Meðallaun á almennum vinnumarkaði voru 315 þúsund krónur á mánuði í fyrra samkvæmt launakönnun Hagstofunnar sem birt var í gær. 12,6 prósenta hækkun varð frá árinu áður þegar meðallaun voru 280 þúsund krónur.
Í Morgunkornum Glitnis segir að þessar niðurstöður endurspegli mikinn hagvöxt á tímabilinu og spennu á vinnumarkaði.
Fjöldi greiddra vinnustunda var 46,5 að meðaltali á viku og hafði þeim fjölgað um 1,2 klukkustundir frá árinu áður. Skráð atvinnuleysi mældist 2,1 prósent á árinu.
Stjórnendur reyndust hafa hæstu meðallaunin, 507 þúsund krónur á mánuði. Þá komu sérfræðingar með 430 þúsund krónur. Iðnaðarmenn voru með 368 þúsund krónur. Lægstu launin höfðu verkamenn með 253 þúsund krónur að meðaltali á mánuði.
Fólk milli fertugs og fimmtugs hefur hæstu launin en ungmenni undir tvítugu þau lægstu. Yfirvinnugreiðslur voru mestar hjá iðnaðarmönnum og verkafólki eða tæpur fjórðungur heildarlauna; samanborið við þrjú prósent hjá stjórnendum og fjögur prósent hjá sérfræðingum.