Samræmd vísitala neysluverð í EES-ríkjunum var 100,9 stig í febrúar og hækkaði um 0,3 prósent frá fyrri mánuði. Vísitalan fyrir Ísland var 100,8 stig og lækkaði hún um 0,2 prósent frá fyrri mánuði. Verðbólga á Evrópska efnahagssvæðinu var mest í Lettlandi.
Frá febrúar 2005 til jafnlengdar árið 2006 var verðbólgan, mæld með samræmdri vísitölu neysluverðs, 2,2 prósent að meðaltali í ríkjum EES, 2,3 prósent á evrusvæðinu og 1,2 prósent á Íslandi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.
Mesta verðbólga á Evrópska efnahagssvæðinu á þessu tólf mánaða tímabili var 7,0% í Lettlandi, 4,5% í Eistlandi og 4,3% í Slóvakíu. Minnst var verðbólgan 0,6% í Finnlandi, 0,9% í Póllandi og 1,1% og Svíþjóð.
