Heimsmarkaðsverð á kaffibaunum hefur hækkað mikið það sem af er árs vegna úrhellis í Asíu en þurrka í Suður-Ameríku sem spillt hefur kaffibaunauppskeru í helstu útflutningslöndunum og er svo komið að verðið hefur ekki verið hærra í sjö ár.
Vegna áhrifa veðurfars á kaffibaunauppskeru hafa birgðir af kaffibaunum minnkað á helstu mörkuðum og er útlit fyrir frekari hækkanir á næsta ári vegna uppskerubrests á Indlandi.
Verð á grófmöluðu og þurrkuðum kaffibaunum, sem notaðar eru í skyndikaffi, og fer á markað í næsta mánuði, hefur hækkað um 50 prósent á síðastliðnum 12 mánuðum og kostar tonnið nú um stundir 882 pund, jafnvirði 117.500 króna.
Þá hefur verð á fínmöluðum kaffibaunum hækkað um 35 prósent á sama tímabili aðallega vegna þurrka í Brasilíu, sem hefur um 65 prósenta markaðshlutdeild á kaffibaunamarkaðnum.
Verðhækkanir á kaffibaunum hafa ekki skilað sér út í verðlag á unnu kaffi en Alþjóðasamtök um kaffiframleiðslu (ICO) sem hefur aðsetur í Lundúnum í Bretlandi, segir kaffiskortinn tímabundinn og býst við lítilsháttar verðhækkunum til neytenda á næstunni.