Skoðun

Styðjum Skúla - í okkar þágu

Sindri Freysson skrifar

Ég er nýorðinn átján ára gamall, það er tryllt unglingapartí í gangi í húsi á Suðurgötu og helmingur gestanna búinn að hertaka heita pottinn í garðinum. Sirka þremur tímum eftir miðnætti eru brotin á lögreglusamþykktum orðin ansi mörg. Tónlistin svo hátt stillt að hún hýtur að vera búin að vekja alla nágranna - meira að segja þeir sem eiga lögheimili í kirkjugarðinum handan við götuna eru teknir að rumska.

Inn í öngþveitið stígur …

Þá stígur inn í húsið Skúli Helgason, þá sjálfur aðeins 23 ára gamall. Hann var sonur fjarstaddra húsráðenda en fluttur að heiman fyrir allnokkru og hafði af tilviljun runnið á háreystið á heimleið úr miðbænum. Þarna sá ég Skúla í fyrsta skipti og dáist enn í dag að því hvernig hann tæklaði þetta háværa öngþveiti og dómgreindarlausa lið sem óð hálfnakið og drukkið um ganga og garð.

Skúli las hárrétt í aðstæður á augabragði, og með ótrúlegri yfirvegun, stillingu, geðprýði og lagni kom hann reglu á óregluna. Hann sefaði ungmennahjörðina, lækkaði músíkina þannig að hún kvaldi ekki nágranna lengur, stjakaði meirihlutanum af vitleysingunum út fyrir dyrnar án þess að móðga eða reita nokkurn til reiði, og skipulagði í framhaldinu þrif, tiltekt og frágang fyrir þá sem eftir sátu og báru meginábyrgð á samkvæminu. Án þess að skipta nokkurn tímann skapi eða hækka róminn.

Heilindi, dugnaður og mikilvæg framtíðarsýn

Þetta unglingapartí endur fyrir löngu er auðvitað aðeins míkrókosmosískt dæmi, en endurspeglar samt á einhvern bráðskemmtilegan hátt mannkosti Skúla og getu hans til að bregðast hratt og fumlaust við óvæntum vanda og leysa úr flækjunni farsællega og í sátt og samlyndi. Ég hef margoft orðið vitni að þessum hæfileikum hans síðar meir - ekki í partíum til allra lukku! - heldur á opinberum vettvangi. Ekki síst í pólitíkinni þar sem svo oft þarf að greiða úr vandamálum borgarbúa, eins margþætt og miskrefjandi og þau geta verið. Hann hefur sett málefni fjölskyldufólks á oddinn í gegnum tíðina ásamt menningar-, skóla- og íþróttamálum; þannig berst hann t.d. kappsamlega í þágu þess að bæta þjónustu við barnafjölskyldur varðandi leikskóla, frístundastuðning, almenningsíþróttir og velferðarmál.

Öll aðkoma Skúla að þessum málaflokkum sem og öðrum ber vitni um skýra yfirsýn, skarpa greiningu á stöðunni hverju sinni, vinnusemi og einlægum vilja til að vinna af ósérhlífni og af heilindum í þágu borgarbúa. Og í raun veru eru „heilindi” fyrsta orðið sem kemur upp í huga mér þegar ég hugsa til Skúla: Hann býr yfir sönnum og fágætum heilindum, eiginleikar sem við Reykvíkingar þurfum svo sannarlega á að halda í fari þeirra sem starfa í okkar þágu.

Hann er mannasættir, harðduglegur, gengur skipulega til verks og hefur glögga framtíðarsýn –vill gera góða borg betri og tilbúinn að vinna sleitulaust til að ná því marki. Hann er fljótur að tileinka sér nýjar hugmyndir og hefur þann mikilvæga og sjaldgæfa kost að hlusta á fólk þótt það sé honum ósammála, - og þykist aldrei of góður til að draga lærdóm af sjónarmiðum annarra ef svo ber undir. Hann er kreddulaus og kappsamur, friðarins maður í eðli sínu en hikar þó ekki við að berjast einarðlega fyrir þeim málstað sem hann hefur trú á, gerist þess þörf. Styðjum hann ötullega í 2. sætið á lista Samfylkingarinnar í komandi prófkjöri – okkar vegna.

Höfundur er rithöfundur.




Skoðun

Sjá meira


×