Íþróttir

Toronto datt í lukkupottinn
Kanadaliðið Toronto Raptors í NBA deildinni datt heldur betur í lukkupottinn í gær þegar það hreppti fyrsta valréttinn í hinu árlega nýliðavali sem fram fer eftir um það bil mánuð. Dregið er úr lukkupotti um það hvaða lið hreppir hnossið hverju sinni, rétt eins og þegar dregið er í Lottóinu hérlendis og fá liðin úthlutað kúlum í pottinum eftir árangri í deildarkeppninni síðasta vetur.

Miami vann í Detroit
Miami gerði sér lítið fyrir og lagði Detroit á útivelli í fyrsta leik liðanna í úrslitum Austurdeildarinnar í nótt 91-86. Miami hafði ekki spilað í viku fyrir leik gærkvöldsins, en það var lið Detroit sem var ryðgað í gær og hitti skelfilega. Heimamenn náðu ekki að nýta sér villuvandræði þeirra Shaquille O´Neal og Dwayne Wade og eru greinilega enn í bullandi vandræðum á báðum endum vallarins.
Huth orðinn leiður á að sitja á bekknum
Þýski landsliðsmaðurinn Robert Huth segist vera orðinn hundleiður á að sitja endalaust á varamannabekknum hjá Englandsmeisturum Chelsea og ekki er ólíklegt að hann verði lánaður eða seldur frá félaginu á næstu leiktíð.
Stjarnan lagði KR
Stjörnustúlkur lögðu KR 2-1 á heimavelli sínum í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Valur burstaði Þór/KA 6-0, Fylkir sigraði FH 3-0 á útivelli og Breiðablik sigraði Keflavík 3-1 á útivelli. Breiðablik og Valur hafa fullt hús stiga eftir tvær umferðir, en KR og FH eru á botninum án stiga.

Ekki á förum frá Arsenal
Bakvörðurinn Ashle Cole hefur verið orðaður við fjölda liða utan Englands að undanförnu, en hann segist ekki eiga von á því að fara frá félaginu í sumar.
Stjarnan yfir gegn KR
Nú er kominn hálfleikur í leikjum kvöldsins í Landsbankadeild kvenna. Stjörnustúlkur hafa yfir 1-0 gegn KR í rokinu á Stjörnuvelli, þar sem Helga Jóhannesdóttir skoraði mark heimamanna á 18. mínútu. Valur hefur yfir 4-0 í hálfleik gegn KA/Þór, Breiðablik leiðir 3-0 gegn Keflavík og markalaust er hjá FH og Fylki.

Það er nú eða aldrei fyrir okkur
David Beckham segir að það sé nú eða aldrei fyrir sig og jafnaldra sína, ætli þeir sér að vinna til verðlauna á stórmóti með enska landsliðinu. Fyrrum félagi hans hjá Manchester United, Gary Neville, tekur í sama streng.

Kiel meistari
Kiel tryggði sér í kvöld Þýskalandsmeistaratitilinn í handbolta með sannfærandi sigri á Íslendingaliði Lemgo 37-28 á heimavelli sínum. Leikurinn var sýndur í beinni útsendingu á Sýn. Ásgeir Örn Hallgrímsson komst ekki á blað í markaskorun hjá Lemgo og Logi Geirsson gat ekki leikið vegna veikinda. Á sama tíma tapaði Flensburg fyrir Kronau 26-24.
Engin tilboð komin í Dirk Kuyt
Forráðamenn Feyenoord segja að enn hafi engin kauptilboð borist í landsliðsframherjann Dirk Kuyt, sem hefur verið einhver eftirsóttasti framherji Evrópu á undanförnum mánuðum.

Schumacher bjartsýnn
Michael Schumacher segist ekki leggja jafn mikið upp úr því og aðrir að ná ráspól í Mónakókappakstrinum um næstu helgi, en eins og flestir vita eru aðstæður til framúraksturs þar ekki góðar og því hafa tímatökurnar mikið vægi í keppninni.

