Fótbolti

Birta hetja Genoa í frum­rauninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Birta Georgsdóttir var ekki lengi að stimpla sig inn hjá Genoa.
Birta Georgsdóttir var ekki lengi að stimpla sig inn hjá Genoa. vísir/diego

Besti leikmaður Bestu deildar kvenna á síðasta tímabili, Birta Georgsdóttir, fer heldur betur vel af stað með Genoa. Hún skoraði jöfnunarmark liðsins gegn Fiorentina í ítölsku úrvalsdeildinni í dag. Lokatölur 1-1.

Birta gekk í raðir Genoa frá Breiðabliki á dögunum. Hún byrjaði á varamannabekknum í dag en kom inn á sem varamaður á 73. mínútu.

Þegar mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði Birta og tryggði Genoa stig.

Emma Severini kom Fiorentina yfir með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks og flest benti til að það myndi duga Flórensliðinu til sigurs. En Birta var á öðru máli.

Þetta var fyrsti leikur Birtu síðan hún lék allar 120 mínúturnar í ævintýralegum 2-4 sigri Breiðabliks á Fortuna Hjörring 19. nóvember á síðasta ári. Ekkert ryð var þó í framherjanum sem er heldur betur búinn að stimpla sig inn hjá Genoa sem er í ellefta og næstneðsta sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar. Liðið er með sjö stig eftir tíu leiki.

Katla Tryggvadóttir var í byrjunarliði Fiorentina sem er í 2. sæti deildarinnar með átján stig, fjórum stigum á eftir toppliði Roma sem á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×