Innlent

„Dorrit og eigin­maður hennar frá Ís­landi eru hér“

Ólafur og Dorrit þegar forseti Indlands heimsótti Háskóla Íslands,
Ólafur og Dorrit þegar forseti Indlands heimsótti Háskóla Íslands, Vísir/vilhelm

Minnst er á Dorrit Moussaieff og Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forsetahjón, í tölvupósti sem sendur var kaupsýslumanninum og barnaníðingnum Jeffrey Epstein árið 2016. 

Í póstinum frá rithöfundinum Deepak Chopra tilgreinir hann að „Dorrit og eiginmaður hennar frá Íslandi“ séu stödd á The St. Regis Aspen Resort lúxushótelinu í Colorado í Bandaríkjunum þar sem Chopra muni koma til með að leiða hóp fólks í hugleiðslu.

Mbl.is greindi fyrst frá tölvupóstinum. Í frétt miðilsins er fullyrt að setningin hafi endað með spurningamerkjum og Chopra því verið að beina spurningu um Dorrit og Ólaf til Epsteins. Í afriti af tölvupóstinum sem birtist í gagnapakka dómsmálaráðuneytisins má hins vegar ekki sjá eiginleg spurningamerki heldur keimlíkt tákn sem tölvukerfi sýna þegar þau reyna að birta óþekkt eða óbirtanleg leturtákn. 

Því er ekki hægt að staðhæfa að Chopra hafi þarna verið að beina spurningu til Epsteins. Umrætt merki getur til dæmis birst þegar tölvuforriti mistekst að sýna broskarl eða lyndistákn en ekki er hægt að fullyrða hvað hafi þarna upphaflega birst Epstein í tölvupóstinum.

Þegar annað afrit af umræddum tölvupósti er sótt á vef bandaríska dómsmálaráðuneytisins er einnig greinilegt að setningunni um Dorrit og Ólaf er fylgt eftir með óþekktu tákni.

Samskipti Epstein og Chopra hefjast á því að sá fyrrnefndi lætur rithöfundinn, sem aðhyllist nýaldarspeki og hefur meðal annars talað gegn hefðbundnum læknisfræðilegum aðferðum, vita af því að mjög nánir vinir Epsteins séu staddir með Chopra á hótelinu í Aspen. Þar vísar hann til Joi Ito, þáverandi stjórnanda MIT Media Lab og Ehud Barak, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels.

„Ég hef sent þeim skilaboð um að þú sért einn af fjölskyldunni, þeir munu finna þig ef þú finnur þá ekki fyrst.“

Síðar sama dag svarar Chopra póstinum.

„Frábært

Ég var með samkomu í gær.

Ég mun leiða hugleiðslu í St Regis / Highlands herberginu klukkan 7 fyrir Charlie Rose erindið

Ég mun fara seinna í dag til að halda áfram með túrinn minn

Ást

Ps Dorrit og eiginmaður hennar frá Íslandi eru hér [óþekkt tákn]*“

Minnst á Dorrit í tvö önnur skipti

Þetta er ekki í eina skiptið sem nafnið Dorrit kemur fyrir í Epstein-skjölunum. Tölvupóstur frá Ghislaine Maxwell, samverkakonu Epsteins, til Leons nokkurs sem sendur var í september 2011 hefst með eftirfarandi hætti: „Leon hæ. Ghislaine hér. Sat m/Dorrit sem sagði mér að ég ætti að senda þér tölvupóst umsvifalaust! Hún segir að þú sért að leita að nýjum stjórnarmeðlim og sagði að hún hafi minnst á það við þig hvað fyrirtækið mitt einbeitir sér að.

Ekki er hægt að útiloka að hér sé vísað til annarar konu sem beri sama nafn og forsetafrúin fyrrverandi. Í póstinum heldur Maxwell áfram að lýsa ráðgjafafyrirtæki sínu og hvernig hún hafi áður hjálpað fyrirtæki að finna stjórnarmenn en ekki er aftur minnst á Dorrit í póstinum.

Í tengiliðaskrá sem bandarísk yfirvöld hafa einnig undir höndum í tengslum við rannsóknir á málefnum Epstein má einnig sjá Dorrit á lista ásamt símanúmeri en ekki er tilgreint nánar hvort um sé að ræða Dorrit Moussaieff, athafnakonu og fyrrverandi forsetafrú.

Fréttin er í vinnslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×