verkið ganga vel, en þrátt fyrir takmarkanir á umferð eru alltaf einhverjir sem virða ekki reglurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×