Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Bjarna, sem sjá má í heild sinni hér fyrir neðan, vegna fréttaflutnings um að þrír ráðherrar í ríkisstjórn voru sagðir eiga eða tengjast aflandsfélögum í skattaskjólum. Komið hefur fram að Bjarni er einn þeirra ásamt Sigmundi Davíði Gunnlaugssyni forsætisráðherra og Ólöfu Nordal innanríkisráðherra.
Sjá einnig: Ráðherrarnir þrír sem tengjast aflandsfélögum í skattaskjólum
Bjarni segir að gert hafi verið grein fyrir þessum viðskiptum gagnvart íslenskum skattayfirvöldum. Í Kastljósi þann 11. febrúar 2015 svaraði Bjarni því neitandi aðspurður að því hvort að hann ætti eignir eða viðskipti í skattaskjólum. Segir Bjarni að hann hafi gefið það svar samkvæmt sinni bestu vitund.
„Þessi svör gaf ég eftir bestu vitund, enda taldi ég mig aldrei hafa átt neitt á aflandssvæði. Ég vil eins og aðrir hafa það sem sannara reynist og þykir þetta miður, en vil jafnframt ítreka að þessi viðskipti mín voru ekki í skattaskjóli, enda gefin upp á Íslandi,“ segir Bjarni.
Segir Bjarni að ábending frá erlendum blaðamanni hafi orðið til þess að hann hafi komist að því að félagið var í raun ekki skráð í Lúxemborg heldur á Seychelles-eyjum.
Tilgangur félagsins var að sögn Bjarna að halda utan um eignina í Dubai en svo fór að eigendur Falson & Co tóku ekki við henni. Gengið var frá kaupunum árið 2008 og árið 2009 var málið gert upp með tapi og félagið sett í afskráningarferli. Þá segir Bjarni að félagið hafi engar tekjur haft, ekkert skuldað og ekki tekið lán né átt aðrar eignir.
Í lok yfirlýsingar sinnar segir Bjarni að allir eigi að skila sínu til rekstur samfélagsins.
„Í þessum efnum tel ég rétt að fylgja einfaldri reglu. Það eiga allir að skila sínu til sameiginlegs rekstrar samfélagsins. Langflestir fylgja þessari sjálfsögðu reglu. Ég mun láta einskis ófreistað til að ná til hinna, sem fara á svig við lög og reglur og vilja fá frítt far með samborgurum sínum sem halda uppi lífsgæðunum á Íslandi.“
Yfirlýsing Bjarna í heild sinni: