Lífsháski 13. október 2005 19:12 Ég lenti í því í gærkvöldi að horfa á fyrstu þrjá þættina af bandarísku sjónvarpsseríunni Lífsháski eða Lost sem endursýndir voru í einni bunu. Mér skilst þeir hafi vakið allmikla athygli að undanförnu en þeim hafði samt tekist að fara gersamlega framhjá mér, þangað til í gær, þegar ég nennti ekki á fætur að slökkva á sjónvarpinu þegar fyrsti þátturinn hófst en gerði mér satt að segja litlar vonir. Einhver þáttaröð um fólk sem verður skipreika á eyðieyju ... æ, gæti það verið eitthvað spennandi? – maður búinn að lesa Róbinson Crusoe fyrir löngu – og allskonar tilbrigði við það sama stef – allt frá Andrési Önd til Flughöfðingjans. Nú síðast var bíómyndin Cast Away þar sem Tom karlinn Hanks lék Róbinson-persónuna – og þetta var svo sem ekkert mjög leiðinleg mynd en hafði þó fátt nýtt fram að færa – maður á eyðieyju lærir að bjarga sér – gaman að því, jújú – en til hvers að vera að horfa á meira af svo góðu? Kann maður þetta ekki utanbókar? Þetta hugsaði ég þegar semsagt var byrjað að endursýna þessa fyrstu þrjá þætti af Lost eða Lífsháska í gærkvöldi – nema hvað dóttir mín hafði greinilega áhuga á þessu – hafði eftir vinkonu sinni að þetta væri eitthvað sem kannski væri þess virði að horfa á – jæja, svo ég nennti ekki að rísa á fætur til að slökkva á sjónvarpinu – og við feðginin sátum þarna yfir þessu langt fram yfir miðnætti. Og seisei, þetta var þá bara svona ljómandi skemmtilegt. Það kom nefnilega fljótt í ljós að fólkið sem varð í þessu tilfelli skipreika á eyðieyjunni – það þurfti að fást við ýmislegt fleira heldur en bara læra að bjarga sér eins og Róbinson Crúsó – þetta var augsýnilega eitthvað einkennileg eyja. Því þarna er greinilega einhver furðuleg ógn á sveimi – jafnvel einhverjar dularfullar skepnur. Í fyrstu leist mér ekki alveg á þá bliku – skal ég viðurkenna – því mér sýndist allt stefna í að þetta væri í eðli sínu endurgerð á sögunni um King Kong – risastóra apann sem fannst fyrst á Suðurhafseyju í bíómynd árið 1933 og aumingja þokkadísin Fay Wray lenti í klónum á honum - og hann svo fluttur til Ameríku, þar sem hann klifraði á flótta undan löggunni uppí skýjakljúfinn Empire State Building og var skotinn niður af tvíþekjum – ef ég man rétt af auglýsingaplakötum sem ég hef séð um þessa mynd – en myndina sjálfa hef ég aldrei séð. Og þá reyndar ekki heldur endurgerð hennar sem frumsýnd var árið 1976 – þar var það Jessica greyið Lange sem hinn tröllaukni api King Kong vingaðist við – og það voru í það sinn hinir nýreistu tvíburaturnar í New York sem apinn klifraði uppí á flótta sínum í lokin – og varð fyrir árásum frá F-16 orrustuþotum. Nú er þessi seinni King Kong-bíómynd kannski fyrst og fremst merkilegt fyrir þá mynd sem hún gefur af tvíburaturnunum sem féllu þann 11. september 2001 þegar farþegaþotur Al Kaída flugu á þá – annars þótti hún ekki skemmtileg, ef ég man rétt. Og ég hef reyndar aldrei skilið hvaða áhugi þetta er á sögunni um tröllapann King Kong er leiðir til þess að Ameríkanar eru alltaf að gera um hann nýjar og nýjar bíómyndir – eins og mér finnst hann óintressant. Ég meina, risastór api??! – alveg ferlega fyrirsjáanlegt skrímsli – að mínum dómi – getur bara ekki boðið upp á neitt óvænt ... Furðulegt hefur mér til dæmis fundist að undanfarin misseri hefur nýsjálenski leikstjórinn Peter Jackson verið í óða önn að gera þriðju myndina um King Kong – en Jackson er maðurinn sem gerði þríleikinn eftir Hringadróttinssögu, og þótt ég hafi að vísu ekki nennt að sjá nema fyrstu myndina af þeim þríleik – og hafi fundist hún heldur leiðinleg – (lifandis skelfing sem ég ætla að reynast neikvæður í dag) – en Hringadróttinssaga eitt til þrjú virtist að minnsta kosti sýna fram á að Peter Jackson væri hvað sem öðru liði afar metnaðarfullur leikstjóri og réðist ekki á garðinn þar sem hann væri lægstur. Því skildi ég hvorki upp né niður þegar fréttist að fyrsta myndin hans eftir það þrekvirki yrði þessi nýja endurgerð af King Kong – það fannst mér ekki lýsa miklum metnaði – en myndin hans er víst einmitt núna á leiðinni á markað. Að þessu sinni virðist það vera Naómí nokkur Watts sem verður í hlutverki stelpunnar sem tröllapinn heillast væntanlega af – en “stelpunnar” – það er kannski ekki rétta orðið – Naómí þessi er á besta aldri, tæplega fertug – en ábyggilega augnayndi, alveg vafalaust augnayndi – því væntanlega fer Jackson ekkert að hrófla við þeirri þungamiðju fyrri myndanna að apinn verði skotinn í stelpu, þó stelpan sé að verða fertug – en það eina sem mér í alvöru eitthvað svolítið forvitnilega við nýju myndina er reyndar ekki samband stúlkunnar við mannapann, heldur náttúrlega hvert King Kong ætlar nú að klifra, nú þegar tvíburaturnarnir eru fallnir og Empire State byggingin ekki alveg það nýjasta nýtt lengur. Einhverjir flínkir menn í menningarfræðum eða táknfræðum eða semíótík munu ábyggilega geta lesið eitthvað út úr lausn Jacksons á því vandamáli. Og kannski myndin sé gerð fyrst og fremst til að finna út hvað getur komið í stað tvíburaturnanna, hvað veit ég? Hvernig svo sem lausnin verður – þá mun einhver geta lesið eitthvað út úr henni – eitthvað um 11. september, jafnvel eitthvað um nútímann í heild – túlkun Peter Jacksons á honum – ég veit svosem ekki hvað túlkun hans á samtímanum er merkileg út af fyrir sig - hann er jú maðurinn sem hafði eytt hálfri ævinni í að koma á hvíta tjaldið helstil steingeldri ævintýrabók J.R.R.Tolkiens - og nú er ég að verða svo ósköp neikvæður að þetta gengur varla lengur ... Þó byrjaði ég á svona huggulegum jákvæðum nótum – var svona ljómandi ánægður með þættina Lost eða Lífsháski sem við dóttir mín vorum að horfa á í gærkvöldi, þangað til semsagt að ég fór að óttast að þetta væri ekki annað en eitt tilbrigðið enn við söguna um King Kong. Það virtist að minnsta kosti allt stefna í það – einhver risastór skepna greinilega á ferð útí skóginum á þessari suðurhafseyju – hver gat hún verið önnur en einhvers konar King Kong? Drottinn minn dýri, eins og það sé nú þörf á nýjum King Kong?! – þetta var ég að hugsa – og það getur svosem ennþá verið að King Kong eða einhver náfrændi hans birtist í framhaldi þessarar þáttaraðar sem ég lýsi hér með yfir að ég mun fylgjast með af athygli – það er ekkert útséð um það ennþá að King Kong birtist ekki. En þó tók ég mjög gleði mína þegar á leið því þá varð að minnsta kosti ljóst að sagan ætlaði að verða töluvert flóknari en svo að King Kong væri eini sleikipinninn sem boðið væri upp á – eða spennuvaldurinn – eða hvað á að kalla svoleiðis. Því þarna birtist allt í einu hvítabjörn og réðist á nokkra af hinum skipreika – það fannst mér góð hugmynd – enda vita það allir að hvítabirnir lifa alls ekki á Suðurhafseyjum – og þótt hvítabjörninn væri að vísu drepinn fljótlega, áður en hann gæti fengið sér mannakjet í matinn – þá var tilvist hans ein, þarna á þessari suðrænu eyju, hún var til marks um að eitthvað fleira væri á seyði en bara einn risastór mannapi. Ég veit auðvitað ekki ennþá hvað er á seyði: allra síðast heyrðist neyðarkall frá franskri konu sem hafði víst verið síendurtekið í sextán ár og hún kvartaði sáran undan því að eitthvað dularfullt “það” væri búið að drepa alla ferðafélaga hennar á eyjunni – fyrir þessum sextán árum – og ég stórefast um að þetta “það” sé bara einn hjárænulegur tröllapi að nafni King Kong – hvað þá heldur hvítabjörninn – það er svo berlega eitthvað miklum mun dularfyllra þarna á seyði ... Ég er frómt frá sagt farinn að velta fyrir mér hvort lausnin hljóti ekki að endingu liggja í hliðrænum alheimum eða ormagöngum yfir í aðrar víddir eða beyglum í tímarúminu eða einhverju svona voðalega speis-legu; að minnsta kosti er ég þegar búinn að segja dóttur minni að láta það ekki koma sér á óvart þótt þarna á eyjunni birtist allt í einu hópur af grimmúðlegum nasistum. Þá meina ég nasista beint uppúr Indíána Jones, fremur en myndinni Untergang um síðustu daga Hitlers sem sýnd var á kvikmyndahátíðinni á dögunum – en ef það koma sem sagt nasistar, þá er ég handviss um að það koma líka Rómverjar næst – og svo framvegis – en þessi þáttaröð lofar alla vega góðu ... Það var líka í rauninni bara það sem ég vildi sagt hafa, þótt ég hafi leiðst út á þær villigötur að fara að fabúlera þessi ósköp um King Kong – veit ekki alveg út af hverju, fyrst mér dauðleiðist svona þetta fyrirbæri – það er eitthvað svo frumstætt við að gera risavaxinn mannapa að tákni fyrir ótta og skelfingu nútímamannsins – það er eiginlega það hallærislegasta sem um getur. Fyrir nú utan að þegar um hryllingsmyndir er að ræða, þá krefst ég þess að minnsta kosti að það sé einhver glóra í því sem á hræða mann með – “glóra” þá ekki endilega í rökrænni merkingu – heldur einhvern veginn í huganum – hverju getur maður trúað? – eða réttara sagt: hverju getur maður hugsað sér að trúa? Eða jafnvel ennþá heldur: Hverju getur maður hugsað sér að þykjast trúa? Og risastór mannapi! – ég meina – ég kaupi bara ekki svoleiðis – maður getur gúterað drauga og forynjur og allskonar yfirnáttúruleg skrímsli – en risastórir mannapar, það bara stenst ekki. Í fyrsta lagi býr ennþá í mér – þrátt fyrir ört vaxandi heiladauða – þá býr ennþá í mér gamli tilvonandi náttúrufræðingurinn sem ég ætlaði að verða þegar ég var tíu ára – og þess vegna veit ég að tíu metra háir mannapar eða jafnvel þaðan af stærri, þeir eru ekki til og geta ekki verið til og munu aldrei hafa getað orðið til – af því það eru einfaldlega takmörk fyrir því hvað skepnur af apagerð sem eiga uppruna sinn í trjám geta orðið stórar. Og það eina sem ég hugsa þegar ég sé eitthvað í bíó sem ekki getur staðist – það er einmitt: Þetta getur nú bara ekki staðist, og þá er ekkert gaman lengur – svona stór api hefði einfaldlega ekkert til að lifa á, þó ekki væri annað. Og svo í öðru lagi; ef það hefði nú fyrir einhvern misskilning náttúrunnar samt orðið til svona stór mannapi – þá værum við náttúrlega búin að frétta af því fyrir löngu og það væri fráleitt að einhverjir skipreika vesalingar á Suðurhafseyju mundu bara allt í einu standa frammi fyrir svona risaapa sem enginn hefði áður haft hugmynd um að væri til – maður trúir altso ekki hvaða dellu sem er. Enda - svo ég vaði nú úr einu í annað – þá er það nú að vísu komið í ljós að sú forsenda fyrir myndunum um King Kong að á eyjum í Suðurhafinu þar geti enn þrifist dularfullar prímatategundir – en prímatar eru sú grein spendýra sem bæði apar og menn tilheyra – sú forsenda, hún er reyndar ekki alveg svo galin – því nú dreg ég upp úr ósýnilegum hattinum mínum þá nýfundnu manntegund – ekki einu sinni apategund, heldur já, meira að segja manntegund – sem nýlega fannst á Suðurhafseyjunni Flores í Indónesíueyjaklasanum. Sú manntegund er að vísu útdauð – að því er best er vitað – en bara fyrir svo skömmu – fyrir bara átján þúsund árum – sem er ekki annað en hráki í auga eilífðarinnar – og hver veit nema leifar þessarar manntegundar eigi enn eftir að finnast á lífi – ég vona það alla vega fyrir mína parta – að við eigum eftir að standa augliti til auglitis við lifandi mann af þessari tegund sem líkt og King Kong duldist svo lengi inní dimmum frumskógum á Suðurhafseyju. Og þessi manntegund – sem fékk fyrst nafnið Litla frúin frá Flores, en mér sýnist að vísindamenn séu nú óðum að verða sammála um að kalla “hobbita” eftir söguhetjunum í bókum J.R.R.Tolkiens – einmitt þeim bókum sem Peter Jackson gerði bíómyndir eftir – það er að segja Hringadróttinssögu – sá Peter Jackson sem er núna að gera King Kong – og nú er þetta allt saman orðið svolítið ískyggilegt - alveg sama hvað mér dettur í hug – það reynist tengjast svo skuggalega vel saman – mér líst ekki alveg