Glitnir hefur keypt eigin skuldabréf fyrir 25 milljónir evra sem nemur tæpum 2,3 milljörðum króna. Í tilkynningu til Kauphallarinnar í Lundúnum kemur fram að bankinn eigi yfir tíu prósent í þeim flokki, sem þessi bréf tilheyra, en það eru um 35 milljónir evra.
Ástæðan fyrir þessum endurkaupum er fyrst og fremst sterk lausafjárstaða bankans í augnablikinu. Við erum með vel yfir tvo milljarða evra í lausu fé og því erum við í raun og veru að ávaxta það í þessum bréfum, segir Ingvar H. Ragnarsson, forstöðumaður alþjóðlegrar fjármögnunar hjá Glitni. Hann bætir við: Við sjáum einfaldlega gott fjárfestingatækifæri í okkar eigin útgáfum á eftirmarkaði.
Skuldabréfaflokkurinn kemur til greiðslu á næsta ári og þar með lækkar endurfjármögnunarþörf bankans sem kaupunum nemur.
Ingvar segist hafa fundið fyrir vaxandi eftirspurn eftir skammtímaskuldabréfum Glitnis í vikunni eftir að félagið birti afkomu sína. Í vikunni hefur tryggingaálag á skuldabréfum allra bankanna lækkað eftir fremur jákvæð skrif frá erlendum markaðsaðilum.