Nistelrooy hefur áhyggjur af framtíðinni
Engin lausn virðist í sjónmáli í máli framherjans Ruud van Nistelrooy hjá Manchester United, en hann hefur verið úti í kuldanum eftir árekstur við knattspyrnustjórann Alex Ferguson á síðustu dögum tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni.

Morientes ekki á leið til Spánar
Umboðsmaður spænska framherjans Fernando Morientes hjá Liverpool segir ekkert til í orðrómi sem verið hefur á kreiki um að Morientes sé á leið aftur til heimalands síns. Hann hefur verið orðaður við Valencia og Real Betis, en hann á tvö ár eftir af samningi sínum við Liverpool.

Rosicky til Arsenal
Arsenal hefur fengið til sín tékkneska miðjumanninn Tomas Rosicky frá Dortmund í Þýskalandi og skrifaði hann undir langtímasamning við félagið í dag. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp, en hinn 25 ára gamli og smávaxni leikmaður á eflaust eftir að styrkja Lundúnaliðið mikið.

Phoenix í úrslit Vesturdeildar
Leikmenn Phoenix Suns virðast hafa haft gott af hvíldinni sem þeir fengu fyrir oddaleikinn gegn LA Clippers í nótt, því heimamenn náðu forystunni eftir rúma hálfa mínútu í leiknum og létu hana aldrei af hendi í auðveldum 127-107 sigri.

Sögulegur sigur hjá Dallas
Dallas Mavericks vann líklega stærsta sigur í sögu félagsins í nótt þegar liðið lagði meistara San Antonio 118-111 á útivelli í frábærum oddaleik sem fór alla leið í framlengingu.

Íslenska Stoke-ævintýrið á enda
Gunnar Gíslason stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins Stoke City hefur sagt starfi sínu lausu og mun það endanlega renna úr eigu Íslendinga síðar í vikunni. Auðkýfingurinn Peter Coates mun þá ganga frá kaupum á Stoke sem hann greiðir að talið er um 10 milljónir punda fyrir. Breskir fjölmiðlar túlka yfirlýsingu sem Gunnar sendi frá sér í morgun bera vott um biturð en þar verst hann gagnrýni sem íslensku eigendurnir hafa staðið undir.

Íslenskur sigur í Digranesi
Íslenska kvennalandsliðið í blaki gerði sér lítið fyrir og sigraði í fyrsta riðli undankeppni Evrópumóts smáþjóða sem haldinn var í íþróttahúsinu í Digranesi um helgina. Íslenska liðið vann alla þrjá leiki sína í keppninni og sýndi gríðarlegan karakter í úrslitaleiknum gegn Kýpur í gær.

2 marka sigur FH í Laugardalnum
Íslandsmeistarar FH unnu tveggja marka útisigur á Val, 0-2 á Laugardalsvelli í kvöld í lokaleik 2. umferðar Landsbankadeildar karla í knattspyrnu. Valsmenn voru síst lakari aðilinn í leiknum en máttu sætta sig við að fá bæði mörkin á sig eftir aukaspyrnur Tryggva Guðmundssonar. Ármann Smári Björnsson og Freyr Bjarnason skoruðu mörk Íslandsmeistaranna sem eru með fullt hús stiga eftir tvær umferðir.

Laudrup hættir hjá Bröndby
Danska knattspyrnugoðsögnin Michael Laudrup tilkynnti í dag að hann muni ekki framlengja samning sinn sem knattspyrnustjóri danska liðsins Bröndby. Þessi tíðindi hafa nú kynt undir þrálátan orðróm sem uppi hefur verið í Danmörku undanfarna mánuði þess efnis að Laudrup sé að fara að taka við spænska stórliðinu Real Madrid.

Ármann Smári kemur FH yfir gegn Val
FH hefur náð forystu gegn Val á Laugardalsvelli, 0-1 í lokaleik 2. umferðar Landsbankadeildar karla í knattspyrnu. Það var fyrrverandi Valsmaðurinn Ármann Smári Björnsson sem skoraði markið með skalla í þverslána og inn eftir aukaspyrnu Tryggva Guðmundssonar af vinstri kanti. Leiknum er lýst beint hér á Vísi.