á blikuna – ég hef alltaf illan bifur á því ef allir hlutir tengjast alltof vel saman – þá verð ég hræddur um að ég fari bráðum að lesa skilaboð til mín útúr bílnúmerum sem ég mæti í umferðinni – ekkert öruggara merki um uppvaxandi skítsófreníu ... En ég held þó ég sé öruggur í bili – þetta hefur bara af hreinni tilviljun allt tengst svona vel hér Á kassanum að þessu sinni – og þar að auki er á Litlu frúnni frá Flores og King Kong sá mikilvægi munur – fyrir utan að Litla frúin var til í alvörunni en King Kong er bara í bíó – og kannski sjónvarpinu ef hann á þrátt fyrir allt eftir að birtast í þættinum Lífsháski – sá mikilvægi munur, vildi ég sagt hafa, að Litla frúin er örlítil, hún var ekki nema metri á hæð – hafði minnkað vegna aðstæðna á eyjunni úr venjulegri stærð frummanna af tegundinni Homo Erectus – svo þar er nú komin ein sönnun þess sem ég sagði áðan að það er einfaldlega enginn grundvöllur fyrir risavöxnum tröllauknum prímötum á Suðurhafseyjum. Aðstæður þar mundu þá líka hafa valdið því að forfaðir King Kongs minnkaði sífellt – svo í raun réttri þá ætti söguhetjan eða söguapinn í nýju myndinni hans Peter Jacksons ekki að vera tíu metrar á hæð og geta kramið Naómí Watts til bana með krumlunum – jafnvel þegar hann meinar bara blíðhót – en ég er viss um að eitthvað svoleiðis gerist í myndinni – sem sagt, King Kong ætti að vera bara örfá fet á hæð – gott ef ekki bara svona vasa-api sem Naómí Watts gæti kramið til bana með því að setjast oná hann ef hún passar sig ekki. Og má þá geta þess að þótt öngvar líkur sé á því að finnist á Suðurhafseyjum einhver risaapi á borð við King Kong, þá eru sífellt að finnast fleiri tegundir af smáöpum allskonar og núna fyrir skemmstu þá var til dæmis tilkynnt að uppgötvast hefði ný tegund af svonefndum Títí-apaköttum sem búa í þéttum regnskógum Suður-Ameríku – sú tegund hefur þegar hlotið nafn og heitir Gullhallartítí – en ástæðan er ekki sú að apaköttur þessi hafi fundist í einhverri fornri og gullsleginni höll inní frumskóginum – heldur var einfaldlega haldið uppboð á netinu þar sem fólk og fyrirtæki gátu keppt um að kaupa nafnið á þessari nýju apategund og hæst bauð veðmálaapparat á Internetinu sem heitir Golden Palace púnktur com – eða Gullhöllin. Og því heitir apinn síðan þessu nafni: Callicebus aurei-palatii á latínu. Það er vissulega nýlunda að nýjum dýrategundum séu valin nöfn með þessum hætti – en segir náttúrlega líka einhverja sögu um nútímann – hlýtur það ekki að vera? Og það er kannski ekkert vitlausari aðferð en hver önnur – alla vega er full þörf á að finna aðferðir til að gefa nýjum dýrategundum nöfn því það hrúgast satt að segja inn nýjar dýrategundir þessi árin – við sem héldum að það væri löngu búið að finna öll dýrin í heiminum – en því fer víst víðs fjarri – það hafa aldrei fundist eins margar nýjar og áður óþekktar dýrategundir og núna upp á síðkastið. Hvort sem menn trúa því eða ekki þá eru greindar milli 15 og 20 þúsund nýjar tegundir af dýrum á hverju einasta ári – og þá eru ekki meðtaldar plöntur og ýmis lífsform önnur. Ekki eru allar þessar lífverur beinlínis stórar í sniðum – til dæmis hafa nýlega verið greindar 200 nýjar tegundir af gerlum sem eingöngu lifa í maganum á bjöllum – en þetta telur allt – þetta telur allt ... Og sumar tegundirnar eru vissulega ívið stórfenglegri – nefnum bara spætutegundina í Norður-Ameríku sem nýlega fannst á ný eftir að hafa verið talin útdauð áratugum saman – og svo fannst fyrir skömmu alveg óþekktur “blóðsugufiskur” í fljótunum miklu á Amasón-svæðinu – fyrir nú utan nýja tegund af ref sem fannst í Indónesíu – og svo framvegis og svo framvegis. Svo það er svosem ekki alveg útilokað að einhvern tíma eigi eftir að finnast risastór api einhvers staðar – nú, eða þá hvítabirnir sem lifa á Suðurhafseyjum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Á kassanum Illugi Jökulsson Mest