Enski boltinn

Sjáðu sögu­lega seint sigur­mark og Manchester-liðin missa frá sér sigra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harvey Barnes fagnar hér sögulegu sigurmarki sínu fyrir Newcastle í sigrinum á Leeds í gær.
Harvey Barnes fagnar hér sögulegu sigurmarki sínu fyrir Newcastle í sigrinum á Leeds í gær. Getty/George Wood/

Nú er hægt að sjá hér á Vísi mörkin og alla dramatíkina frá viðburðarríku kvöldi í ensku úrvaldeildinni í gærkvöldi.

Newcastle og Bournemouth skoruðu bæði sigurmörk í uppbótartímanum, Manchester City, Aston Villa og Manchester United töpuðu öll stigum og Chelsea tapaði fyrir nágrönnum sínum í London. Það var nóg um að vera í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Harvey Barnes skoraði tvívegis í endurkomusigri Newcastle á Leeds þar á meðal sigurmarkið á tólfu mínútu í uppbótartíma. Joelinton og Bruno Guimaraes skoruðu hin mörkin en hjá Leeds var Brenden Aaronson með tvö mörk og Dominic Calvert-Lewin skoraði eitt.

Sigurmark Barnes setti nýtt met í ensku úrvalsdeildinni því aldrei áður hefur leikmaður skorað sigurmark svo langt inn í uppbótartíma enda voru liðnar næstum því tólf mínútur af honum. Fögnuðurinn var líka gríðarlegur hjá stuðningsmönnum Newcastle.

Antoine Semenyo tryggði Bournemouth 3-2 sigur á Tottenham með marki á fimmtu mínútu í uppbótartíma en hann átti bæði afmæli sem og var að spila sinn síðasta leik fyrir félagið áður en hann fór til Manchester City. Evanilson og Eli Junior Kroupi skoruðu hin mörkin en mörk Tottenham skoruðu Mathys Tel og Joao Palhinha.

Benjamin Sesko skoraði tvö mörk fyrir Manchester United en það dugði ekki til sigurs í 2-2 jafntefli við Burnley. Sjálfsmark Ayden Heaven kom Burnley yfir en Jaidon Anthony skoraði svo jöfnunarmark á 66. mínútu.

Erling Haaland kom Manchester City yfir með marki úr vítaspyrnu á 41. mínútu en Kaoru Mitoma tryggði Brighton & Hove Albion 1-1 jafntefli á Ethiad þegar hann jafnaði metin eftir klukkutíma leik.

Raul Jiménez og Harry Wilson skoruðu fyrir Fulham í 2-1 sigri á nágrönnum þeirra í Cheslea en Liam Delap hafði jafnað metin í 1-1. Chelsea var manni færri frá 22. mínútu þegar Marc Cucurella fékk beint rautt spjald.

Klippa: Mörkin úr leik Fulham og Chelsea

Brasilíumaðurinn Igor Thiago skoraði tvö mörk þegar Brentford vann 3-0 sigur á Sunderland en þriðja markið skoraði Yehor Yarmoliuk.

Klippa: Mörkin úr leik Brentford og Sunderland
Klippa: Mörkin úr leik Everton og Wolves



Fleiri fréttir

Sjá meira


×