Lífið

Heilsu krónprinsessunnar hrakar gríðar­lega

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mette-Marit og Hákon ásamt dóttur sinni Ingrid Alexöndru.
Mette-Marit og Hákon ásamt dóttur sinni Ingrid Alexöndru. Rune Hellestad - Corbis/Corbis via Getty Images

Heilsu norsku krónprinsessunnar Mette-Marit hefur hrakað gríðarlega vegna lungnasjúkdóms hennar. Ástandið er nú svo alvarlegt að hún mun líklega þurfa á lungnaígræðslu að halda, sem er stór og hættuleg aðgerð að sögn lækna hennar.

Prinsessan og Hákon krónprins upplýsa um þetta í viðtali við norska ríkisútvarpið. Greint var frá því fyrir rúmu ári að prinsessan væri með lungnasjúkdóm sem kallast lungnatrefjun og fór svo í október að hún tók sér frí frá störfum vegna sjúkdómsins. Í einlægu viðtali við norska miðilinn segir hún að ástandið hafi nú versnað og að nú muni hún þurfa lungnaígræðslu.

„Við höfum vitað það allan tímann að svona virkar þessi sjúkdómur. Mér fannst þetta samt gerast hraðar heldur en ég hafði ímyndað mér og vonað,“ segir prinsessan. „Ég á mjög erfitt með tilhugsunina um þetta næsta skref, því þetta er aðgerð sem innifelur miklar áhættur.“

Prinsessan segir að það erfiðasta sé að geta ekki gert sömu hluti og hún gat áður. Málið hafi tekið á og líkir Hákon krónprins því við sorgarferli að takast á við stöðuna, sorgarferli fyrir alla fjölskylduna.

„Og þegar við sitjum kyrr þá lítur það út eins og það sé allt í himnalagi hjá henni. En við tökum eftir því að hún á erfiðara með andardrátt, er með minni orku og er oftar veik og þetta gerist allt mjög hratt. Þannig að við sem erum henni nánust tökum vel eftir þessu,“ segir krónprinsinn.

Mette-Marit segist hafa sætt sig við það að hún muni þurfa á lungnaígræðslu að halda. Hún segist fegin að þurfa ekki að taka sjálf ákvörðun um hvenær, en það er í höndum lækna hennar. Þar er yfirlæknirinn Martin Holm með ákvarðanavaldið en hann ræðir ástand prisnessunnar við NRK.

Tímasetningin skipti öllu

„Við hugum að lungnaígræðslu þegar útlit er fyrir að henni stafi lífshætta af sjúkdómnum. Ígræðsla er einungis framkvæmd til þess að bjarga lífum,“ útskýrir læknirinn sem segir tímasetninguna skipta máli þar sem um viðamikla aðgerð sé að ræða. Prinsessan sé enn ekki á biðlista eftir ígræðslu, staðan sé ekki nógu alvarleg.

„En við vitum að þetta er lífshættulegur sjúkdómur, þannig að við þurfum að vera undirbúin. Við fylgjumst vel með fólki sem er með þennan sjúkdóm. Hin ýmsu próf geta veitt okkur vísbendingar um lífslíkurnar og hvenær þörf er á ígræðslu. Ástand hennar hefur versnað 2025 sem þýðir að við þurfum að huga að þessu og fylgjumst betur með.“

Hann segir prinsessuna ekki verða tekna fram fyrir aðra í röðinni þegar hún fer á lista yfir líffæraþega. Það sé eðli málsins samkvæmt ekki hægt þar sem þurfi líffæri í réttum blóðflokki og í réttri stærð. „Við tökum mið af því hverjir á lista geta þegið líffærið. Svo verður að velja út frá því hver er veikastur og á minnstan tíma í að bíða.“


Tengdar fréttir

Tjáir sig í fyrsta sinn um bróður sinn

Ingrid Alexandra Noregsprinsessa segir mál hálfbróður síns Mariusar Borg Høiby hafa verið gríðarlega erfitt fyrir norsku konungsfjölskylduna. Prinsessan tjáir sig í fyrsta sinn um málið við norska ríkisútvarpið.

Tjáir sig í fyrsta sinn um bróður sinn

Ingrid Alexandra Noregsprinsessa segir mál hálfbróður síns Mariusar Borg Høiby hafa verið gríðarlega erfitt fyrir norsku konungsfjölskylduna. Prinsessan tjáir sig í fyrsta sinn um málið við norska ríkisútvarpið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.