lesið Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ég lenti í því í gærkvöldi að horfa á fyrstu þrjá þættina af bandarísku sjónvarpsseríunni Lífsháski eða Lost sem endursýndir voru í einni bunu. Mér skilst þeir hafi vakið allmikla athygli að undanförnu en þeim hafði samt tekist að fara gersamlega framhjá mér, þangað til í gær, þegar ég nennti ekki á fætur að slökkva á sjónvarpinu þegar fyrsti þátturinn hófst en gerði mér satt að segja litlar vonir. Einhver þáttaröð um fólk sem verður skipreika á eyðieyju ... æ, gæti það verið eitthvað spennandi? – maður búinn að lesa Róbinson Crusoe fyrir löngu – og allskonar tilbrigði við það sama stef – allt frá Andrési Önd til Flughöfðingjans. Nú síðast var bíómyndin Cast Away þar sem Tom karlinn Hanks lék Róbinson-persónuna – og þetta var svo sem ekkert mjög leiðinleg mynd en hafði þó fátt nýtt fram að færa – maður á eyðieyju lærir að bjarga sér – gaman að því, jújú – en til hvers að vera að horfa á meira af svo góðu? Kann maður þetta ekki utanbókar? Þetta hugsaði ég þegar semsagt var byrjað að endursýna þessa fyrstu þrjá þætti af Lost eða Lífsháska í gærkvöldi – nema hvað dóttir mín hafði greinilega áhuga á þessu – hafði eftir vinkonu sinni að þetta væri eitthvað sem kannski væri þess virði að horfa á – jæja, svo ég nennti ekki að rísa á fætur til að slökkva á sjónvarpinu – og við feðginin sátum þarna yfir þessu langt fram yfir miðnætti. Og seisei, þetta var þá bara svona ljómandi skemmtilegt. Það kom nefnilega fljótt í ljós að fólkið sem varð í þessu tilfelli skipreika á eyðieyjunni – það þurfti að fást við ýmislegt fleira heldur en bara læra að bjarga sér eins og Róbinson Crúsó – þetta var augsýnilega eitthvað einkennileg eyja. Því þarna er greinilega einhver furðuleg ógn á sveimi – jafnvel einhverjar dularfullar skepnur. Í fyrstu leist mér ekki alveg á þá bliku – skal ég viðurkenna – því mér sýndist allt stefna í að þetta væri í eðli sínu endurgerð á sögunni um King Kong – risastóra apann sem fannst fyrst á Suðurhafseyju í bíómynd árið 1933 og aumingja þokkadísin Fay Wray lenti í klónum á honum - og hann svo fluttur til Ameríku, þar sem hann klifraði á flótta undan löggunni uppí skýjakljúfinn Empire State Building og var skotinn niður af tvíþekjum – ef ég man rétt af auglýsingaplakötum sem ég hef séð um þessa mynd – en myndina sjálfa hef ég aldrei séð. Og þá reyndar ekki heldur endurgerð hennar sem frumsýnd var árið 1976 – þar var það Jessica greyið Lange sem hinn tröllaukni api King Kong vingaðist við – og það voru í það sinn hinir nýreistu tvíburaturnar í New York sem apinn klifraði uppí á flótta sínum í lokin – og varð fyrir árásum frá F-16 orrustuþotum. Nú er þessi seinni King Kong-bíómynd kannski fyrst og fremst merkilegt fyrir þá mynd sem hún gefur af tvíburaturnunum sem féllu þann 11. september 2001 þegar farþegaþotur Al Kaída flugu á þá – annars þótti hún ekki skemmtileg, ef ég man rétt. Og ég hef reyndar aldrei skilið hvaða áhugi þetta er á sögunni um tröllapann King Kong er leiðir til þess að Ameríkanar eru alltaf að gera um hann nýjar og nýjar bíómyndir – eins og mér finnst hann óintressant. Ég meina, risastór api??! – alveg ferlega fyrirsjáanlegt skrímsli – að mínum dómi – getur bara ekki boðið upp á neitt óvænt ... Furðulegt hefur mér til dæmis fundist að undanfarin misseri hefur nýsjálenski leikstjórinn Peter Jackson verið í óða önn að gera þriðju myndina um King Kong – en Jackson er maðurinn sem gerði þríleikinn eftir Hringadróttinssögu, og þótt ég hafi að vísu ekki nennt að sjá nema fyrstu myndina af þeim þríleik – og hafi fundist hún heldur leiðinleg – (lifandis skelfing sem ég ætla að reynast neikvæður í dag) – en Hringadróttinssaga eitt til þrjú virtist að minnsta kosti sýna fram á að Peter Jackson væri hvað sem öðru liði afar metnaðarfullur leikstjóri og réðist ekki á garðinn þar sem hann væri lægstur. Því