Enski boltinn

Tók báða Ís­lendingana út af í hálf­leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Willum Þór Willumsson var tekinn af velli í hálfleik í tapi Birmingham í dag.
Willum Þór Willumsson var tekinn af velli í hálfleik í tapi Birmingham í dag. Getty/MI News/

Íslendingaliðið Birmingham City fékk skell á móti Watford í fyrsta leik sínum á nýju ári í ensku B-deildinni.

Watford komst í 2-0 í fyrri hálfleik og vann leikinn 3-0.

Íslensku leikmennirnir, Willum Þór Willumsson og Alfons Sampsted, voru báðir í byrjunarliði Birmingham í dag.

Þeir voru hins vegar báðir teknir af velli í hálfleik. Chris Davies, knattspyrnustjóri Birmingham, ákvað að gera tvær breytingar og það var að taka íslensku leikmennina af velli. Það breytti engu þó um útkomu leiksins.

Báðir náðu þeir Willum og Alfons, að skapa eitt færi fyrir liðsfélaga sína en Alfons kom mun oftar við boltann í hálfleiknum.

Thomas Ince skoraði þrennu fyrir Watford, mörkin hans í fyrri hálfleik komu á 9. og 38. mínútu en hann innsiglaði síðan þrennu sína á 60. mínútu.

Ince er 33 ára gamall sonur Paul Ince, fyrrum leikmanns Manchester UNited, Liverpool og enska landsliðsins.

Hann var bara búinn að skora eitt deildarmark á leiktíðinni og skoraði næstum því jafnmörg mörk í kvöld og í fyrstu 72 deildarleikjum sínum með Watford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×