Enski boltinn

Mikel Arteta hrósaði Arne Slot

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, heilsar Arne Slot, knattspyrnustjóra Liverpool, fyrir leik liðanna.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, heilsar Arne Slot, knattspyrnustjóra Liverpool, fyrir leik liðanna. Getty/David Price

Arsenal batt enda á sitt slæma gengi með 4-1 útisigri á Portsmouth í enska bikarnum á sunnudag. Knattspyrnustjórinn Mikel Arteta notaði tækifærið eftir leikinn til að hrósa kollega sínum hjá Liverpool, Arne Slot.

Slot hjálpaði nefnilega til við að lægja öldurnar eftir hið mikið umrædda atvik milli Gabriel Martinelli og Conor Bradley á blaðamannafundi eftir innbyrðis leik liðanna á fimmtudag.

Martinelli komst í fréttirnar af réttum ástæðum í gær eftir viðburðarríka daga á undan.

„Í fótbolta er mikið um að tefja tímann og leikmenn sem þykjast vera meiddir undir lok leiks – sem getur pirrað mótherja. Ég er viss um að hann hefði aldrei gert það ef hann hefði vitað hversu alvarleg meiðslin gætu verið,“ sagði Arne Slot eftir 0-0 jafnteflið á Emirates.

Kantmaður Arsenal lenti í miklu fjölmiðla- og netstormi eftir að hafa ýtt hinum þegar meidda Conor Bradley af vellinum í uppbótartíma í viðureign Arsenal og Liverpool. Atvikið olli sterkum viðbrögðum í kjölfarið og á sunnudag var staðfest að Bradley verður frá keppni það sem eftir er af tímabilinu.

Dæmi um einhvern sem þekkir leikinn vel

„Mér fannst Slot tjá sig frábærlega eftir leikinn. Hvernig hann talaði um mótherjann, útskýrði aðstæðurnar og lagði áherslu á að Gabriel hefði alls ekki ætlað að meiða leikmanninn,“ benti Arteta á eftir sigurinn á sunnudag.

„Ég held að það sé dæmi um einhvern sem þekkir leikinn vel,“ sagði Arteta um knattspyrnustjóra Liverpool.

Nokkrir brugðust harkalega við hegðun Martinelli, þar á meðal sérfræðingur Sky Sports, Gary Neville.

„Þú getur ekki gert þetta, fíflið þitt,“ sagði Gary Neville eftir atvikið.

„Ég skil satt að segja ekki hvernig leikmenn Liverpool fóru ekki að honum og einfaldlega slógu hann og tóku rauða spjaldið. Þetta er algjörlega óásættanlegt,“ sagði Neville.

Skoraði þrennu

Martinelli bað Bradley afsökunar í kjölfarið. Hann sá síðan sjálfur um að koma sér í fréttirnar af réttum ástæðum.

Martinelli var maður leiksins og skoraði alls þrjú mörk í sigrinum á Portsmouth. Eftir fyrsta mark sitt gegn Portsmouth leit út fyrir að hann væri aftur að biðja Norður-Írann aftur afsökunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×