Veður

Tíðinda­lítið veður en bætir í vind í kvöld

Atli Ísleifsson skrifar
Frost verður yfirleitt á bilinu núll til sjö stig.
Frost verður yfirleitt á bilinu núll til sjö stig. Vísir/Vilhelm

Útlit er fyrir tíðindalítið veður á landinu í dag þar sem áttin verður breytileg – gola eða kaldi – og víða bjart. Líkur á einhverjum éljum við ströndina.

Á vef Veðurstofunnar segir að frost verði yfirleitt á bilinu núll til sjö stig.

„Í kvöld kemur djúp lægð inn á Grænlandshaf, það bætir smám saman í vind og á morgun ganga skil lægðarinnar norður yfir landið.

Í fyrramálið verður því allhvöss eða hvöss austanátt á landinu og úrkoma með köflum í flestum landshlutum, ýmist rigning, slydda eða snjókoma, en á norðaustan- og austanverðu landinu verður vindur hægari og á Austfjörðum má búast við talsverðri úrkomu um tíma.

Það dregur síðan úr vindi, norðaustan og austan kaldi eða strekkingur seinnipartinn, en áfram hvasst norðvestantil auk þess sem búast má við hríðarveðri á Vestfjörðum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Austan 13-20 m/s um morguninn og rigning, slydda eða snjókoma með köflum, en hægari um landið austanvert. Dregur síðan úr vindi, norðaustan og austan 8-15 síðdegis, en hvassviðri og hríð norðvestantil. Hiti víða 0 til 7 stig, mildast syðst.

Á fimmtudag: Norðvestan 10-18, en hægari norðaustan- og austanlands. Skúrir sunnantil, en dálítil snjókoma eða slydda fyrir norðan. Hiti breytist lítið. Dregur úr vindi seinnipartinn.

Á föstudag: Austlæg átt 5-13 og skúrir eða él á víð og dreif. Hiti 0 til 5 stig, en vægt frost í innsveitum.

Á laugardag: Norðlæg átt og dálítil él, en yfirleitt þurrt um landið sunnanvert. Heldur kólnandi.

Á sunnudag (vetrarsólstöður): Breytileg átt, bjart með köflum og víða vægt frost.

Á mánudag: Suðlæg átt og bjartviðri, en þykknar upp um landið vestanvert. Hlýnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×