skildi ég hvorki upp né niður þegar fréttist að fyrsta myndin hans eftir það þrekvirki yrði þessi nýja endurgerð af King Kong – það fannst mér ekki lýsa miklum metnaði – en myndin hans er víst einmitt núna á leiðinni á markað. Að þessu sinni virðist það vera Naómí nokkur Watts sem verður í hlutverki stelpunnar sem tröllapinn heillast væntanlega af – en “stelpunnar” – það er kannski ekki rétta orðið – Naómí þessi er á besta aldri, tæplega fertug – en ábyggilega augnayndi, alveg vafalaust augnayndi – því væntanlega fer Jackson ekkert að hrófla við þeirri þungamiðju fyrri myndanna að apinn verði skotinn í stelpu, þó stelpan sé að verða fertug – en það eina sem mér í alvöru eitthvað svolítið forvitnilega við nýju myndina er reyndar ekki samband stúlkunnar við mannapann, heldur náttúrlega hvert King Kong ætlar nú að klifra, nú þegar tvíburaturnarnir eru fallnir og Empire State byggingin ekki alveg það nýjasta nýtt lengur. Einhverjir flínkir menn í menningarfræðum eða táknfræðum eða semíótík munu ábyggilega geta lesið eitthvað út úr lausn Jacksons á því vandamáli. Og kannski myndin sé gerð fyrst og fremst til að finna út hvað getur komið í stað tvíburaturnanna, hvað veit ég? Hvernig svo sem lausnin verður – þá mun einhver geta lesið eitthvað út úr henni – eitthvað um 11. september, jafnvel eitthvað um nútímann í heild – túlkun Peter Jacksons á honum – ég veit svosem ekki hvað túlkun hans á samtímanum er merkileg út af fyrir sig - hann er jú maðurinn sem hafði eytt hálfri ævinni í að koma á hvíta tjaldið helstil steingeldri ævintýrabók J.R.R.Tolkiens - og nú er ég að verða svo ósköp neikvæður að þetta gengur varla lengur ... Þó byrjaði ég á svona huggulegum jákvæðum nótum – var svona ljómandi ánægður með þættina Lost eða Lífsháski sem við dóttir mín vorum að horfa á í gærkvöldi, þangað til semsagt að ég fór að óttast að þetta væri ekki annað en eitt tilbrigðið enn við söguna um King Kong. Það virtist að minnsta kosti allt stefna í það – einhver risastór skepna greinilega á ferð útí skóginum á þessari suðurhafseyju – hver gat hún verið önnur en einhvers konar King Kong? Drottinn minn dýri, eins og það sé nú þörf á nýjum King Kong?! – þetta var ég að hugsa – og það getur svosem ennþá verið að King Kong eða einhver náfrændi hans birtist í framhaldi þessarar þáttaraðar sem ég lýsi hér með yfir að ég mun fylgjast með af athygli – það er ekkert útséð um það ennþá að King Kong birtist ekki. En þó tók ég mjög gleði mína þegar á leið því þá varð að minnsta kosti ljóst að sagan ætlaði að verða töluvert flóknari en svo að King Kong væri eini sleikipinninn sem boðið væri upp á – eða spennuvaldurinn – eða hvað á að kalla svoleiðis. Því þarna birtist allt í einu hvítabjörn og réðist á nokkra af hinum skipreika – það fannst mér góð hugmynd – enda vita það allir að hvítabirnir lifa alls ekki á Suðurhafseyjum – og þótt hvítabjörninn væri að vísu drepinn fljótlega, áður en hann gæti fengið sér mannakjet í matinn – þá var tilvist hans ein, þarna á þessari suðrænu eyju, hún var til marks um að eitthvað fleira væri á seyði en bara einn risastór mannapi. Ég veit auðvitað ekki ennþá hvað er á seyði: allra síðast heyrðist neyðarkall frá franskri konu sem hafði víst verið síendurtekið í sextán ár og hún kvartaði sáran undan því að eitthvað dularfullt “það” væri búið að drepa alla ferðafélaga hennar á eyjunni – fyrir þessum sextán árum – og ég stórefast um að þetta “það” sé bara einn hjárænulegur tröllapi að nafni King Kong – hvað þá heldur hvítabjörninn – það er svo berlega eitthvað miklum mun dularfyllra þarna á seyði ... Ég er frómt frá sagt farinn að velta fyrir mér hvort lausnin hljóti ekki að endingu liggja í hliðrænum alheimum eða ormagöngum yfir í aðrar víddir eða beyglum í tímarúminu eða einhverju svona voðalega speis-legu; að minnsta kosti er ég þegar búinn að segja dóttur minni að láta það ekki koma sér