Spangsberg byrjar inni á í stað Garðars
Willum Þór Þórsson þjálfari Vals hefur tekið Garðar Gunnlaugsson og Baldur Aðalsteinsson úr byrjunarliði Vals sem tekur á móti FH í stórleik 2. umferðar Landsbankadeildar karla í knattspyrnu. Leikurinn hófst kl. 20 og er í beinni útsendingu á Sýn. Við bendum á að Vísir er einnig með beina útsendingu frá leiknum...

Svíar heimsmeistarar í íshokkí
Ólympíumeistarar Svía urðu í kvöld heimsmeistarar í íshokkí þegar þeir lögðu ríkjandi titilhafa Tékka í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Lettlandi, 4-0. Þetta er í fyrsta sinn sem sömu þjóð tekst að landa bæði ólympíu og heimsmeistaratitli á sama ári en Svíar unnu ólympíugullið á Ítalíu í febrúar sl.

Veigar Páll markahæstur í Noregi
Veigar Páll Gunnarsson lagði upp mark og skoraði svo jöfnunarmark Stabæk þegar 5 mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í 2-2 jafnteflisleik gegn toppliði Lillestrøm í norsku úrvalsdeildinni í kvöld. Jöfnunarmarkið skoraði Veigar úr vítaspyrnu og er hann nú markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar með 6 mörk eftir níu leiki.
Þróttur eitt á toppnum
Þróttur Reykjavík er eitt á toppnum í 1. deild karla í knattspyrnu þegar tveimur umferðum er lokið en annarri umferð lauk með þremur leikjum nú undir kvöldið. Þróttarar lögðu Víking Ólafsvík á útivelli, 2-3, HK vann 4-1 sigur á KA á meðan Þór Akureyri gerði 1-1 jafntefli við Stjörnuna fyrir norðan.
Markús Máni með eitt mark i sigri Düsseldorf
Markús Máni Michaelsson skoraði eitt mark fyrir Düsseldorf sem lagði Großwallstadt, 26-18 í þýsku Bundesligunni í handbolta í dag. Einar Hólmgeirsson skoraði 5 mörk fyrir Großwallstadt og Alexander Petersson tvö. Á Spáni skoraði Einar Örn Jónson 5 mörk fyrir Torrevieja sem vann 29-33 útisigur á Cantabria.

Fyrsti titill Hingis í 4 ár
Svissneska tenniskonan Martina Hingis vann sinn fyrsta titil í rúm fjögur ár í dag þegar hún lagði hina rússnesku Dinara Safina á opna ítalska mótinu í Róm. Hingis vann úrslitaleikinn 6-2 og 7-5 sem búist er við að komi henni inn á topp 15 á heimslistanum sem gefinn verður út á morgun.
Finnar unnu bronsið á HM
Finnar tryggðu sér í dag bronsverðlaunin á heimsmeistaramótinu í íshokkí sem fram fer í Ríga í Lettlandi með því að vinna Kanada, 5-0. Það var varamarkvörður Finna sem var hetja sinna manna en hann varði 37 skot í leiknum.

Ég á meiri virðingu skilið en að komið sé fram við mig eins og skít
Frönsku knattspyrnumennirnir Ludovic Giuly og Nicolas Anelka eru afar óhressir með framkomu franska landsliðsþjálfarans Raymond Domenech í sinn garð en hann valdi hvorugan þeirra í landsliðshópinn fyrir HM sem fer fram í Þýskalandi í næsta mánuði.

Watford í ensku úrvalsdeildina
Watford tryggði sér í dag sæti í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á næsta tímabili þegar liðið lagði Leeds í úrslitaleik í umspili 1. deildar, 3-0. Sigur liðsins var fullkomlega verðskuldaður en Watford yfirspilaði Leeds meirihluta leiksins.Gylfi Einarsson var ekki í leikmannahópi Leeds.
Dawson inn fyrir Young
Sven Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu hefur kallað á Michael Dawson, varnarmann Tottenham til að vera til taks fyrir HM í Þýskalandi í næsta mánuði. Hinn 22 ára Dawson tekur sæti Luke Young, leikmanns Charlton sem meiddist á ökkla á æfingu.