á óvart þótt þarna á eyjunni birtist allt í einu hópur af grimmúðlegum nasistum. Þá meina ég nasista beint uppúr Indíána Jones, fremur en myndinni Untergang um síðustu daga Hitlers sem sýnd var á kvikmyndahátíðinni á dögunum – en ef það koma sem sagt nasistar, þá er ég handviss um að það koma líka Rómverjar næst – og svo framvegis – en þessi þáttaröð lofar alla vega góðu ... Það var líka í rauninni bara það sem ég vildi sagt hafa, þótt ég hafi leiðst út á þær villigötur að fara að fabúlera þessi ósköp um King Kong – veit ekki alveg út af hverju, fyrst mér dauðleiðist svona þetta fyrirbæri – það er eitthvað svo frumstætt við að gera risavaxinn mannapa að tákni fyrir ótta og skelfingu nútímamannsins – það er eiginlega það hallærislegasta sem um getur. Fyrir nú utan að þegar um hryllingsmyndir er að ræða, þá krefst ég þess að minnsta kosti að það sé einhver glóra í því sem á hræða mann með – “glóra” þá ekki endilega í rökrænni merkingu – heldur einhvern veginn í huganum – hverju getur maður trúað? – eða réttara sagt: hverju getur maður hugsað sér að trúa? Eða jafnvel ennþá heldur: Hverju getur maður hugsað sér að þykjast trúa? Og risastór mannapi! – ég meina – ég kaupi bara ekki svoleiðis – maður getur gúterað drauga og forynjur og allskonar yfirnáttúruleg skrímsli – en risastórir mannapar, það bara stenst ekki. Í fyrsta lagi býr ennþá í mér – þrátt fyrir ört vaxandi heiladauða – þá býr ennþá í mér gamli tilvonandi náttúrufræðingurinn sem ég ætlaði að verða þegar ég var tíu ára – og þess vegna veit ég að tíu metra háir mannapar eða jafnvel þaðan af stærri, þeir eru ekki til og geta ekki verið til og munu aldrei hafa getað orðið til – af því það eru einfaldlega takmörk fyrir því hvað skepnur af apagerð sem eiga uppruna sinn í trjám geta orðið stórar. Og það eina sem ég hugsa þegar ég sé eitthvað í bíó sem ekki getur staðist – það er einmitt: Þetta getur nú bara ekki staðist, og þá er ekkert gaman lengur – svona stór api hefði einfaldlega ekkert til að lifa á, þó ekki væri annað. Og svo í öðru lagi; ef það hefði nú fyrir einhvern misskilning náttúrunnar samt orðið til svona stór mannapi – þá værum við náttúrlega búin að frétta af því fyrir löngu og það væri fráleitt að einhverjir skipreika vesalingar á Suðurhafseyju mundu bara allt í einu standa frammi fyrir svona risaapa sem enginn hefði áður haft hugmynd um að væri til – maður trúir altso ekki hvaða dellu sem er. Enda - svo ég vaði nú úr einu í annað – þá er það nú að vísu komið í ljós að sú forsenda fyrir myndunum um King Kong að á eyjum í Suðurhafinu þar geti enn þrifist dularfullar prímatategundir – en prímatar eru sú grein spendýra sem bæði apar og menn tilheyra – sú forsenda, hún er reyndar ekki alveg svo galin – því nú dreg ég upp úr ósýnilegum hattinum mínum þá nýfundnu manntegund – ekki einu sinni apategund, heldur já, meira að segja manntegund – sem nýlega fannst á Suðurhafseyjunni Flores í Indónesíueyjaklasanum. Sú manntegund er að vísu útdauð – að því er best er vitað – en bara fyrir svo skömmu – fyrir bara átján þúsund árum – sem er ekki annað en hráki í auga eilífðarinnar – og hver veit nema leifar þessarar manntegundar eigi enn eftir að finnast á lífi – ég vona það alla vega fyrir mína parta – að við eigum eftir að standa augliti til auglitis við lifandi mann af þessari tegund sem líkt og King Kong duldist svo lengi inní dimmum frumskógum á Suðurhafseyju. Og þessi manntegund – sem fékk fyrst nafnið Litla frúin frá Flores, en mér sýnist að vísindamenn séu nú óðum að verða sammála um að kalla “hobbita” eftir söguhetjunum í bókum J.R.R.Tolkiens – einmitt þeim bókum sem Peter Jackson gerði bíómyndir eftir – það er að segja Hringadróttinssögu – sá Peter Jackson sem er núna að gera King Kong – og nú er þetta allt saman orðið svolítið ískyggilegt - alveg sama hvað mér dettur í hug – það reynist tengjast svo skuggalega vel saman – mér líst ekki alveg á blikuna – ég hef alltaf illan bifur á því ef allir hlutir tengjast alltof vel saman – þá verð ég hræddur um að ég fari bráðum að lesa skilaboð til mín útúr bílnúmerum sem ég mæti í umferðinni – ekkert öruggara merki um uppvaxandi skítsófreníu ... En ég held þó ég sé öruggur í bili – þetta hefur bara af hreinni tilviljun allt tengst svona vel hér Á kassanum að þessu sinni – og þar að auki er á Litlu frúnni frá Flores og King Kong sá mikilvægi munur – fyrir utan að Litla frúin var til í alvörunni en King Kong er bara í bíó – og kannski sjónvarpinu ef hann á þrátt fyrir allt eftir að birtast í þættinum Lífsháski – sá mikilvægi munur, vildi ég sagt hafa, að Litla frúin er örlítil, hún var ekki nema metri á hæð – hafði minnkað vegna aðstæðna á eyjunni úr venjulegri stærð frummanna af tegundinni Homo Erectus – svo þar er nú komin ein sönnun þess sem ég sagði áðan að það er einfaldlega enginn grundvöllur fyrir risavöxnum tröllauknum prímötum á Suðurhafseyjum. Aðstæður þar mundu þá líka hafa valdið því að forfaðir King Kongs minnkaði sífellt – svo í raun réttri þá ætti söguhetjan eða söguapinn í nýju myndinni hans Peter Jacksons ekki að vera tíu metrar á hæð og geta kramið Naómí Watts til bana með krumlunum – jafnvel þegar hann meinar bara blíðhót – en ég er viss um að eitthvað svoleiðis gerist í myndinni – sem sagt, King Kong ætti að vera bara örfá fet á hæð – gott ef ekki bara svona vasa-api sem Naómí Watts gæti kramið til bana með því að setjast oná hann ef hún passar sig ekki. Og má þá geta þess að þótt öngvar líkur sé á því að finnist á Suðurhafseyjum einhver risaapi á borð við King Kong, þá eru sífellt að finnast fleiri tegundir af smáöpum allskonar og núna fyrir skemmstu þá var til dæmis tilkynnt að uppgötvast hefði ný tegund af svonefndum Títí-apaköttum sem búa í þéttum regnskógum Suður-Ameríku – sú tegund hefur þegar hlotið nafn og heitir Gullhallartítí – en ástæðan er ekki sú að apaköttur þessi hafi fundist í einhverri fornri og gullsleginni höll inní frumskóginum – heldur var einfaldlega haldið uppboð á netinu þar sem fólk og fyrirtæki gátu keppt um að kaupa nafnið á þessari nýju apategund og hæst bauð veðmálaapparat á Internetinu sem heitir Golden Palace púnktur com – eða Gullhöllin. Og því heitir apinn síðan þessu nafni: Callicebus aurei-palatii á latínu. Það er vissulega nýlunda að nýjum dýrategundum séu valin nöfn með þessum hætti – en segir náttúrlega líka einhverja sögu um nútímann – hlýtur það ekki að vera? Og það er kannski ekkert vitlausari aðferð en hver önnur – alla vega er full þörf á að finna aðferðir til að gefa nýjum dýrategundum nöfn því það hrúgast satt að segja inn nýjar dýrategundir þessi árin – við sem héldum að það væri löngu búið að finna öll dýrin í heiminum – en því fer víst víðs fjarri – það hafa aldrei fundist eins margar nýjar og áður óþekktar dýrategundir og núna upp á síðkastið. Hvort sem menn trúa því eða ekki þá eru greindar milli 15 og 20 þúsund nýjar tegundir af dýrum á hverju einasta ári – og þá eru ekki meðtaldar plöntur og ýmis lífsform önnur. Ekki eru allar þessar lífverur beinlínis stórar í sniðum – til dæmis hafa nýlega verið greindar 200 nýjar tegundir af gerlum sem eingöngu lifa í maganum á bjöllum – en þetta telur allt – þetta telur allt ... Og sumar tegundirnar eru vissulega ívið stórfenglegri – nefnum bara spætutegundina í Norður-Ameríku sem nýlega fannst á ný eftir að hafa verið talin útdauð áratugum saman – og svo fannst fyrir skömmu alveg óþekktur “blóðsugufiskur” í fljótunum miklu á Amasón-svæðinu – fyrir nú utan nýja tegund af ref sem fannst í Indónesíu – og svo framvegis og svo framvegis. Svo það er svosem ekki alveg útilokað að einhvern tíma eigi eftir að finnast risastór api einhvers staðar – nú, eða þá hvítabirnir sem lifa á Suðurhafseyjum.
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun